Íris Friðriksdóttir myndlistarkona dásamar Sønderborg

Íris kann vel við sig utandyra þar sem hún gerir …
Íris kann vel við sig utandyra þar sem hún gerir listaverk og alls konar verkefni. Ljósmynd/Aðsend

Íris Friðriksdóttir myndlistakona býr í Sønderborg á sunnanverðu Jótlandi. Hún kann vel við sig í Danmörku enda margt í gangi hjá henni þessa dagana. Hún fékk nýverið úthlutað listaverkefni í borginni og er að vinna útilistaverk á staðnum þar sem haldið verður upp á það á næsta ári að 100 ár eru liðin frá samkomulagi Danmerkur við Þýskaland um Slésvík-Holtsetaland. 

Auk listarinnar sinnir Íris kennslu við listaháskóla í borginni. 

Íris býr í huggulegu rauðu múrsteinsraðhúsi sem byggt var árið 1924.

„Þetta er sjarmerandi bygging staðsett á rólegum stað sem er í fimm mínútna göngufjarlægð frá miðbænum. Garðurinn var eins og þéttvaxinn skógur þegar ég keypti húsið fyrir fimm árum.“

Íris býr í huggulegu rauðu múrsteinshúsi sem var upphaflega ætlað …
Íris býr í huggulegu rauðu múrsteinshúsi sem var upphaflega ætlað að vera verkamannabústaður á sínum tíma. Ljósmynd/Aðsend

Á undanförnum árum hefur hún getað grisjað aðeins í garðinum og fær nú notið sólarinnar og stóra fallega fíkjutrésins sem stendur á lóðinni. 

„Fíkjutréð er ættað frá Borgundarhólmi, en í raun má rekja öll fíkjutré í landinu frá þessum stað.“

Garðurinn hjá Írisi er fallegur.
Garðurinn hjá Írisi er fallegur. Ljósmynd/Aðsend

Menning og listir áhugaverð á staðnum

Dagur í lífi Írisar snýst mikið um list. Hún tekur á móti að meðaltali tveimur hópum af fólki á dag, fjóra daga vikunnar í listkennslu. Hún sinnir eigin verkum og tekur þátt í að meðaltali fjórum samsýningum á ári.

Íris hefur hlotið viðurkenningu fyrir störf sín. Meðal annars fékk hún Sønderborg-listaverðlaunin árið 2019.

Íris að setja saman listaverk.
Íris að setja saman listaverk. Ljósmynd/Aðsend

„Ég fékk gullkálf ásamt 10 flöskum af freyðivíni að verðlaunum. Síðan skuldbind ég mig í að standa að sýningu, eftir eigin höfði, innan tveggja ára í góðum sýningarsal hér í nýja listahúsinu í Sønderborg.“

Íris á þrjú uppkomin börn og nýtur lífsins í borginni sinni. Það sem henni finnst skemmtilegast að gera er að hoppa í sjóinn, enda saknar hún alltaf vatnsins heima á Íslandi.

„Við sem erum fædd og uppalin á Íslandi erum góðu vön, hvað vatnið varðar. Ég er félagsmaður í Víkingaklúbbnum hér í borginni sem staðsettur er við ströndina skammt frá höllinni þar sem danska drottningin býr. Það er gufubað sem er opið frá miðju október fram til maí og frábær aðstaða til að hoppa í sjóinn alla daga ef vilji er til þess. Síðan er hægt að baða sig í sólinni á sumrin á þessum stað þar sem aðstaðan er til fyrirmyndar.“

Íris hefur fengið fjölmargar viðurkenningar og viðbrögð við verkum sínum.
Íris hefur fengið fjölmargar viðurkenningar og viðbrögð við verkum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða veitingahúsum mælir þú með í borginni þinni?

„Ég fer oftar en ekki á veitingastað sem heitir Torvehallen sem mér finnst vel heppnaður staður. Kisling er vinsælasta kaffihúsið hér núna. Þar fæst gæðakaffi, einnig bruggaður bjór og mjög gott brauð. Ég mæli með ristuðu rúgbrauði, eggjasalati og avokadó með fersku grænmeti.

Það hafa verið miklar framkvæmdir í borginni á síðustu árum. Hafnarlengjan er að fá í sig nýtt líf. Það má nefna Multikulturhús, Hotel Alsik þar sem finna má m.a. útilistaverk eftir Ólaf Elíasson og svo mætti lengi áfram telja.

Danfoss hafa meðal annars sett mikið fjármagn í byggingaframkvæmdir í gegnum árin.“

Mælir með að fara í sjóinn

Hvernig myndir þú eyða draumadeginum í borginni?

„Ég myndi fara í jóga, í göngutúr meðfram strandlegngjunni, hoppa í sjóinn, fara á kaffihús eða veitingahús í nágrenninu.“

Afhjúpun á verki Ólafs Elíassonar í sumar var hátíðleg. Í …
Afhjúpun á verki Ólafs Elíassonar í sumar var hátíðleg. Í bakgrunni má sjá Multikulturhuset þar sem m.a. listaskóli er til húsa. Ljósmynd/Aðsend

Hvað einkennir matargerðina á þínu svæði?

„Það sem svæðið er frægt fyrir eru svokölluð „Sønderjysk kaffebord“. Suður-Jótland er þekkt fyrir kökuhlaðborðin sín.“

Hvað kom á óvart við flutningana út á sínum tíma?

„Ég verð að segja að mállýskan á svæðinu hafi komið mér mest á óvart. Suðurjóska (d. sønderjysk) er töluð hér. Ég bjó í Århus fyrstu þrjú árin hér í Danmörku og náði tökum á dönskunni þar. Því kom mér á óvart að lenda á þeim vegg sem ég gerði þegar ég flutti hingað suður.“

Hvers saknarðu helst frá Íslandi?

„Ég sakna landsins, gróðursins, fegurðarinnar , fólskins. Móðir mín verður 90 ára milli jóla og nýárs. Ég sakna hennar, bróður míns, mágkonu og vina. Síðan sakna ég þess að fara í sund.“ 

Hvað er gaman fyrir fjölskyldufólk að gera í borginni?

„Barnafjölskyldur geta farið meðal annars í Danfoss Univers í Nordborg sem er í kringum 20 mínútna keyrsla frá Sønderborg. Ein af byggingunum er hönnuð af okkar manni, Árna Páli Jóhannssyni myndlistarmanni. Listaskáli Heimssýningarinnar í Hannover 2000 var keyptur og er núna hluti af Danfoss Univers þemagarði.

Eins er ekki langt að keyra í Legoland og Givskud sem er dýragarður. svo dæmi séu tekin. Fegurðin í náttúrunni og á staðnum, ásamt menningu og listum er ástæðan fyrir því að ég samþykkti að koma hingað og búa frá upphafi.“

Listaverk utandyra eftir Írisi.
Listaverk utandyra eftir Írisi. Ljósmynd/Aðsend
Íris fer í sjóinn hvort sem um vetur eða sumar …
Íris fer í sjóinn hvort sem um vetur eða sumar er að ræða. Ljósmynd/Aðsend
Íris kann vel við sig í fallegri náttúru og nálægt …
Íris kann vel við sig í fallegri náttúru og nálægt sjónum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is