„Ég flutti til London einungis fyrir leiklistina“

Hallvarður Jes Gíslason leikari býr í London.
Hallvarður Jes Gíslason leikari býr í London. ljósmynd/Jack Roper

Hallvarður Jes Gíslason leikari hefur búið í London í um eitt og hálft ár. Auk þess sem hann mætir í prufur og tekur að sér verkefni er hann er starfsmaður Wyndham's Theatre í miðborg London en hann segir sniðugt fyrir leikara að fá borgað fyrir að horfa á leiksýningar. Lífið snýst því að stórum hluta um leiklist og býr Hallvarður Jes yfir góðum ráðum fyrir fólk sem hefur áhuga á að kíkja í leikhús í London. 

„Ég flutti til London einungis fyrir leiklistina. Leiklistarlífið í London er virkilega stórt og ríkt. Allar prufurnar eru hér og frábært að geta skapað tengslanet hérna úti.

Ég var að ljúka við að leika í bíómynd í seinasta mánuði um Arthur konung og riddara hans. Að vera á því setti var stórkostlegt, hellingur af fríum mat og allir með sverð. Má ekki segja mikið en get sagt að ég leik vondan herforingja. Ég hef mikið æft það sem kallast „Stage and Film Combat“, alveg frá því að ég var í leiklistarnámi í Bournemouth, og sú þjálfun kom sér virkilega vel á settinu þar sem ég fékk þann heiður að berjast við nokkra af frægustu riddurum Arthurs konungs. Það mun koma í ljós hver fer með sigur úr bítum þegar myndin kemur út í apríl 2020.

Inn á milli verkefna skrifa ég handrit að stuttmyndum til að halda mér við efnið, sem er mikilvægt að gera fyrir leikara. Maður má ekki festast í þeim vana að sitja og bíða eftir að umboðsmaðurinn hringi með næstu prufu eða verkefni. Maður verður að vera virkur og aldrei hætta að vera virkur,“ segir Hallvarður Jes um lífið í London. 

Er eitthvað við breska menningu sem þú hefur tekið ástfóstri við?

„Ég fæ mjög oft löngun í „Full English Breakfast“. Matargerð er alls ekki eitthvað sem Bretar hafa lag á en þeir kunna að gera góðan morgunmat.“

Hvað er ómissandi að sjá og gera í London?

„Jólin í London eru algjörlega málið. Jólamarkaðir allstaðar, jólaskreytingarnar á götunum þá sérstaklega í Oxford Street og Covent Garden. Mulled wine og heitt súkkulaði á hverju horni. Mæli með jólum í London sérstaklega fyrir pör. Mjög kósí.“

Shakespeare's Globe Theatre.
Shakespeare's Globe Theatre. ljósmynd/Shakespeare's Globe

Hvernig er leikhúslífið í London? 

„Leikhúslífið er virkilega lifandi í London. Fyrir túrista er mjög vinsælt að fara á söngleiki en persónulega finnst mér oft eins og söngleikirnir í London setji skugga á allt hitt sem leikhúslífið í London hefur upp á að bjóða. Sjálfum finnst mér mjög gaman að fara í The National Theatre í London, alltaf mjög vandaðar og flottar sýningar. Gaman líka að bíða í röðinni fyrir „Return tickets“ (þegar fólk kemst ekki á sýningu og skilar inn miðanum svo aðrir geti notað þá) og tala við fólkið í röðinni sem oftast eru leiklistarnemar eða fólk úr leiklistarbransanum.

Ég er líka mikill Shakespeare-nörd og finnst mjög gaman að kaupa „Groundling“-miða (þar sem maður stendur í pittinum fyrir framan sviðið) í Shakespeare's Globe Theatre. Leikararnir þar eru oft með áhorfendunum í pittinum og þegar þeir fara með það sem er kallað „soliloquy (þegar leikari/karakter er einn á sviði og talar upphátt við sjálfan sig) þá beina þeir því oftast til áhorfenda eins og talið er að leikarar gerðu á tímum Shakespeares. Svoldið líkt „Immersive theatre“-stílnum sem mér finnst að flest Shakespeare leikrit ættu að vera gerð í dag.

The Old Vic er líka mjög fallegt leikhús sem fólk ætti alls ekki að láta framhjá sér fara. Sá Daniel Radcliff fara þar á kostum fyrst þegar ég flutti til London.“

Áttu þér uppáhaldshverfi?

