Lóa Pind veit hvar hún vill búa

Lóa Pind hefur ferðast til alls 16 áfangastaða á árinu, …
Lóa Pind hefur ferðast til alls 16 áfangastaða á árinu, m.a. til að leita svara við því hvar sé best að búa. Sjálf væri hún til í að búa til skiptis í Andalúsíu á Spáni og á Íslandi. Mynd úr einkasafni
Sjónvarpskonan Lóa Pind Aldísardóttir hefur verið á miklu flakki um heiminn það sem af er árinu og leitað svara við spurningunni „Hvar er besta að búa? fyrir samnefndan sjónvarpsþátt en önnur þáttaröðin er nú í sýningu á Stöð 2. Lóa Pind hefur sjálf þrisvar búið erlendis og telur sig vera búna að finna svarið við stóru spurningunni. 
Hver er þín niðurstaða eftir allt þetta flandur — hvar er eiginlega best að búa? 
„Minn draumur er að búa til skiptis í hita og kulda. Í Andalúsíu á Spáni og á Íslandi. En annars er það mín niðurstaða að fólki, sem hefur drift til að flytja til útlanda, finnst yfirleitt best að búa nákvæmlega þar sem það er búsett þá stundina.“
Er nema von að Lóa hafi heillast af Balí? Hver …
Er nema von að Lóa hafi heillast af Balí? Hver vill ekki sofa í svona gordjöss bambusrúmi? Mynd úr einkasafni
Þú hefur farið víða vegna þáttanna, langar þig að heimsækja einhvern stað aftur — og jafnvel búa þar?
„Ég var ansi heilluð af Balí. Þetta var mín fyrsta heimsókn til Suðaustur-Asíu og Balí kom mér á óvart. Miklar andstæður, brjáluð umferð en líka gríðarleg friðsæld, dökkar eldfjallastrendur en líka bjartar skeljasandsstrendur, ótrúleg kurteisi og brosmildi, og svo fegurðin í alls konar smáatriðum. Blómaskreytingar úti um allt, fallega skreyttar fórnir til guðanna eins og hráviði á gangstéttum, undurfalleg altari hvert sem litið var. En Balí er rosalega langt frá Íslandi! Reyndar gæti ég eiginlega hugsað mér að búa í öllum löndunum sem ég heimsótti.“
Í þáttunum „Hvar er best að búa?“ ferðast Lóa um …
Í þáttunum „Hvar er best að búa?“ ferðast Lóa um heiminn og hittir Íslendinga sem sest hafa að erlendis. Hér er Lóa í Austurríki ásamt tökumanninum Lúðvíki Páli Lúðvíkssyni. Þetta er í fyrsta sinn sem Lóa hefur þurft að fara á skíðum í vinnuna. Myndatökumaður þurfti hins vegar að klofa snjóinn niður fjallið eftir tökur. Mynd úr einkasafni
Hefurðu sjálf búið erlendis?
„Já, ég bjó í Brighton í Englandi sem barn í 2 ár, fór svo í Erasmus-skiptinám til Háskólans í Montpellier í Frakklandi þegar ég var 23 ára einstæð móðir og nokkrum árum seinna bjó ég eitt ár í Cardiff í Wales þar sem ég tók mastersnám í blaðamennsku. Það er tvennt gjörólíkt að vera barn búsett í útlöndum, í nýju málsamfélagi, og svo fullorðinn. Ég var sex ára þegar við fluttum til Englands, mállaus með öllu en var orðin altalandi á fáeinum mánuðum. Þegar maður er krakki í svona aðstæðum þá er maður einhvern veginn 100% til staðar í nýja samfélaginu (tala nú ekki um fyrir tíma internets). Eina leiðin til að bjarga sér er að aðlagast, læra nýja tungumálið og eignast nýja vini — á meðan fullorðnir geta víðast hvar í dag bjargað sér á enskunni og koma sér líklega ekki upp nýjum nánasta vinahópi o.s.frv. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið það tækifæri að búa erlendis sem barn, held að það hafi haft mótandi áhrif á mig og vildi gjarnan að synir mínir upplifðu það líka. Enn sem komið er hefur það bara tekist með þann eldri, sá yngri er mjög heimakær.“
Langþráður draumur rættist hjá Lóu í vor þegar hún fór …
Langþráður draumur rættist hjá Lóu í vor þegar hún fór með manninum sínum, Jónasi Valdimarssyni, til Kúbu í mánuð. Mynd úr einkasafni
Hvers konar ferðalög höfða helst til þín?
„Veistu, ég er bara alls konar ferðatýpa. Mér fannst geggjað að fara í bakpokaferðalög fram að kannski þrítugu — ég er ekki alveg þar lengur. Auk þess hef ég meira gaman af því að staldra lengur við á hverjum stað þegar ég ferðast í dag. Mér finnst maður fá takmarkað út úr því að vera fáeina daga á nýjum stað, þá lendir maður bara dálítið í hringekju túrismans. Fer í Gullnu hringi heimsins. En samt, ef maður er opinn og móttækilegur — sem maður er iðulega á ferðalögum — þá er hægt að innbyrða ansi mikið á stuttum tíma. En í dag hef ég sem sagt meiri ánægju af því að dvelja í lengri tíma á hverjum stað og draumurinn er nú eiginlega að geta verið nokkra mánuði á ári í útlöndum. Í hita.“
Árið hefur verið viðburðaríkt hjá Lóu Pind. Hér er hún …
Árið hefur verið viðburðaríkt hjá Lóu Pind. Hér er hún við salerni á Balí. Mynd úr einkasafni
Hvert er þitt eftirminnilegasta ferðalag? 
„Þau eru tvö. Tveggja mánaða bakpokaferðalag um Mið-Ameríku árið 2000 til Guatemala, Belís og Mexíkó. Þá hafði ég aldrei farið út fyrir Evrópu og Bandaríkin svo það var gríðarleg upplifun að ferðast um svæði sem voru svona gjörólík öllu sem maður þekkti. Að kynnast fólki sem hafði allt aðra heimssýn en maður sjálfur. Að sitja í eldhúsi í Guatemala og spjalla við fólk sem hélt að styrjaldir og blóðug átök væru normið alls staðar í heiminum. Að upplifa óttann sem var inngróinn í fólk í Belís. Svo rættist langþráður draumur í vor þegar ég fór með manninum mínum til Kúbu í mánuð. Mig langaði svo að komast þangað áður en Kúba opnaðist enn frekar og yrði eins og hver önnur karabísk eyja. Það var algjörlega magnað að kynnast Kúbu og Kúbverjum. Sérstaklega magnað að finna kraftinn og framtakssemina í fólki þrátt fyrir að hafa búið í einræðisríki áratugum saman. Ég var heilluð af Kúbverjum. Þeir taka okkur Íslendinga sko í nefið við að redda hlutum.“
Lóa með Agli Aðalsteinssyni myndatökumanni og viðmælendum í þáttunum „Hvar …
Lóa með Agli Aðalsteinssyni myndatökumanni og viðmælendum í þáttunum „Hvar er best að búa?“ í bátsferð á Kýpur. Mynd úr einskasafni
Ef peningar og tími skiptu ekki máli og þú mættir fara hvert sem er, hvert færirðu og með hverjum?
„Úff! Þessa stundina þá langar mig mest að vera heima! Ég er búin að vera á svo miklu flakki. En ég er auðvitað ekki hætt. Væri til í að fara í „road trip“ um Bandaríkin með Jónasi manninum mínum og Núma yngri syni mínum (15 ára), svona áður en hann verður of gamall til að nenna að eyða tíma með mér. Væri til í að fara til Argentínu með Jónasi að kafa ofan í tangó. Eða læra meira salsa. Maldíveyjar kitla, þær einhvern veginn næra fantasíuna um algjört zen, Kína með sína brjáluðu sögu hefur lengi heillað. Ég gæti haldið endalaust áfram!“

