Gistu í beinni á ódýrasta hótelherbergi heims

Þetta er ekki mynd af umræddu hótelherbergi.
Þetta er ekki mynd af umræddu hótelherbergi. mbl.is/Styrmir Kári

„Ekki er öll vitleysan eins,“ kvað rapparinn Herra Hnetusmjör og hafði heldur betur rétt fyrir sér. Hótel í Fukuoka á Kyushu-eyju í Japan býður nú út eitt hótelherbergi á aðeins 130 jen nóttina, eða 146 krónur.

Það er þó eitt sem hangir á spýtunni. Skilyrðin fyrir því að gista í herberginu á þessu sláandi verði er að hótelið, Business Ryokan Asahi, fái að streyma dvöl þinni beint á YouTube-rás sinni. 

Ástæðan fyrir þessu einstaka tilboði er sú að þetta herbergi, herbergi númer 8, er það óvinsælasta á hótelinu og þau vilja því endilega bjóða fólki að gista í því. 

Herbergið hið eðlilegasta hótelherbergi í Japan og ná myndavélarnar yfir allt herbergið, fyrir utan baðherbergið. Það er þó ekkert hljóð sem fylgir útsendingunni svo gestir þurfa ekki að hafa áhyggjur af því. 

Nekt er bönnuð í herberginu sem og allar kynlífsathafnir, bæði fyrir pör og einstaklinga. Ekki er farið fram á að gestir eyði öllum deginum á herberginu. Hægt er að slökkva ljósin í herberginu og þá sést lítið í beinu útsendingunni. 

Greitt er fyrir loftkælingu eða hita sérstaklega og kosta tvær klukkustundir 100 jen, svo ef mjög heitt eða kalt er í veðri gætu gestirnir lent í því að borga hærri upphæð fyrir það en hótelherbergið. 

Beinu útsendinguna má sjá hér fyrir neðan.

 

mbl.is