Guðbjörg og Ragnar Þór völdu brúðkaupsferð í stað veislu

Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir og Ragnar Þór Ingólfsson fóru í brúðkaupsferðalag …
Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir og Ragnar Þór Ingólfsson fóru í brúðkaupsferðalag drauma sinna. Ljósmynd/aðsend

Hjónin Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir kennari og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, giftu sig á látlausan hátt í gömlu kirkjunni á Árbæjarsafni í nóvember í fyrra. Fyrir stuttu fóru þau svo í ævintýralega brúðkaupsferð til Asíu. Ferðin var mikil upplifun en Guðbjörg segir að í ferðinni hafi þau haft tíma til að njóta sín án barna og annarra skuldbindinga. 

„Við erum búin að vera saman síðan 2015 og vorum strax ákveðin í að vera saman alla ævi. Ragnar bað mín úti í Svíþjóð 2016 þar sem við tókum þátt í viðburði sem kallast Vatternrundan en það er hjólaviðburður þar sem hjólaðir eru 300 kílómetrar. Auðvitað sagði ég já! Við hófum undirbúning en það var alltaf eitthvað sem kom upp á, t.d. missti ég móður mína og mikið álag var á Ragga í vinnu. Okkur langaði að verða hjón þannig að einn þriðjudag hef ég samband við hann og spyr hvort við eigum ekki bara að gifta okkur næsta föstudag, eða 9. nóvember 2018, og hann sagði já. Móðir Ragga var orðin mjög veik og ákváðum við að bíða ekkert með þetta. Hún lést tveimur vikum síðar en það verður ár síðan næstkomandi laugardag, 23. nóvember. Við áttum yndislega stund með foreldrum Ragga, bróður mínum og mágkonu og minni bestu vinkonu í gömlu kirkjunni á Árbæjarsafni. Við tókum ákvörðun um að halda ekki veislu heldur fara í draumabrúðkaupsferðina.“

Voru þið alltaf ákveðin að fara í almennilega brúðkaupsferð og hvert var ferðinni heitið?

„Já. Ég hafði aldrei farið til Asíu og það var mikill draumur. Þegar Raggi varð að fara á ráðstefnu í Kuala Lumpur tókum við ákvörðun um að ég færi með og við myndum í framhaldi fara eitthvað tvö í brúðkaupsferð. Fyrsta hugmynd var að fara til Víetnam og hjóla en þar sem rigningatímabilið var að hefjast ákváðum við að fresta því og fara til Balí og Singapore.“

Það var draumur að fara til Asíu.
Það var draumur að fara til Asíu. Ljósmynd/aðsend

Þetta var brúðkaupsferð, var eitthvað sem gerði ferðina öðruvísi en aðrar utanlandsferðir sem þið hafið áður farið í?

„Já heldur betur. Það hafði verið mikið álag á Ragga vinnulega séð og var því ferðin mjög mikilvæg fyrir okkur. Við ákváðum líka að ferðast mikið um og prufa margt. Maður leyfir sér kannski aðeins meira í svona ferðum en öðrum. Við erum ekki mikið fyrir að liggja á sundlaugabakkanum og því mikilvægt að skoða alls konar afþreyingu sem er í boði á hverjum stað fyrir sig. Ég skoða mikið TripAdvisor eða Viator þegar ég er að fara eitthvað. Einnig var ferðalagið sem gerði þetta frábrugðið öðru en við urðum að millilenda tvisvar, það hafði ég aldrei prufað áður hvað þá að vera í flugvél í sjö og svo aftur í átta klukkustundir. Það var erfitt og þreytandi en líka gaman.“

Ljósmynd/aðsend

Hvað gerir það fyrir nýgift hjón að fara í svona ferð?

„Ég veit svo sem ekki hvort það sé eitthvað sérstakt fyrir utan að búa til minningar. Við Raggi tókum saman, bæði með börn og fullt af skuldbindingum þannig að að hafa tækifæri til þess að fara eitthvað tvö saman er gríðarlega mikilvægt og fá bara líka að vera kærustupar, já eða í þessu tilfelli hjón.“

Hvað stóð upp úr? 

„Það stóð ótrúlega margt upp úr. Áður en við fórum hafði ég skoðað vel hvað væri í boði ásamt því að bóka nokkrar ferðir en það líka bættist við þegar við komum á staðina og við sáum eitthvað sem heillaði. Í Kuala Lumpur stóð algjörlega upp úr ferð sem við fórum í en þá fórum við út fyrir miðbæinn og fengum að upplifa það að borða með innfæddum. Við fórum á staði sem okkur hefði annars aldrei dottið í hug að borða á. Það er svo mikilvægt fyrir okkur að kynnast menningu landanna sem við förum til og upplifunin er svo geggjuð.