Þitt besta ferðaráð? 
„Að komast yfir flughræðslu — ef hún plagar. Ég var illa haldin af flughræðslu í ca. 15 ár. Þannig að hún var farin að hamla mér. Fór svo á flughræðslunámskeið árið 2004. Frábær fjárfesting. Smám saman næstu árin fór heilaþvotturinn á námskeiðinu að síast inn. Ég held að ég sé bara næstum læknuð núna. Leið reyndar ekkert allt of vel í 10 tíma flugi frá Spáni til Kúbu í vor. En fann varla fyrir 10 tíma flugi frá Qatar til Balí í haust. Þannig að ég hlýt að vera læknuð. Myndi samt ALDREI aftur fara í innanlandsflug milli Gran Canaria og Tenerife. Það er arfaslæmt konsept.“
Fórn til guðanna á brúarstólpa á Balí.
Fórn til guðanna á brúarstólpa á Balí. Mynd úr einkasafni
Hvaða fimm hluti tekurðu alltaf með þér þegar þú ferðast?
„Símann, tölvuna og nikótíntyggjó. Lengst af tók ég alltaf íslenskan lakkrís með mér en er hætt því og reyni bara að þrauka í lakkrísneyð. Tek iðulega hýdrókortíson-krem ef sólarexemið skyldi blossa upp. Og eftir að ég uppgötvaði fyrirbærið „Bite away“ (penni til að gefa moskítóbitum hitalost) mun það ávallt vera með í för hér eftir.“

Eru einhver ferðaplön í loftinu?
„Ég er búin að vera á þvílíku flandri þetta árið, held að þetta séu orðnir 16 áfangastaðir á árinu, að nú er ég ekki með einn einasta flugmiða bókaðan. En mig langar að heimsækja stjúpdóttur mína, manninn hennar og nýju litlu stúlkuna þeirra í Edinborg á næstu mánuðum og svo langar mig að vera með mömmu þegar hún fagnar sjötugsafmælinu sínu á Tenerife í febrúar. Annað er ekki planað.“

Verður þriðja þáttaröðin af Hvar er best að búa? 
„Ef almættið verður mér hliðhollt, og fólk hefur gaman af að horfa, þá væri ég sannarlega til! Það var sko ekkert leiðinlegt að fara í vinnuna til Balí, eða Marokkó, eða Kýpur eða...“ 
Lóa Pind var mjög flughrædd áður en hún fór á …
Lóa Pind var mjög flughrædd áður en hún fór á flughræðslunámskeið sem hjálpaði henni mikið. Hér er hún á Kúbu í vor. Mynd úr einkasafni

mbl.is