Giftu sig í háloftunum

Fólkið gifti sig í flugvél.
Fólkið gifti sig í flugvél. mbl.is/Colourbox.dk

Kona frá Nýja-Sjálandi og maður frá Ástralíu giftu sig mitt á milli heimalanda sinna eða í áætlunarflugi með Jetstar-flugfélaginu frá Sydney í Ástralíu til Auckland á Nýja-Sjálandi. Ást þeirra á flugmálum er það sem sameinaði þau að því fram kemur í frétt CNN um brúðkaupið. 

Hjónin kynntust á netinu árið 2011 í gegnum tölvuleikinn Airport City. Þau hittust svo fyrst í alvöru á flugvellinum í Sydney. Það þótti því við hæfi að ganga í hjónaband í háloftunum. Nokkrum árum eftir að þau hittust fyrst ákvað maðurinn að biðja kærustu sinnar í flugi á milli Brisbane og Melbourne. Hann varð þó svo stressaður að hann beið með bónorðið þangað til seinna um kvöldið.

Hin nýgifta kona segist hafa viljað gera eitthvað mjög sérstakt í brúðkaupinu og ákvað að biðja flugfélagið Jetstar um hjálp. Flugfélagið tók svo vel í bón konunnar að það gerði draumabrúðkaup hennar að veruleika. 

Starfsmenn flugfélagsins stjórnuðu athöfninni í háloftunum og farþegar og áhöfn fylgdust með. Þau gengu frá lagalegu hliðinni á flugvellinum í Sydney fyrir brottför. 

mbl.is