Stefán og Valdís flúðu hversdagsleikann til Asíu

Stefán Hrafn, Valdís Ösp og Áróra Björk eru búin að …
Stefán Hrafn, Valdís Ösp og Áróra Björk eru búin að vera á ferðalagi síðan í apríl. Ljósmynd/Aðsend

Í apríl 2019 lögðu Stefán Hrafn og Valdís, ásamt 4 ára dóttur sinni Áróru Björk, í Asíu-reisu. Þau stefna að því að verða á ferðlagi í heilt ár eða fram í apríl 2020. 

Stefán starfaði sem konditor hjá Mosfellsbakaríi og Valdís var verkefnastjóri hjá Upplýsingaþjónustunni Info Norden hjá Norræna félaginu. Þau sögðu bæði upp störfum sínum og ætla að sjá hvort þetta leiði þau ekki á nýjar slóðir. Þau hófu ferðina í Bangkok í Taílandi og þegar mbl.is náði í þau voru þau í Víetnam.

Hægt er að fylgjast með fjölskyldunni á Facebook, Instagram og á vefsíðunni þeirra Escape from daily life.

Af hverju ákváðu þið að halda í svona Asíureisu?

Okkur langaði að sjá og upplifa heiminn og upplifa framandi menningu. Okkur langaði líka til að styrkja fjölskylduböndin. Daglega lífið heima er auðvitað þannig að þú ferð í vinnu og vinnur allan daginn. Sækir svo barnið í leikskólann og ert með því nokkra tíma eftir vinnu. Okkur langaði að breyta þessu og eiga meiri tíma saman og sjá dóttur okkar vaxa og þroskast, sem hún hefur svo sannarlega gert á þessum mánuðum sem við erum búin að vera á ferðinni.

Við ákváðum að fara ekki í heimsreisu heldur velja eina heimsálfu og einbeita okkur að því að kanna hana vel. Okkur langaði til Suður-Ameríku eða Asíu og eftir að hafa kannað kosti og galla við báðar heimsálfurnar varð Asía fyrir valinu að þessu sinni. Kannski förum við í Suður-Ameríkureisu eftir nokkur ár, hver veit?

Feðginin og fílar í Krabi í Taílandi.
Feðginin og fílar í Krabi í Taílandi. Ljósmynd/Aðsend

Söfnuðuð þið fyrir ferðinni eða getið þið unnið meðan á ferðalaginu stendur?

Við söfnuðum fyrir ferðinni, til dæmis með því að selja bílinn og losa okkur við hitt og þetta. Það er samt ótrúlegur kostnaður sem fylgir því að koma sér af stað sem fólk áttar sig kannski ekki alltaf á. Til dæmis fórum við öll í bólusetningar og það var mjög dýrt eða tæpar 300.000 kr. fyrir okkur samtals. Við erum svo heppin að eiga fasteign og ákváðum við að leigja hana út í stað þess að selja.

Við ákváðum að láta það ráðast hvort við myndum vinna eitthvað á meðan við værum á ferðinni en það hefur enn ekki verið þörf á því. Við erum líka að ferðast mun hraðar en við kannski stefndum á í upphafi. Fyrsta planið var að vera lengur á hverjum stað og þá hefðum við tækifæri á að vinna en síðan langar okkur að sjá svo margt að við tökum okkur yfirleitt upp á 2 til 3 daga fresti og förum á nýjar slóðir. En hver veit, við erum opin fyrir öllu og það gæti vel komið á daginn að við tækjum að okkur einhver verkefni.

View this post on Instagram

Daydreaming 💕 #escapefromdailylife #familytravel #travel #travelwithchildren #bali #ubud #stefanogvaldis

A post shared by Escapefromdailylife (@escapefrom_dailylife) on Aug 11, 2019 at 2:06pm PDT

Til hvaða landa og borga hafið þið farið á síðustu mánuðum?

Við höfum farið víða eða til 11 landa á þessum tæplega 7 mánuðum sem við höfum verið á ferðalagi. Við ferðuðumst til Japan, Taívan, Hong Kong, Malasíu, Brúnei, Indónesíu, Singapore, Taílands, Kambódíu og Víetnam og Laos og svo verður ferðinni haldið yfir til Taílands og verjum jólunum að öllum líkindum þar. Síðan stefnum við á nýju ári að fara til Mjanmar, Bangladess, Nepal og Indlands. Einnig eru Bútan og Sri Lanka á óskalistanum.

Hvernig völduð þið áfangastaðina?

Við settumst niður og völdum hvort um sig 10 lönd sem okkur langaði mest til í Asíu, síðan bárum við listana saman og þeir voru nokkuð svipaðir. Síðan röðuðum við þeim upp eftir veðurskilyrðum eða hvar væri best að vera á hverjum tíma. Síðan höfum við bara látið það dálítið ráðast hvert við förum næst. Við ferðumst mest með lestum og rútum, og reynum að láta flug vera í lágmarki.

