Varð ástfangin af Lundúnum í TopShop

Sif Sigmarsdóttir býr í Lúndum.
Sif Sigmarsdóttir býr í Lúndum.

Sif Sigmarsdóttir varð ástfangin af Lundúnum þegar hún labbaði inn í TopShop í fyrsta skipti 12 ára gömul. Í dag býr hún og starfar í Lundúnum sem rithöfundur og pistlahöfundur, en bókin Ég er svikari var að koma út á Íslandi. 

Til að bjarga mannkyninu þarf aðalsöguhetja bókarinnar að svíkja þá …
Til að bjarga mannkyninu þarf aðalsöguhetja bókarinnar að svíkja þá sem treysta henni og treysta þeim sem reyna að drepa hana.

Hver er allra mesti uppáhaldsstaður þinn í Lundúnum?

„Þetta er dálítið eins og að vera spurð að því hvert sé uppáhaldsbarnið manns. London er stóra ástin í lífi mínu (sorrí, eiginmaður).

Ástarævintýri mitt við London hófst þegar ég var tólf ára og heimsótti borgina í fyrsta sinn sem túristi með foreldrum mínum og bræðrum. Pabbi var búinn að plana þvílíka menningarreisu – hann ætlaði að leiða okkur gegnum alla mannkyns- og menningarsöguna á fimm dögum. Hann hugðist sýna okkur múmíurnar í Þjóðminjasafninu, alvöru orrustuflugvélar úr heimsstyrjöldinni síðari í Stríðsminjasafninu og meistara málaralistarinnar í Tate-listasafninu.

Það var hins vegar ekki á þessum ágætu stöðum sem ég varð ástfangin. Fyrstu ástarneistarnir kviknuðu í TopShop á Oxford-stræti. Í einni búð var meira úrval af fötum en í allri Kringlunni sem var opnuð nokkrum árum fyrr. Ég hélt að þetta gæti ekki orðið betra. En svo fórum við á veitingastaðinn Garfunkel's og fengum okkur svínarif í grillsósu. Kjöt þakið sykri! Hvar hafði þessi fágaði sælkeraréttur verið allt mitt líf?

Í vaxmyndasafninu fékk ég ljósmynd af mér með Freddie Mercury. Á Leicester Square stöðvaði för okkar maður með dredda og jafnmörg göt í nefinu og eldhússigti sem hlaut að sjá inn í dýpstu sálarfylgsni mín því hann neitaði að hleypa okkur fram hjá sér fyrr en pabbi keypti handa mér lyklakippu með mynd af átrúnaðargoðinu mínu, Kurt Cobain. Loks fórum við á söngleikinn Cats. Þar sem ég sat og horfði á fullorðið fólk spranga um í kattabúningum tók ég ákvörðun: Þegar ég yrði stór ætlaði ég að flytja til London og tjá ást mína á borginni með söng sem leikari í Cats.

Unnendum söngleikja til heilla breyttist planið aðeins. Ég fluttist vissulega til London. Það kom hins vegar í ljós að þegar ég syng hljóma ég eins og breimandi köttur, alvöru köttur, svo skrækur að ef hann væri lokaður ofan í boxi, vildi meira að segja Schrödinger kvikindið kirfilega dautt.

En í staðinn skrifaði ég bók sem er eins konar ástarbréf til borgarinnar. Bókin heitir Ég er svikari og er að koma út á Íslandi nú fyrir jólin.

TopSop og Garfunkel's eru ekki lengur uppáhaldsstaðirnir mínir í London. Ef ég ætti að velja einn stað þá væri það Waterstones-bókabúðin við Piccadilly Circus. Það er hægt að eyða heilu dögunum í versluninni sem er á sex hæðum. Búðin er stærsta bókabúð Evrópu. Í kjallaranum getur maður fengið sér kaffi og á efstu hæðinni er kokkteilbar. Bækur, kaffi og kokkteilar. Þetta er auðvitað himnaríki á jörðu.“

Hér áritar Sif bók sína.
Hér áritar Sif bók sína.

Hvar er besti morgunmaturinn?

„Einn kostur þess að starfa sem leigupenni er að maður getur sinnt vinnu sinni hvar sem er. Það er hægt að sitja með fartölvuna uppi í sófa, inni í eldhúsi, úti í garði, á bókasafninu, jafnvel uppi í rúmi. Öll veröldin er skrifstofan manns. Uppáhalds-vinnuafdrepið mitt er lítið kaffihús á Upper Street þar sem ég bý í Islington. Ég reyni yfirleitt að mæta snemma svo ég nái uppáhaldsborðinu mínu við gluggann. Útsýnið úr sætinu er yfir ráðhús Islington-hverfisins, byggingu frá þriðja áratug síðustu aldar sem lítur út eins og samstarfsverkefni milli Walt Disney og Albert Speer.

Stundum kaupi ég mér smjördeigshorn með möndlum – minn uppáhaldsmorgunmatur – og stari út um gluggann meðan ég borða það. Það er þó kannski heldur útsýnið en smjördeigshornið sem laðar mig að staðnum. Alla daga vikunnar streyma prúðbúin pör inn í húsið með trekkt eftirvæntingarbros á andlitinu og út aftur tuttugu mínútum síðar með hjónabandsvottorð upp á vasann. Þau stilla sér upp fyrir myndatöku á tröppunum sem eru eins og klipptar út úr ævintýrinu um Öskubusku. Þar má sjá hvíta síðkjóla, púffermar og blúndur, jakkaföt, saría, litskrúðuga afrókufla og listilega vafin höfuðföt. Fólk frá öllum heimsins hornum. Sumir kyssast. Aðrir haldast í hendur. Það er hlegið og stundum grátið.

Frá sjónarhorni brúðhjónanna er dagurinn einstakur. En það sem pörin vita ekki er að fyrir þeim sem situr á kaffihúsi hinum megin við götuna, stundum með smjördeigshorn, er ráðhúsið eins og færiband. Hjónabandafæriband. Þau eru eins og Síríuslengjurnar sem flutu fram hjá eiginmanni mínum sem sat við færiband í Nóa Siríusi eitt sumar sem unglingur og raðaði í óðaönn lakkrís ofan á Eitt sett. Hérna er það hins vegar ein Síríuslengja á tuttugu mínútna fresti.“

I Am Traitor í Waterstones-bókabúðinni við Piccadilly Circus í London.
I Am Traitor í Waterstones-bókabúðinni við Piccadilly Circus í London.

En hádegisverðurinn?

„Besta hádegisverðinn er að finna á Borough market, sem er stærsti og elsti matarmarkaður Lundúna. Þangað mæta heildsalar, smásalar og bændur til að selja afurðir sínar. Einnig er á markaðnum fjöldi matarbása þar sem kaupa má tilbúinn mat; strútshamborgara, chorizo-samlokur, franskar kjötkássur – maður fær allt þarna. Best er að flakka milli bása og smakka sem flest. Stemningin er gífurleg, mannmergðin rosaleg og maturinn æði.“

Hvar er besta kaffið?

„Kaffi er mér nánast jafnmikilvægt og súrefni. Með keðjum eins og Starbucks fékk hið ástsæla te Bretanna fyrst samkeppni en nú hefur þessi þróun komist á næsta stig og ekki er hægt að þverfóta fyrir sjálfstæðum „gourmet“-kaffihúsum sem rista baunirnar sínar sjálf. Í uppáhaldi er The CoffeeWorks Project í Islington og Workshop Coffee sem er á leynigötunni St. Christopher's Place.“

Sonur Sifjar er fastakúnni á Brasserie Zédel.
Sonur Sifjar er fastakúnni á Brasserie Zédel.

Hver er mesta upplifunin?

„Þegar fólk heimsækir London eyðir það yfirleitt mestum tíma í Covent Garden, á Oxford Street og Regent Street. En færri vita að við sunnanverðan árbakka Thames er margra kílómetra löng göngugata sem nær frá Millennium Wheel í vestri til Tower Bridge í austri. Á þessari göngu er m.a. Tate Modern, Borough Market, jólamarkaður í desember, ráðhús borgarinnar og fjöldinn allur af veitingastöðum.“

Ráðhús Islington-hverfisins er eins og hjónabandafæriband.
Ráðhús Islington-hverfisins er eins og hjónabandafæriband.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera á laugardögum?

„Flakka á milli hinna fjölmörgu safna sem er að finna í London. Þau eru mörg þekkt: British Museum, Tate Modern, Natural History Museum, Victoria and Albert Museum, Science Museum... En í borginni er allt krökkt af söfnum sem færri heimsækja en eru ekki síður áhugaverð. Eitt þeirra er Sir John Soane's Museum.

Sir John Soane's Museum er að margra áliti eitt best varðveitta leyndarmál London og margur vill halda því þannig. Arkitektinn og prófessorinn Sir John Soane, fæddur um miðja 18. öld, kom upp safni þarna á heimili sínu og smám saman bætti hann við það og lagði undir sig nálæg hús. Fyrst virðist öllu ægja saman, uppdráttum, módelum, málverkum og skúlptúrum, en í raun er þetta allt saman þrælskipulagt ef betur er að gáð. Hreinn gimsteinn í stórborginni. Inngangurinn lætur lítið yfir sér og gæti auðveldlega farið fram hjá fólki.“

Borough Market er stærsti og elsti matarmarkaður Lúndúna.
Borough Market er stærsti og elsti matarmarkaður Lúndúna.

Hvert er best geymda leyndarmál Lundúnaborgar?

„Í miðborg Lundúna, við Piccadilly Circus, er vel falið franskt brasserí sem heitir Brasserie Zédel. Staðurinn er falin perla. Þegar maður gengur þangað inn er eins og maður ferðist aftur í tíma og rúmi til Parísar á þriðja áratug tuttugustu aldar. Ég hélt að ég væri eini Íslendingurinn í veröldinni sem vissi af þessum stað. Annað kom hins vegar á daginn.

Nýverið komst ég að því að staðurinn var áður Regent Palace Hotel og var eitt fyrsta og helsta „Íslendingahótelið“ í London á árunum um og fyrir 1960 og nokkuð fram á áttunda áratuginn – já, og kannski eitt fyrsta Íslendingahótelið í útlandinu. Mér er sagt að þarna gistu nánast allir sem fóru til London á þessum tíma og hópferðir Íslendinga til Spánar/Majorka enduðu gjarnan með svona tveimur til þremur nóttum í London á leiðinni heim, og þá einmitt á Regent Palace. Hótelið var starfrækt frá 1915 og var þá stærsta hótel Evrópu og eitt af þeim fínni. Hótelreksturinn drabbaðist niður og lagðist alveg af upp úr 2000 og hluti hússins var rifinn. Nú er komið þarna þetta fína brasserí innan um gömlu art déco-innréttingarnar og skreytingarnar í Regent Palace-hótelinu sáluga sem hafa sem betur fer verið friðaðar og afar okkar og ömmur og pabbar og mömmur mundu líklega kannast við aftur.“

Hvernig er hefðbundinn dagur í lífi þínu?

„Þegar Bretarnir fara með börnin sín í skólann á morgnana kallast það „school run“, eða skólahlaup. Á okkar heimili er hlaupið bókstaflegt. Það streymir alíslenskt blóð um æðar þessa aðkomufólks og okkur tekst alltaf að vera næstum því sein – en bara næstum því; við höfum aldrei fengið seint í kladdann.

Svo taka við skriftir frá 9 til 5. Um miðja viku byrja ég að panikka yfir vikulega pistlinum mínum sem ég skrifa fyrir helgarblað Fréttablaðsins. Í hverri einustu viku er ég sannfærð um að ég muni ekki fá hugmynd að pistli. Ég emja yfir örlögum mínum, finn endalokin nálgast. Það hjálpar ekkert að fjöldi pistla sem ég hef skrifað nálgast nú þúsund og alltaf hefur hugmyndin komið á endanum. Svo fæðist hugmundin og örvæntingin breytist í alsælu og ég skrifa pistilinn í gleðivímu yfir að hafa fengið hugmynd.

Svo rennur steinninn niður hæðina og eins og Sísýfus þarf að byrja upp á nýtt. Þannig líður vikan, mánuðurinn, árið...“

Á hvaða tíma skrifar þú?

„Ég trúi ekki á innblástur með hefðbundnum hætti, heldur trúi ég aðallega á harða rassa. Rithöfundar þurfa að setjast niður og haga málum eins og þeir séu í venjulegri 9-5 vinnu ef þeir ætla að koma einhverju í verk. Ég sest alltaf niður á morgnana og byrja að skrifa, hvort sem ég er í stuði eða ekki. Afraksturinn er misgóður en yfirleitt situr eitthvað eftir í lok dags.“

Hvað drífur þig áfram í lífinu?

„Meðalmannshjartað slær þrjú þúsund milljón sinnum áður en yfir lýkur. Aðeins þrjú þúsund milljón sinnum – ef við erum heppin. Við þeirri staðreynd er hægt að bregðast með tvennum hætti. 1) Láta bugast af því hve grimmilega nauman tíma náttúran skammtar okkur. 2) Fyllast lotningu frammi fyrir hinni óendanlega flóknu fléttu tilviljana sem gæddi okkur þessu hverfula líffæri og nýta hvern einasta slátt þess til hins ýtrasta.

Valkostur tvö er eitt það helsta sem drífur mig áfram í lífinu.“

Hvað gerir þú til að verða ekki goslaus?

„Drekk kaffi. Mikið kaffi.“

Hvert dreymir þig um að ferðast?

„Árið 2007 heimsótti ég Sarajevó. Ótrúlega falleg borg og fólkið vinalegt. Við maðurinn minn skráðum okkur í hópskoðunarferð um borgina með leiðsögumanni. Þegar við mættum á svæðið vorum við eina fólkið í túrnum. Það var greinilega ekki mikið um túrista í borginni. Þetta var tíu árum eftir að umsátrinu um Sarajevó lauk. Sárin voru langt frá því að vera gróin um heilt. Borgin hafði þurft að þola lengstu herkví í sögu nútímahernaðar og hún var þakin örum. Í veggjum húsanna voru holur eftir sprengikúlur. Enn voru svæði innan borgarinnar lokuð af vegna hættu á jarðsprengjum.

Eftir skoðunarferðina settumst við niður á kaffihúsi með leiðsögumanninum sem var jafnaldri okkar og hann fór að segja okkur frá lífinu sem unglingur í Sarajevó á tímum umsátursins. Ég hafði alltaf ímyndað mér að í stríðshrjáðum löndum lokaði fólk sig af í húsum sínum, hætti að lifa lífinu og biði eftir að hryllingurinn gengi yfir. En þvert á móti. Af ótrúlegu æðruleysi kepptist fólk við að viðhalda daglegu lífi. Það fór til vinnu þótt ferðalagið gæti kostað það lífið, reynt var að halda uppi skólastarfi í rústum bygginga – og það sem mér fannst merkilegast: unglingar lögðu sig í lífshættu til að fara í partí á kvöldin. Mér fannst þessi staðfesta mannsins til að ríghalda í hversdagsleikann við slíkar aðstæður ótrúlega heillandi.

Þessi heimsókn til Sarajevó varð kveikjan að nýjustu bókinni minni, Ég er svikari. Það má segja að bókin fjalli um styrk mannsandans. Þetta er vísindaskáldsaga fyrir unglinga – og bara alla sem hafa áhuga á vísindaskáldskap. Aðalsöguhetja bókarinnar er unglingsstelpa sem heitir Amy og býr í London. Hún er ósköp venjuleg stelpa, hangir á Facebook, glápir á YouTube og fer í partí með vinum sínum. Þegar geimverur mæta til jarðar og taka að nema á brott unga fólkið sogast hún inn í óvænta atburðarás. Til að bjarga mannkyninu þarf hún að svíkja þá sem treysta henni og treysta þeim sem eru að reyna að drepa hana.

Mig langar alveg ofsalega mikið til að heimsækja Sarajevó aftur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert