Hjörtur var í mótorhjólaparadís í Noregi

Hjörtur „Líklegi“ á hjóli sem hann prófaði í Noregi sem …
Hjörtur „Líklegi“ á hjóli sem hann prófaði í Noregi sem hann segir hæfa sextugum manni. Ljósmynd/Aðsend

Í haust fóru hjónin Hjörtur L. Jónsson, eða Hjörtur Líklegur eins og hann er kallaður, og eiginkona hans, Sunna Sveins, á mótorhjólamót í Noregi. Á mótinu sem fram fór í kringum Vradal í Noregi í um 200 kílómetra akstursfjarlægð frá Ósló fékk mótorhjólaáhugafólk að prufukeyra fjöldann allan af mótorhjólum í norskri sveitasælu.  

Það var vinur Hjartar, Bjørn Richard Johansen, sem benti Hirti á að taka þátt en hann tekur þátt í að skipuleggja mótið. Johansen var áberandi á Íslandi í kringum hrun en í miðju hrun­inu hóf hann störf fyr­ir rík­is­stjórn­ Íslands og kom að áfalla- og krís­u­stjórn­un. 

Hjörtur flaug til Óslóar á fimmtudegi og kom að hótelinu Straand Hotel í Vradal á föstudegi þar sem mótið var haldið. Hjörtur segir hótelið mikið notað af mótorhjólafólki á sumrin þar sem vegirnir í næsta nágrenni þykja skemmtilegir fyrir mótorhjólaakstur og ekki skemmir útsýnið fyrir í næsta nágrenni. Á veturna er það hins vegar skíðafólk sem fyllir hótelið enda stutt í góð skíðasvæði.

Mótsgestir gistu á Straand-hótelinu.
Mótsgestir gistu á Straand-hótelinu. Ljósmynd/Aðsend

Í boði var að prófa 82 ný mótorhjól

„Uppsetning á mótorhjólamótinu er þannig að innflutningsaðilar nýrra mótorhjóla í Noregi koma með ný mótorhjól og leyfa mótsgestum að prófa hjólin í 30 mínútur hvert hjól,“ segir Hjörtur en hver og einn gat prófað að hámarki 12 hjól á laugardeginum og átta á sunnudeginum. Alls voru 82 ný mótorhjól klár til prufuaksturs fyrir utan hótelið. 

„Okkur bauðst að ferja eitt prufuaksturshjólið frá innflytjandanum á hótelið þar sem mótið fór fram. Farkosturinn var stærsta gerð af BMW-ferðahjóli, sex strokka með 1600 cc vél, þrjár töskur fyrir farangur. Við vorum átta sem vorum að fara með hjól frá þessum innflytjanda, allt BMW-hjól sem voru frá 310 cc upp í hjólið sem ég var á, 1600 cc. Sá sem leiddi hópinn valdi að halda sig frá norskum hraðbrautum, ók þess í stað hlykkjótta sveitavegi með fallegu útsýni, flott leið í alla staði, en svolítið heitt að keyra í 25 stiga hita á hjóli sem er hannað í vindgöngum og gefur litla sem enga vindkælingu fyrir mann sem er of mikið klæddur. Á leiðinni var stoppað til að næra mannskapinn í sveitabakaríi þar sem snædd var pizza. Á þessum stað bættust við fjögur hjól frá öðrum innflytjanda þannig að við vorum orðin 12. Alls var leiðin frá Speed í Sandefjord að Straand Hotel í Vradal 145 kílómetrar, á frábærum vegum. Þegar komið var á hótelið var okkur hjónunum úthlutað herbergi og mikið var maður feginn að komast úr mótorhjólagallanum því að þennan dag var óvenjuheitt miðað við árstíma að sögn heimamanna,“ segir Hjörtur um hjólaleið föstudagsins. 

Eiginkona Hjartar, Sunna Sveins, var með í för. Á myndinni …
Eiginkona Hjartar, Sunna Sveins, var með í för. Á myndinni er hún umkringd BMW-hjólum. Ljósmynd/Aðsend

„Hátíðin var sett formlega á föstudagskvöldi og fólki bent á hvaða leiðir væri sniðugast að keyra fyrir mismunandi mótorhjól. Á hátíðinni var einnig hægt að prófa enduro-hjól, en úrvalið var ekki mikið af enduro-hjólum, 3 KTM, 2 Husqvarna og 1 Honda voru hjólin sem í boði voru. Að prófa endurohjól var aðeins öðruvísi, öryggið var sett í fyrsta sæti, crosshjálmur, crossstígvél og brynja var skylda. Eftir kl. 16 á laugardeginum voru fyrirlestrar í samkomusal um ýmsa hluti sem tengist mótorhjólum s.s. um kappakstur á eyjunni Mön, Johansen sagði frá hvernig hann fékk hugmyndina að þessari mótorhjólahátíð, kosning á skemmtilegasta mótorhjólinu sem kosið var af ökumönnum eftir prufuakstur á hjólunum.“

Prófaði skemmtilegasta prufuaksturshjólið á hátíðinni 

Hjörtur segist hafa gert ákveðin byrjendamistök með því að skrá sig ekki strax á þau hjól sem hann vildi prófa. Hann prófaði þó þau hjól sem í boði voru. 

„Fyrsta hjólið var Triumph Tiger 1200 ferðahjól, kraftmikið, þægilegt að keyra, en frekar þungt, annað hjólið var Triumph Scrambler 900, skemmtilegt hjól fyrir stuttar ferðir. Þriðja hjólið var hjólið sem kosið var skemmtilegasta prufuaksturshjólið á hátíðinni af þeim sem það prófuðu, en það var Husqvarna Vitpilen 701 götuhjól, skemmtilegur mótor, bremsur framúrskarandi, ekta leiktæki sem auðvelt er að tapa ökuskírteininu á. Fjórða hjólið var prófað fyrir vin minn sem hefur verið að hugsa um að kaupa svona hjól til að ferðast um Ísland með konunni, en það hjól heitir Suzuki V-Storm 650, gott að keyra, en á þeim vegi sem ég prófaði hjólið fannst mér það vanta svolítið kraft. Annars er fjöðrunin á því hjóli mjög góð og gott að keyra hjólið á þeim stutta malarvegi sem hjólið var prófað á.“

Hjörtur fór tíu sinnum upp og niður þennan beygjukafla.
Hjörtur fór tíu sinnum upp og niður þennan beygjukafla. Ljósmynd/Aðsend

Hjörtur prófaði fleiri hjól á sunnudeginum og segir það hafa gengið betur. 

„Ég hafði skráð mig strax klukkan tíu í prufuakstur á Kawazaki H2 hjóli með hrikalegan hestaflafjölda (sagt er að þetta hjól sé með yfir 300 hestafla vél og hámarkshraði vel yfir 300 kílómetrar á klukkustund), það skipti aldrei máli í hvaða gír maður var, það var alltaf nóg af krafti. Ég hef aldrei keyrt mótorhjól með eins góðar bremsum. Ég þurfti bara einn putta á frambremsuna og þá nánast stoppaði hjólið á punktinum,“ segir Hjörtur og segir hjólið ekki vera fyrir sextugan mann. 

Hjörtur byrjaði sunnudaginn á hrikalega öflugu hjóli.
Hjörtur byrjaði sunnudaginn á hrikalega öflugu hjóli. Ljósmynd/Aðsend

„Næsta hjól var Triumph Bobber, krafturinn var alveg í lagi og bremsur, en það er eitthvað svo flott við útlitið og hönnunina á þessu eins manns hjóli (ekki með sæti fyrir farþega). Næst var það hjólið sem erfiðast var að fá að prófa svo umsetið var það, en það kom mér mest á óvart af öllum hjólunum sem ég prófaði. Þetta var MV Agusta Travel, þriggja strokka 800 cc ferðahjól frá Ítalíu, frábær áseta, gott tog og kraftur, gott á möl og þægilegt í akstri.

Næst var það KTM 790 en sölumaðurinn bað um að tveir og tveir færu alltaf saman á þessum hjólum og skiptu um hjól í miðjum prufuakstri. Ég og Bjørn Richard fórum hvor á sínu hjólinu. Ég hafði nýlega ekið með honum um ítölsku alpana og vorum við þá á eins hjólum og erum svipaðir akstursmenn. Ég taldi okkur vera á eins hjólum en hann einfaldlega stakk mig af út úr öllum beygjum og bremsaði seinna inn í allar beygjur. Ég mátti leggja mig allan fram við að halda í við hann, á miðri leið skiptum við svo og þá skildi ég vel hvers vegna hann stakk mig af, þessi KTM-hjól voru gjörólík þó að þau hétu það sama, demparar og bremsur voru mun betri á öðru hjólinu sem gerði svona mikinn mun (munar líka á verði um 300 þúsund íslenskum). Mér skilst að KTM á Íslandi hafi ekki boðið upp á ódýrara hjólið hér og vona að það verði ekki í boði.
Síðasta hjólið var það hjól sem einna erfiðast var að komast í að prófa, en það var Indian FTR1200, leiktæki ríka og fína fólksins, flott hönnun, góður kraftur, en mér líkaði ekki pústið sem búið var að setja á hjólið. Það truflaði mig þar sem ég held mjög laust um stýri á hjólum, en klemmi frekar lærin um tankinn, en þarna fóru lærin í pústið og hitinn var of mikill auk þess að vont var að keyra hjólið standandi.“
Mótorhjólin voru geymd á tennisvelli.
Mótorhjólin voru geymd á tennisvelli. Ljósmynd/Aðsend

Aftur að ári?

Á leiðinni heim tóku Hjörtur og Sunna þátt í að ferja mótorhjól. Þá lá leiðin um þrönga og hlykkjótta vegi Noregs. Þau hjóluðu meðal annars í samfloti við hóp frá MC-Oslo, stærstu mótorhjólabúð í Ósló. „Bakaleiðin var 140 km, og tók um þrjár klukkustundir að keyra þá leið á þröngum, mjóum og hægförnum sveitavegum Noregs. Síðan var tekin lest frá Sandefjord til systur minnar í Asker og gist þar tvær nætur áður en haldið var heim aftur,“ segir Hjörtur ánægður með ferðina og er nú að gera það upp við sig hvort hann eigi ekki að skella sér aftur á næsta ári. Alla vega eru ekki mörg mótorhjólamót þar sem hægt er að prófa svona mikið af nýjum mótorhjólum sé fólk í þeim hugleiðingum að kaupa nýtt mótorhjól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert