Ferðalangur lést við sjálfumyndatöku

Víða má sjá ferðamenn taka sjálfumyndir en tökustaðirnir eru ekki …
Víða má sjá ferðamenn taka sjálfumyndir en tökustaðirnir eru ekki allir jafn öryggir og á þessari mynd. mbl.is/Colourbox.dk

Það getur verið varhugavert að reyna ná af sér einstakri sjálfu á ferðalagi. Í síðustu viku lést franskur ferðamaður í Taílandi en hann var að reyna ná af sér góðri sjálfu við foss á eyjunni Koh Samui. Franski ferðamaðurinn er langt frá því að vera sá eini sem látist hefur við þessa iðju. 

Vinur ferðalangsins var með honum þegar hann dó. Hann segir vin sinn hafa runnið og dottið niður fossinn í kjölfarið eða yfir 260 metra. Svæðið er afgirt auk þess sem varað er við hættu á svæðinu. Á vef CNN kemur fram að spænskur ferðamaður hafi runnið til á sama stað í sumar og látist í kjölfarið. 

Það er því ekki bara á Íslandi sem ferðamenn fara á hættulega staði til þess að ná af sér góðri mynd en síðasta áratuginn hefur sjálfuslysum fjölgað ört. Í indversku læknisfræðitímariti var greint frá því að alls höfðu 259 manns dáið við sjálfumyndatökur um allan heim á aðeins sex ára tímabili, frá október 2011 til nóvember 2017. 

Franski ferðalangurinn var að reyna að ná af sér mynd …
Franski ferðalangurinn var að reyna að ná af sér mynd við þennan foss þegar hann féll og dó. AFP
Hér má sjá fólk að störfum við fossinn.
Hér má sjá fólk að störfum við fossinn. AFP
mbl.is