Áróra Björk hefur þroskast mikið á ferðalaginu.
Áróra Björk hefur þroskast mikið á ferðalaginu. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig gengur ferðalagið með eina 4 ára?

Það gengur alveg ótrúlega vel að ferðast með Áróru Björk, hún stendur sig svo vel. Hún er yfirleitt alltaf til í þau ævintýri sem við leggjum fyrir hana, hvort sem það sé að snorkla eða labba á fjöll. Hún er sjálf mjög ævintýragjörn og til í að stökkva út í ýmsar aðstæður. Henni finnst líka svo skemmtilegt að hitta nýtt fólk og nýja krakka. Allir sem við höfum hitt og verið að ferðast með hafa tekið henni ótrúlega vel og flest allir til í glens og grín með henni.

Það er ótrúlega gaman að fylgjast með því hvernig börn hittast og byrja að leika sér án þess að tala sama tungumálið. Við erum dugleg að fara á leikvelli þar sem við dveljum hverju sinni og Áróra finnur næstum alltaf einhverja til að leika við. Það spilar auðvitað inn í að hún er alveg ljóshærð og allir eru afskaplega forvitnir um hana. Við grínumst stundum með það að ef við tækjum fimmtíu sent fyrir hverja mynd sem tekin hefur verið af henni værum við eflaust milljónamæringar.

Síðan er auðvitað ómetanlegt fyrir hana að sjá öll þessi villtu dýr sem flest börn á Íslandi lesa bara um í bókum. En við erum búin að sjá alls konar apategundir, krókódíla, drekaflugur, erni, skjaldbökur, fullt af fiskum og kóralrif, eðlur, buffalóa, risastórar köngulær, slöngur, blóðsugur og margt fleira.

Fjölskyldan vildi eyða meiri tíma saman og ákvað því að …
Fjölskyldan vildi eyða meiri tíma saman og ákvað því að halda í Asíureisu. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða staðir hafa heillað ykkur mest?

Það er erfitt að segja, það hefur allt heillað okkur á mismunandi hátt, okkur hefur liðið vel alls staðar þar sem við höfum verið. Japan var æðislegt, hreint og snyrtilegt en mjög vestrænt á sama tíma og það var mjög gott að byrja þar. Bjuggumst ekki við miklu af Taívan en það kom verulega á óvart, ótrúleg náttúrufegurð og fólkið yndislegt. Það eru litlar eyjar úti fyrir Kambódíu sem kallast Koh Rong Sanloem sem eru frekar ósnortnar og virkilega fallegar. Turtle Island og Mabul-eyja fyrir utan Malasíu (Borneó) var líka virkilega skemmtilegt að heimsækja. Turtle Island er ein af þremur eyjum þarna fyrir utan sem vernda skjaldbökur og takmarkaður fjöldi ferðamanna fær að heimsækja þennan stað. Þar sáum við risaskjaldböku „verpa“ eggjum að kvöldi til og sáum svo pínulitlar skjalbökur sem voru nýbúnar að klekjast út úr eggjunum hlaupa niður að sjó, ótrúleg upplifun.

Indónesía var líka frábær og hefðum við viljað vera þar lengur til að skoða fleiri eyjar en þetta eru svo svakalega margar eyjar og hver annarri ólíkari. Við náðum bara að skoða brotabrot af því sem okkur langaði til að sjá.

Áróra Björk.
Áróra Björk. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend

Hvað hefur verið mesta áskorunin?

Við erum nokkuð róleg í tíðinni og erum lítið að stressa okkur á hlutunum. Við plönum ekkert langt fram í tímann og tökum einn dag í einu. Ef við erum þreytt og pirruð þá stoppum við bara lengur, hvílum okkur og söfnum orku. Oft spyrjum við heimamenn eða ferðamenn sem við hittum hvar þeir hafi verið og hvort þeir mæli með ákveðnum stöðum. Annars hefur þetta gengið bara ótrúlega vel.

View this post on Instagram

Sunset at turtle island #family #familytravel #familygoals #sunset #escapefromdailylife #arorabjork #stefanogvaldis #malaysia

A post shared by Escapefromdailylife (@escapefrom_dailylife) on Jul 12, 2019 at 7:26pm PDT

Hvaða ráð getið þið gefið þeim sem hafa í huga að fara í svona reisu?

Drífa sig af stað, þú lifir bara einu sinni, gerðu það sem þig langar að gera á meðan þú getur.

Það sem skiptir máli er líka að vera ekki með allt of mikið plan, það er miklu skemmtilegra að geta skipt um skoðun og farið á aðra staði en áætlaðir voru í upphafi og jafnvel stoppa lengur á stað sem þér hefði aldrei dottið í hug að væri neitt spennandi.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is