„Hverfinn í norður og norð-vestur London eru mín uppáhalds. Alveg frá Hammersmith til Camden. Gaman að missa sig á Camden market sem er fjörugur staður og algjörlega staðurinn til að kaupa sér góðan leðurjakka. En að taka góðan haustlabbitúr meðfram Thames-ánni hjá Hammersmith er mjög fallegt og róandi.“

Hallvarði Jes finnst gott að fara í haustgöngu meðfram ánni …
Hallvarði Jes finnst gott að fara í haustgöngu meðfram ánni Thames. ljósmynd/Sindri Swan

Áttu þér uppáhaldsveitingastað?

„Ég átti mér uppáhalds veitingastað, Hann er því miður lokaður eða fluttur, er ekki viss. En sá staður hét The Flying Pie. Yfirmaðurinn á staðnum þekkti mig því ég var byrjaður að verða fastagestur svo hann hætti að rukka mig fyrir matinn... sem er kannski ástæðan af hverju þau þurftu að loka.“

En kaffihús?

„Ég get ekki með góðri samvisku mælt með kaffistöðum í London. Ég er enn að leita að góðu kaffi í London. Hef ekki en fundið það.

Ef þú ert listatýpa, leikari, leikstjóri eða kvikmyndagerðarmaður þá mæli ég með kaffiteríunni í The National Theatre. Margir fara þangað til að vinna í handritum eða plana næsta leikrit saman yfir avókdó ristabrauði og kaffi. Kaffið er ekkert sérstakt en stemningin góð.“

Hvernig er draumadagurinn í London?

„Minn persónulegi draumadagur í London var í lok október í fyrra þegar ég og góður vinur minn úr háskólanum tókum upp bardagasenu uppi á virkilega háu þaki í London. Þetta var í gegnum kvikmyndaframleiðslufyrirtæki sem sérhæfði sig í bardagasenum fyrir „showreel“. „Showreel“ er það sem leikarar nota til að auglýsa sig. Framleiðandinn á settinu var mjög skemmtileg og falleg leikkona sem ég hafði kynnst aðeins þegar við æfðum saman „stage combat. Þannig að á meðan ég og vinur minn vorum að berjast uppi á skýjakljúfi í London var ég á sama tíma að reyna brjóta heilann um það hvernig ég ætti að bjóða henni út, sem var erfitt því hún var framleiðandi og leikari á sama setti, svo hún var alltaf upptekin. En það tókst á endanum og við erum búinn að vera saman í heilt ár núna. Hún sagði mér seinna meir að hún hafi líka verið að reyna að bjóða mér út á meðan tökum stóð, ég varð bara fyrri til.“

Hallvarður Jes kynntist kærustu sinni í tökum á bardagasenu uppi …
Hallvarður Jes kynntist kærustu sinni í tökum á bardagasenu uppi á háhýsi í London.

Er eitthvað við London sem mætti vera betra?

„Það sem mætti vera betra í London er að þetta er ekki sérstaklega neytendavæn borg, það eru sárafáir staðir þar sem maður getur almennilega sest niður og slappað af. Aðrar borgir í Evrópu, eins og til dæmis Berlín eða Prag, eru dreifðari og hljóðlátari sem gerir það að verkum að maður getur sest niður í báðum þessum borgum og slappað af með kaffi og bók og ekki liðið eins og maður sé að kafna í fólki. London er mjög troðin borg og maður finnur það mikið í loftinu. Margir að drífa sig og gleyma að borg á að vera meira en bara heimili og vinnustaður.“

Er eitthvað sem þú saknar frá Íslandi?

„Maður saknar auðvitað bæði fjölskyldu og vina á Íslandi. En ég fæ mikinn stuðning frá þeim öllum, sem heldur mér gangandi. Sérstaklega þar sem það getur verið erfitt að elta drauminn. Bara um daginn þá fór ég í áheyrnarprufu fyrir erlenda mynd þar sem hlutverkið var „íslenskur maður“. Ég taldi mig auðvitað eiga frekar góðar líkur á að landa þessu hlutverki, en það gerðist ekki. Eftir það hrundi yfir mig smá vonleysi en bæði fjölskylda mín, vinirnir og auðvitað Audrey kærastan mín voru góð í að hressa mig úr öllu vonleysi. Og stuttu eftir það fékk ég hlutverkið í myndinni um Arthur konung, þannig að allt reddast þetta nú á endanum ef maður er með gott lið í kringum sig og gott hugarfar.

Hvað mat og drykki varðar: Íslenskt kaffi, fjörmjólk og grjónagrauturinn hans pabba er það sem ég sakna mest!“

mbl.is