Guðbjörg og Ragnar Þór sáu sólina koma upp á fjallinu …
Guðbjörg og Ragnar Þór sáu sólina koma upp á fjallinu Batur. Ljósmynd/aðsend

Á Balí var það þegar við vöknuðum klukkan tvö að nóttu til, rifum okkur á fætur og sátum í bíl um klukkutíma ásamt öðru fólki. Komum upp að fjallinu Batur sem er gamalt eldfjall. Þar gengum við upp ásamt fullt af öðru fólki til að upplifa sólina koma upp. Þetta var ólýsanlegt og fegurðin gífurleg. Sem betur fer höfðum við klætt okkur vel en okkur var samt enn smá kalt þannig að upp á toppnum leigðum við okkur teppi til að breiða yfir okkur og við hlógum mikið yfir bleika Mínu Mús-teppinu sem við fengum. Þó að þetta hafi kannski staðið upp úr þá fórum við einnig í river rafting sem var alveg ótrúlega skemmtilegt og einnig fórum við í hjólaferð um Ubud sem var geggjað. Við hjónin erum sammála því að maður kynnist best borgunum á hjóli, þar getur maður séð svo margt á skömmum tíma.

Ljósmynd/aðsend

Í Singapore fórum við einnig í hjólaferð um borgina og það sem stóð þar upp úr var að hjóla að Formúlu 1 brautinni. Ég hef fylgst með formúlunni síðan 1997 og var þetta geggjuð upplifun. Við fengum nú ekki að fara mikið um svæðið þar sem undirbúningur var á fullu fyrir keppnina sem var þarna þremur vikum seinna. Við fórum líka á geggjað ljósasýningu á Marinabay og er þetta án efa fallegasta borg og „must see“ staður sem ég hef komið á.“

Var eitthvað sem þið gerðuð eða sáuð sem kom skemmtilega á óvart? 

„Held að það hafa verið fjallaferðin okkar sem var ekki ákveðin fyrir fram heldur var okkur bent á hana á gistiheimilinu í Ubud.“

Ljósmynd/aðsend

Hvernig var maturinn? 

„Við fórum á Hotel Ritz Ubud eitt kvöldið og það var ævintýralegt. Ég hafði bókað borð á veitingastað sem heitir Kubu at Mandapa sem er við ána og mér fannst líta rosalega vel út en hafði ekki lesið að hann væri á þessu hóteli. Þegar við bókuðum leigubíl á staðinn var okkur sagt að þetta væri besti og flottasti veitingastaður á Balí. Ég hugsaði nú að líklega hafði það verið rétt þar sem ég varð að borga 10 þúsund krónur íslenskar í staðfestingagjald. Þar sem flest þarna er mjög ódýrt fannst mér þetta frekar dýrt. Þegar við komum á staðinn tóku á móti okkur öryggisverðir sem fylgdu okkur í betri stofuna. Mér fannst þetta frekar skrýtið þar sem ekkert að fólki var þarna og við vorum hátt upp á fjalli og áin var lengst niður frá. Eftir nokkurra mínútna bið var okkur boðið að koma og fórum við í golfbíl sem keyrði okkur niður fjallið á veitingastaðinn við ána og þvílík fegurð. Þetta var svo geggjað og svo sjúklega rómantískt. Daginn eftir fórum við í River Rafting og fórum þá fram hjá veitingastaðnum og það var mjög skemmtilegt að sjá þetta í öðru sjónarhorni. En við mælum hiklaust með þessari upplifun.“

Guðbjörg og Ragnar Þór fóru í river rafting fram hjá …
Guðbjörg og Ragnar Þór fóru í river rafting fram hjá veitingastaðnum daginn eftir. Ljósmynd/aðsend

Horft til baka, er eitthvað sem þið hefðuð viljað gera öðruvísi? 

„Ég ræddi þetta einmitt við Ragga og vorum við sammála um að það var ekkert sem við vildum hafa öðruvísi. Við höfðum þrjá daga í Malasíu, átta daga á Balí og ákváðum við að vera fjóra daga í og fjóra daga við ströndina á Sanur og enda svo ferðina í tvær nætur í Singapore. Það eina sem hefði getað verið öðruvísi var að vera lengur í Singapore, ná kannski fjórum nóttum þar. En ég hefði samt ekki viljað vera færri á hinum stöðunum og við urðum að drífa okkur heim til barna og vinnu.“

Guðbjörg og Ragnar Þór hefðu eiginlega ekki viljað gera neitt …
Guðbjörg og Ragnar Þór hefðu eiginlega ekki viljað gera neitt öðruvísi. Ljósmynd/aðsend

Það má heyra á Guðbjörgu að hún er hæstánægð með ferðina. Ferðin var þó ekki hættulaus þar sem klókur api náði næstum því að ræna veskinu af Ragnari Þór.

„Þessi ferð var geggjuð og frábært að fá tækifæri til að rifja hana svona upp. Svona í lokin þá er gaman að segja frá apagarðinum í Ubud, við fórum þangað og Raggi hafði tekið veskið sitt úr vasanum og rétt mér það þar sem ég var með tösku. Á sömu mínútu hoppar api á bakið á Ragga og fer laumulega með höndina á sér ofan í þann vasa sem veskið hafði verið, en greip sem betur fer í tómt. Það tókst þó einum apa að stela af mér vatninu mínu en ég fyrirgaf honum þetta. Við náðum þessu á myndbandi sem var virkilega gaman og krakkarnir hafa skemmt sér vel að horfa á það.“

Dýralífið í Asíu er öðruvísi en á Íslandi eins og …
Dýralífið í Asíu er öðruvísi en á Íslandi eins og sést á þessari mynd. Ljósmynd/aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina