Svaf á ströndinni og ferðaðist á puttanum

Tónlistar- og dagskrárgerðarmaðurinn Magnús R. Einarsson var lengi vel með …
Tónlistar- og dagskrárgerðarmaðurinn Magnús R. Einarsson var lengi vel með útvarpsþætti á RÚV. Hann hefur spilað með fjölda hljómsveita í gegnum tíðina en nýtur nú lífsins á Spáni. Þar sinnir hann spænskunámi, gítarspili, lyftingum o.fl. Mynd aðsend

Tónlistarmaðurinn Magnús R. Einarsson hefur búið í Alicante-borg undanfarna níu mánuði og unir hag sínum vel. Hann heillaðist af Spáni sem ungur námsmaður og kann vel að meta blómlegt tónlistarlíf borgarinnar. 

Magnús hefur ferðast víða um dagana og búið bæði á Ítalíu og í Frakklandi en er nú sestur að á Spáni. „Alicante varð fyrir valinu hreinlega fyrir tilviljun. Hún er nú samt fyrsta borgin sem ég heimsótti á Spáni þegar ég var fátækur námsmaður árið 1978 og kannski hafði það áhrif á valið. Þá var nú annar stíll á manni, maður svaf á ströndinni og ferðaðist á puttanum. Ég heillaðist algerlega af Spáni og Spánverjum og fann strax það sem einkennir þjóðina hvað best; almennilegheit, kurteisi og hjálpsemi. Spánverjar eru sómafólk,“ segir Magnús þegar hann er spurður út í það hvernig það kom til að hann fluttist til Alicante í febrúar á þessu ári. Alicante er reyndar ekki eina spænska borgin sem Magnús er hrifinn af en hann hefur verið duglegur að ferðast innan Spánar eftir að hann flutti út. „Ég er hrifinn af Andalúsíu og langar að ferðast meira um í því héraði. En af þeim borgum sem ég hef heimsótt á Spáni þá er ég hrifnastur af borginni Valencía. Þetta er falleg borg með glæsileg hverfi og stórkostlegt útivistarsvæði sem var skapað í gömlum farvegi fljóts sem rann í gegnum borgina. Meiri háttar.“

Í Alicante er mikið menningarlíf, tvö stór leikhús, tónlistarhöll og …
Í Alicante er mikið menningarlíf, tvö stór leikhús, tónlistarhöll og frábær söfn. Þar á meðal fornminjasafn sem hlaut fyrir nokkrum árum verðlaun sem besta safn í Evrópu. Magnús býr þar rétt hjá. Mynd aðsend

Hvernig myndirðu lýsa Alicante?  

„Alicante er ævagömul hafnarborg. Hér háttar þannig til að við höfnina er 150 metra hár klettur og ofan á honum er stór og mikill kastali sem varði höfnina fyrir árásum. Borgin er mjög vinsæl hjá utanbæjarfólki, Spánverjum sem eiga hér margir íbúðir til sumardvalar. Aðrir túristar sækja meira í byggðarlög norðan og sunnan við borgina. Þetta er annars rólegt 350.000 manna samfélag, mest vinnandi fjölskyldufólk. Borgin er afar þéttbýl, hún kæmist fyrir nokkrum sinnum á borgarlandi Reykjavíkur. Það góða við borgina er náttúrulega fyrst og fremst fólkið. Hér hefur verið þéttbýli í sjö þúsund ár og fólkið kann að búa saman. Hér ríkir tillitsemi og vinátta finnst mér. Hér er mikið menningarlíf, tvö stór leikhús, tónlistarhöll og frábær söfn. Þar á meðal fornminjasafn sem hlaut fyrir nokkrum árum verðlaun sem besta safn í Evrópu. Ég bý einmitt þar rétt hjá. Hérna eru nokkrir frægir tónlistarskólar sem skila sér í því að hér er afar blómlegt og skemmtilegt tónlistarlíf.“

Klassískur hádegisverður. Magnús segist vera sérlega hrifinn af fiskinum í …
Klassískur hádegisverður. Magnús segist vera sérlega hrifinn af fiskinum í Alicante sem var fiskimannabær í þúsundir ára. Í borginni miðri er stór fiskmarkaður sem hann heimsækir stundum. Mynd aðsend

Hvað ertu að brasa þarna úti?

„Það góða við „pensjónatið“ er að maður getur búið sér til rútínu sem hægt er að bregða út af ef þurfa þykir. Ég er árrisull og fer snemma út í sirka klukkutíma göngu. Það er fastur liður. Síðan tekur við morgunkaffið og lestur á helstu fréttum. Svo er dagurinn helgaður spænskunámi, gítarspili, spekúlasjónum, lyftingum, skriftum og músíkpælingum. Upphaflega stóð til að ég yrði með útvarpsþátt á norrænni stöð sem er í Torrevieja, hér 50 kílómetra fyrir sunnan Alicante. Hins vegar reyndist ekki tæknilega mögulegt að tengja litla stúdóið mitt við stöðina þannig að það varð ekkert úr því samstarfi. Ég grét það ekki neitt eftir að ég frétti að tónlistarsnið stöðvarinnar var engilsaxneskt ellipopp og ég fengi ekki um það ráðið þrátt fyrir að um annað hafi verið samið.“

Ertu búinn að finna þér einhverja spænska spilafélaga?

„Ég hef nú ekki verið að leita að þeim sérstaklega en ég hitti einn gítarista sem spilar flamenco og hef stundum djammað með honum. Þá hittumst við niðri við strönd að kvöldlagi og spilum fyrir okkur sjálfa. Flamenco er heillandi form. Ég hef verið að æfa mig í taktinum sem mér finnst spennandi og skemmtilegt að fást við. Náttúrlegt og ákaft spil með öðruvísi áherslur en í poppinu.“

Við Alicante er góð baðströnd. Magnús er lítið fyrir sólböð …
Við Alicante er góð baðströnd. Magnús er lítið fyrir sólböð en fer stundum síðdegis eða á kvöldin á ströndina og spilar sér til skemmtunar með öðrum músíköntum. Mynd/Dreamstime.com

Áttu þér orðið uppáhaldsstaði í borginni?

„Já ég sæki nokkra staði sem ég hef tekið í uppáhald. Það er kaffihús hér á fyrstu hæð í húsinu sem ég bý í við lítið torg aðeins fyrir utan miðbæinn. Það er minn fyrsti staður á morgnana. Ég fer oft á lítinn veitingastað sem heitir Austin í miðbænum þar sem ég fæ að sitja og skrifa og semja. Hann er í gamla bænum svokallaða sem er í hlíðinni undir kastalaklettinum. Þar eru göturnar þröngar og engin umferð nema gangandi. Ég er ekki sólbaðsmaður, en það er ekki nema tíu mínútna gangur niður á strönd og þangað fer ég oft, sérstaklega síðdegis og stundum á kvöldin. Stundum með gítarinn með mér og djamma með öðrum músíköntum sem þangað sækja. Svo er einn lítill jazzklúbbur, Villavieja 6, hér nálægt sem ég sæki einu sinni tvisvar í viku.“

Hvað hefur komið þér mest á óvart við að búa á Spáni?

„Tja, eiginlega kom það mér aðeins á óvart hvað allt er skilvirkt hér. Ég var haldinn þeim fordómum að hér væri meiri óreiða og seinvirkni. Hlutirnir geta vissulega tekið sinn tíma en það kemur alltaf niðurstaða, vel unnin og faglega. Það kom líka á óvart hvað Spánverjar eru yfirvegaðir, tillitsamir og slakir í raun. Þeir pirrast ekki eins og Frakkar, rjúka ekki upp eins og Ítalir. Þeir taka sér tíma og hlutirnir leysast. Þetta er gott samfélag.“

Hver eru framtíðarplönin? Ertu sestur alveg að í Alicante? 

„Framtíðarplönin eru aðeins þau að njóta lífsins en þau eru ekki bundin við Alicante frekar en einhvern annan stað. Mig langar að kynnast Spáni meira og betur og ekki sakar að fólkið hér er opið og hjartahlýtt. Meira en ég hef kynnst hjá öðrum þjóðum þar sem ég hef búið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert