Rappari sakar Qantas um kynþáttafordóma

Will.i.am.
Will.i.am. AFP

Rapparinn Will.i.am hefur sakað flugþjón flugfélagsins Qantas um kynþáttafordóma. Will.i.am segir frá upplifun sinni í færslum á Twitter um helgina. 

Will.iam var í flugi á laugardaginn frá Brisbane til Sydney í Ástralíu. Hann segir að flugþjónninn hafi bara skammað hann eftir að hann heyrði ekki tilkynningu um að hann ætti að pakka saman fartölvunni sinni. 

Hann segist ekki vilja trúa því að flugþjónninn hafi kynþáttafordóma, en að hún hafi beitt sér gegn öllum þeim sem voru ekki hvítir í fluginu. Þegar hann lenti í Sydney tóku lögreglumenn á móti honum. Hann segir á Twitter að hann skilji ekki af hverju lögreglan var kölluð til. 

Qantas hefur svarað ásökunum rapparans með tilkynningu. „Það var miskilningur um borð sem virðist hafa sprottið af því að Will.i.am var með hljóðeinangrandi heyrnartól og gat þess vegna ekki heyrt tilkynningar frá áhöfninni. Við munum hafa samband við Will.i.am og óskum honum góðs gengis á tónleikaferðalaginu,“ segir í tilkynningu Qantas.

Will.i.am nafngreindi umræddan starfsmann á Twitter og deildi mynd af henni. Hann hefur fengið að heyra það fyrir að nafngreina hana og hefur síðan þá beðið fólk um að láta hana í friði. 

Aðrir farþegar úr umræddu flugi hafa einnig tjáð sig á Twitter og tekur einn undir með rapparanum og sagðist hafa tekið eftir framferði flugþjónsins gagnvart honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert