Svo miklu meira en strendur, hommabarir og mínigolf

Þórunn Jónsdóttir ásamt eiginmanni sínum Yasser og dóttur þeirra Cörlu. …
Þórunn Jónsdóttir ásamt eiginmanni sínum Yasser og dóttur þeirra Cörlu. Fjölskyldan býr í þorpinu Valsequillo. Ljósmynd/Aðsend

Þórunn Jónsdóttir var með töluverða fordóma gagnvart Gran Canaria þegar hún flutti þangað fyrir rúmu ári ásamt eiginmanni og dóttur. Fordómarnir eru hins vegar löngu roknir út í veður og vind enda segir Þórunn eyjuna vera afar fjölbreytta og mikla náttúruparadís. Þórunn deilir upplifun sinni af eyjunni á Facebook-síðunni Kanari.is en þar býður hún íslenskum ferðalöngum líka upp á ýmsa þjónustu. 

Áður en Þórunn flutti til Gran Canaria bjó hún á Kúbu, þar sem hún kynntist eiginmanni sínum, Yasser. Frá Kúbu fluttu þau hjónin til Íslands en entust þar aðeins í ár og fluttu þá til Gran Canaria í ágúst 2018 ásamt dóttur sinni, Körlu, sem nú er tveggja ára.

„Ég fann fljótt eftir að ég kom til Íslands að tempóið þar hentar mér ekki, enda kom ég frá Kúbu eins afslöppuð og hugsast gat. Við ákváðum að ef við ætluðum að búa utan Íslands og Kúbu yrði spænskumælandi staður fyrir valinu. Yasser á ættingja hér á Gran Canaria og eftir fjögurra daga skottúr hingað sögðum við upp leigusamningnum á Íslandi, keyptum okkur miða aðra leið og höfum ekki litið til baka síðan,“ segir Þórunn.

Þórunn mælir með bíltúrum um fjallaþorp eyjunnar, til að mynda …
Þórunn mælir með bíltúrum um fjallaþorp eyjunnar, til að mynda til þorpsins Artenara þar sem áhugavert safn er að finna um fornminjar og sögu eyjunnar. Mynd/Davíð Vilmundarson

Líf fyrir utan Ensku ströndina

Þórunn segist ekki hafa vitað mikið um eyjuna áður en hún flutti þangað og tengdi hana fyrst og fremst við sólarlandaferðir. „Áður en ég kom hingað fyrst hafði ég, satt best að segja, örlitla fordóma gagnvart eyjunni. Ég hélt að hér væri ekkert nema strendur, hommabarir og mínigolf. Ég held að margir Íslendingar séu þar sem ég var á þessum tíma og haldi að Yumbo Centrum sé nafli eyjunnar og að það sé ekkert um að vera fyrir utan Ensku ströndina. Ég fékk a.m.k. þau viðbrögð frá vinum mínum þegar ég sagði þeim að ég ætlaði að flytja hingað. Það þótti ekkert sérstaklega töff að flytja til Gran Canaria og ég fékk það á tilfinninguna að fólki þætti það fyrir neðan mína virðingu – sérstaklega eftir að hafa búið á spennandi stað eins og Havana. Í upphafi sagði ég fólki meira að segja oft að ég byggi á Spáni – það var eins og að innst inni skammaðist ég mín fyrir að búa á Kanarí. En Kanaríbúar myndu aldrei segjast vera frá Spáni – þeir eru Kanaríbúar eða Canarios eins og það heitir á spænsku.“

Fjölskyldumiðað samfélag

Í dag er Þórunn stolt af því að búa á Gran Canaria enda kom eyjan henni skemmtilega á óvart. „Það sem kom mest á óvart var náttúrufegurðin og fjölbreytnin sem eyjan hefur upp á að bjóða. Hér er mikið fjalllendi og gróður, náttúrulaugar, fornminjar, hellar, strandir – eitthvað fyrir alla,“ segir Þórunn og heldur áfram: „Svo hef ég líka gaman af því hvað samfélagið er fjölskyldumiðað. Við förum reglulega út að borða eða á hátíðir með vinafólki og börnin eru alltaf með í för. Það lítur þig enginn hornauga þó að þú sért með tveggja ára gamalt barn úti að borða klukkan níu á fimmtudagskvöldi. Fólk hér borðar kvöldmat frekar seint svo að þetta er hinn eðlilegasti hlutur. Ég myndi segja að það neikvæðasta við eyjuna sé hversu lítil fjölbreytni er í atvinnulífinu – hér byggist allt á ferðaþjónustunni, atvinnuöryggi er lítið og oft illa farið með starfsfólk, sérstaklega fólk sem vinnur á veitingastöðum sem vinnur gjarnan sex daga vikunnar. Ég myndi vilja sjá meiri og fjölbreyttari atvinnuþróun hér í náinni framtíð, fyrir dóttur mína og syni og dætur eyjunnar. því hér eru tækifærin mörg en erfitt að grípa þau þegar fólk vinnur sex daga vikunnar fyrir 1.200 evrur á mánuði.“

Morcilla dulce er sætur blóðmör sem er í uppáhaldi hjá …
Morcilla dulce er sætur blóðmör sem er í uppáhaldi hjá Þórunni. Þetta er vinsæll réttur meðal heimamanna en hann fæst einnig í annarri útgáfu með hrísgrjónum og kallast þá burgos. Mynd/Snæfríður Ingadóttir

Kanarískur blóðmör í uppáhaldi

Spurð hverju hún mæli með á eyjunni fyrir ferðafólk sem heimsæki Gran Canaria segir hún að Tejeda-þorpið og svæðið þar í kring sé í miklu uppáhaldi hjá henni. „Tejeda-þorpið eitt og sér er eitt það fallegasta á Spáni og þar er fjöldi góðra veitingastaða. Minn uppáhaldsveitingastaður þar heitir Cueva de la Tea. Þar fæ ég mér gjarnan sætan blóðmör með möndlusultu (morcilla dulce), hinar klassísku krumpuðu kartöflur (papas arrugadas) og einhverja góða steik (gjarnan svínakjöt). Ég uppgötvaði nýlega slátrið, en önnur útgáfa þess er Burgos-blóðmör, sem er gjarnan blanda af slátri og hrísgrjónum. Í nágrenni Tejeda er hægt að fara í langar og stuttar göngur, t.d. að Roque Bentayga sem er gamall bænastaður frumbyggjanna sem voru hér fyrir komu Spánverjanna. Artenara er svo annað þorp á svipuðum slóðum þar sem er skemmtilegt safn sem sýnir búsetu í hellahúsum, sem enn tíðkast hér og hægt er að heimsækja frítt safn um fornminjar og sögu svæðisins sem heitir Centro de Interpretación. Eins mæli ég með því að fólk fari á bændamarkaðinn í San Mateo eða Teror og kaupi sér ferskt grænmeti og ávexti. Þeir eru alla jafna opnir um helgar frá kl. 9-14 og svo er oft fjör seinni partinn, t.d. eru gömlu dansarnir alltaf dansaðir í San Mateo.“

Þorpið Tejeda er eitt það fallegasta á Spáni.
Þorpið Tejeda er eitt það fallegasta á Spáni. Mynd/Dreamstime.com

Leigir út bílstóla

Þórunn, sem býr í fjallaþorpinu Valsequillo, hefur verið að fást við ýmislegt á Gran Canaria, en hún er einn af stofnendum og eigendum Poppins & Partners, ráðgjafafyrirtækis á sviði frumkvöðlastarfsemi og nýsköpunar á Íslandi. „Við rekum fyrirtækið yfir netið því Hanna Kristín Skaftadóttir, viðskiptafélagi minn, býr á austurströnd Bandaríkjanna. En svo er ég þessi týpa sem er alltaf að fá nýjar hugmyndir svo ég er með tvö ný verkefni hér á eyjunni sem ég er að vinna að. Annað er ég að vinna í samstarfi við Dekura á Íslandi þar sem við bjóðum upp á eignaumsjón fasteigna í skammtímaleigu hér á eyjunni, en Dekura hefur boðið upp á sambærilega þjónustu síðastliðin fimm ár á Íslandi með góðum árangri. Hitt verkefnið er Facebook-síðan kanarí.is. Þar er ég fyrst og fremst að sýna samlöndum mínum að Kanaríeyjar hafa upp á annað og meira að bjóða en það sem þessar hefðbundnu sólarstrandaauglýsingar sýna. Ég byrjaði svo nýverið að leigja bílstóla til ferðafólks á eyjunni og í náinni framtíð er ætlunin að opna heimasíðuna kanari.is þar sem ég verð með ítarlegri og skipulagðari umfjöllun um Kanaríeyjar og mun mögulega bjóða upp á meiri þjónustu í kringum leigu á búnaði. Svo er draumurinn að bjóða upp á kanarískar upplifanir eins og lautarferð uppi í fjöllum, rútuferðir á hinar ýmsu hátíðir og jafnvel myndlistarferðir og tungumálanámskeið fyrir þá sem dvelja hér í styttri eða lengri tíma. Ég þarf bara að finna aðeins fleiri mínútur í sólarhringnum áður en ég ræðst í það verkefni,“ segir Þórunn og hlær.

Spurð hvort hún sé komin til að vera telur hún svo vera. „Ég veit þó ekki hvort ég mun enda á því að spila manna á einhverjum Íslendingabarnum hér í framtíðinni – ætli við hjónin flytjum ekki aftur til Kúbu eftir svona 20 ár þegar síðasti unginn er floginn úr hreiðrinu. En hér líður okkur vel og hér ætlum við að vera áfram næstu árin eða áratugina miðað við núverandi plan.“

Hjónin í höfuðborginni Las Palmas. Þórunn leigir út barnabílstóla til …
Hjónin í höfuðborginni Las Palmas. Þórunn leigir út barnabílstóla til ferðamanna, tekur að sér eignaumsjón og heldur úti síðunni kanari.is á Facebook, svo fátt eitt sé nefnt. Það eru alltaf einhver verkefni í bígerð. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »