„Ég er of feit og mun pottþétt festast“

Sigrún Tinna og Ásdís Ósk Valsdóttir.
Sigrún Tinna og Ásdís Ósk Valsdóttir.

„Við mæðgur skelltum okkur í vetrarfrí til Orlando í Florida. Við vorum búnar að bíða lengi eftir þessari ferð, nánar tiltekið í tæpt ár þar sem Sigrún Tinna fékk hana í jólagjöf. Þetta var fyrsta stelpuferðin okkar þar sem við yrðum bara tvær og við hlökkuðum ansi mikið til. Þegar ég breytti um gír fyrir nokkrum árum og ákvað að einfalda lífið þá urðu jólagjafir pínu vesen.  Ég gat ekki hugsað mér að kaupa endalaust dót sem entist í stuttan tíma og ákvað að gefa krökkunum frekar upplifanir og samveru. Kosturinn er að þú getur gefið heimatilbúið gjafabréf og nýtt svo árið í að finna góð tilboð á flugi og gistingu. Ég pantaði flug á tilboði hjá Icelandair og gistingu í gegnum www.hotwire.com þar sem er oft hægt að fá frábær tilboð á gistingu. Við ákváðum að vera 5 nætur í Orlando, taka 2 daga í Disney og slaka svo á við sundlaugina og skella okkur í smá búðaráp en umfram allt njóta þess að vera saman og eiga frábært mæðgnafrí,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona í sínum nýjasta pistli: 

Þegar flughræðslan lamar þig

Við áttum flug á fimmtudegi og sátum framarlega. Sætin voru reyndar ekkert sérstök. Ekki hægt að halla þeim almennilega og við náðum ekki að sofa vel á leiðinni. Flugið var samt mjög þægilegt. Við lentum í smá ókyrrð og ég þakkaði fyrir að vera hætt að vera flughrædd.  Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að ferðast og á mínum yngri árum þá ferðaðist ég mjög mikið. Ég flaug með alls konar rellum við vafasamar aðstæður en eftir því sem börnunum fjölgaði og ég eltist þá þróaði ég með mér gífurlega flughræðslu, svo mikla að ég treysti mér ekki í mikið lengra flug en 3 — 4 tíma. Ég man eftir mjög vandræðalegum augnablikum þar sem ég lenti í ókyrrð og fékk leyfi til að kreista hendur á bláókunnugu fólki til að lifa hana af.  Alltaf þegar flugmaðurinn byrjaði að tala þá fékk ég ónot í magann. Ég óttaðist að hann væri að fara að tilkynna ókyrrð. Ég stífnaði upp, kvíðahúturinn í maganum magnaðist upp og ég stressaðist upp við það eitt að heyra, þetta er flugmaðurinn sem talar... Stundum var þetta mjög ómerkilegt eins og að tilkynna að við værum að fara að lenda eða það væri gott veður á áfangastað en oftar var þetta til að tilkynna um mögulega ókyrrð. Ég kreisti sætisarmana og bað bænirnar mínar allan tímann sem ókyrrðin stóð yfir,  líka þegar ég hélt að það væri að koma ókyrrð.  Það versta sem ég lenti í raun í var þegar flugmaðurinn sagði að kannski yrði ókyrrð sem kom svo aldrei. Þá helltist yfir biðin eftir ókyrrðinni. Þessi tilfinning sem heltók mig og lamaði. Þú ert eins og hengd upp á þráð og nærð varla andanum af stressi yfir því sem mun kannski koma. 

Ég beið og beið með hjartsláttartruflanir eftir ókyrrðinni sem aldrei kom. Ég var búin að fá mér róandi til að komast í gegnum flugið en það dugði samt aldrei til. Þetta voru einu skipti sem ég virkilega bölvaði því að drekka ekki. Sá fyrir mér að það væri líklega ansi slakandi að geta drukkið frá sér stressið. Svo einn daginn ákvað ég að þetta gengi ekki og skellti mér á flughræðslunámskeið hjá Icelandair. Þetta voru nokkrir tímar og endaði á flugi til Kaupmannahafnar. Hefði aldrei trúað þessu en ég hef ekki fundið fyrir flughræðslu síðan ég fór á þetta námskeið. Frelsið að geta flogið hvert sem er án ótta er ólýsanlegt. Allt í einu opnuðust allskonar ferðalög. Allt í einu get ég sett Asíu, Ástralíu og Afríku á listann minn. Það er svo skrýtið að þegar fólk þjáist af kvíða og fælni þá eru ótrúlega margir sem halda að þetta sé ímyndunarveiki. Ansi margir ráðlögðu mér að hrista þetta af mér, hætta þessari vitleysu.  Hvað rugl þetta væri eiginlega í mér? Ég væri nú betur gefin en þetta. Vandamálið er að það er ekki hægt að hrista þetta af sér. Það er hins vegar hægt að leita sér aðstoðar og frelsið sem ég upplifði bæði þegar ég losnaði við flughræðsluna og lofthræðsluna er engu líkt. Ég var búin að halda mér í gíslingu með svo margt og sleppa svo mörgu af því að ég gat ekki hugsað mér að prófa. Allt í einu opnuðust svo mörg tækifæri.

Lentar án vandræða í Orlando

Við vorum fljótar í gegnum tollinn og tókum Uber upp á hótel. Ég var ekki alveg viss með hótelið. Hafði dregið það of lengi að bóka gistingu og fann ekki viðráðanlegt Disney-hótel þannig að ég bókaði okkur í Kissimmee og vonaði að þetta yrði í lagi. Þetta var resort með fullt af húsum. Húsið sem ég bókaði var aðeins dýrara en ég ætlaði mér en það virkaði voðalega fínt. Við komum á staðinn rétt fyrir 23:00. Tékkuðum inn og ákváðum svo að fá okkur smá nesti í minimarket sem var opin á svæðinu. Við rétt misstum af honum. Komum 23:01 og það lokaði samviskusamlega klukkan 23:00. Núna voru góð ráð dýr. 

Við vorum nýkomnar úr löngu flugi og glorhungraðar. Við ákváðum að finna húsið okkar og kanna svo með mat. Við fengum leiðbeiningar með staðsetningu á kortinu og lögðum af stað. Ég hef marga kosti, einn af þeim er EKKI að lesa á kort. Eftir smá göngu vorum við alveg týndar. Þá vorum við svo heppnar að hún Maria sem var nýflutt frá Venezuela var á ferðinni og hún lóðsaði okkur inn í hús. Við förum inn í hús og ég varð smá svekkt. Ég hélt að ég hefði pantaði aðeins stærra hús með 2 svefnherbergjum. Það var eldhús og stofa, eitt svefnherbergi með 2 rúmum og baðherbergi inn af og verönd með heitum potti. Ég ákvað að setja farangurinn inn í þetta eina herbergi þegar ég heyri dóttur mína kalla. Mamma það er fullt af herbergjum, nú, hvar, hérna uppi. Já sko, þá var húsið á 2 hæðum og þarna uppi voru 3 svefnherbergi og 2 baðherbergi. 

Það var ágætlega rúmt um okkur tvær. Sigrún Tinna sagði að þetta væri besta hótel sem hún hefði komið á enda hægt að velja um nýtt svefnherbergi á hverju kvöldi. Þegar við vorum búnar að koma okkur fyrir fórum við í gegnum matinn sem við áttum. Það var einn pínulítill poki af Lay‘s kartöfluflögum sem við skiptum samviskusamlega á milli okkar. Við fórum því í rúmið og ákváðum að vakna snemma þar sem það var langur dagur fram undan í Disney. 

Fyrri dagurinn í Disney

Við vorum vaknaðar frekar snemma. Þetta flug til Orlando er í raun algjör snilld. Við lentum kl. 21:00 og vöknuðum um 6:00. Sluppum alveg við tímamismuninn og vorum hressar fyrsta daginn. Við áttum bókað í fyrsta tækið milli 08:00 — 09:00 en vorum of svangar til að byrja í tækjum og ákváðum að byrja á því að borða. Mamma, sagði Sigrún Tinna á leiðinni í morgunmat, nei annars, ég segi þér það seinna. Nú, hvað, æi þú ert alltaf svo úrill þegar þú ert rosalega svöng að ég ætla að segja þér þetta seinna. Já, það er gott að sumir þekkja mömmu sína út og inn. Disney er með frábært app þar sem þú getur tekið frá allt að þrjá FastPass í leiktækin. Þegar þeir eru síðan búnir þá er hægt að taka einn í einu. 

Ég afbókaði því þann fyrsta og bókaði hann seinna um daginn. Það er hægt að taka frá með allt að 60 daga fyrirvara og með því að nýta sér Fast Pass er hægt að spara sér ansi marga klukkutíma í biðröðum. Þegar við komum til að sækja miðana okkar þá var verið að selja miða í Hrekkarvökupartý um kvöldið. Okkur fannst tilvalið að skella okkur í það, því hversu oft ertu stödd í Disney í Hrekkjarvökupartý. Við tókum því 2 miða. Það stefndi í ansi langan dag þannig að við ákváðum að slaka okkur aðeins á milli. Eyddum deginum í Magic Kingdom og fórum svo heim seinni partinn. Komum við í matvöruverslun og keyptum nauðsynjar því Layspokinn var jú búinn og ákváðum að leggja okkur aðeins fram að partýi. Þegar við vöknuðum rigndi eldi og brennisteini. Við ákváðum samt að fara og taka út partýið og tókum með okkur regnhlífar sem vildi svo skemmtilega til að við keyptum síðast þegar við vorum í Orlando fyrir rúmum 3 árum. Það stytti upp og við nutum þess að horfa bæði á skrúðgönguna og flugeldasýninguna og fórum svo heim. Laugardagurinn átti að vera slökunardagurinn. Við ætluðum að byrja daginn í sundlauginni, skreppa svo aðeins í búðir og svo áttum við kvöldmiða í Animal Kingdom á laugardagskvöldinu. Mér fannst tilvalið að kaupa þá því það var talað um styttri raðir og notalegheit.

Þú ert ekki lengur í Kansas Dóróthea mín

Við ákváðum að byrja morguninn á því að skreppa í ræktina. Ég var með mjög metnaðarfull plön að hreyfa mig á hverjum degi. Planið var að hlaupa á hlaupabretti og synda svo 1 km eða svo í sundlauginni. Veðrið var fínt, smá rigning og skýjað. Skellti mér á hlaupabrettið og „naut“ þess að horfa á raunveruleikaþætti á brettinu. Ég náði svona 10 þáttum, það var einn í sýningu og svo voru auglýsingar fyrir hina 9. Þeir voru allir eins. Rosalega mikið af reiðum konum og vandræðalegum mönnum. Þegar við vorum búnar í ræktinni ákvaðum við að skella okkur í sund. Nei, þið getið ekki farið í sund, sundlaugin er lokuð vegna veðurs. Hvað meinar þú, það er skýjað, pínulítil rigning og varla vindur. Á Íslandi syndir maður sko í hagléli, sagði ég og tók hrokann á þetta. Já, við erum nú bara ekki á Íslandi, við erum í Florida og það getur allt gerst. Þetta var reyndar akkúrat það sama og gerðist í Miami um síðustu jól þegar ég var rekin upp úr sundlauginni því pálmatréin gætu mögulega rifnað upp með rótum. Mér fannst þetta full mikil forræðishyggja í bæði skiptin en það var víst ekki annað að gera en að hlýða reglunum.

Ég ætla að eyða nóttinni með Matthew

Þrátt fyrir að hafa ferðast mikið um Suður- og Mið-Ameríku á mínum yngri árum hef ég aldrei upplifað alvöru fellibyl. Það var ekki fyrr en í september 2016 þegar ég fór í viku frí til St. Lucia að ég komst í tæri við einn slíkan  Ég hafði pantað mér algjör slökunarfrí á www.thebodyholiday.com  þetta er einstakur staður þar sem mikið er lagt upp úr heilbrigðum lífstíl.  Þegar ég kom þá lenti ég í því að fá tímabundið betra herbergi. Til að bæta mér upp óþægindin við að þurfa að fara í rétta herbergið eftir 3 daga fékk ég eina snyrtimeðferð að eigin vali. 

Nýja herbergið mitt var æðislegt. Það var sjávarútsýni, næstum því ofan í sjónum með svölum.  Ég hafði aldrei fengið svona flott herbergi og ætlaði heldur betur að njóta þess. Um kvöldið var kynningarfundur fyrir alla sem voru að koma. Hótelstjórinn kom með áríðandi tilkynningu. „Það er smá vesen í uppsiglingu. Það er að koma fellibylur í kvöld. Matthew er að hefja innreið sína og hann byrjar á St. Lucia. Hann verður líklega ekki mjög sterkur en hann á eftir að fara yfir Karabíska hafið þar til hann lendir á Bandaríkjunum“. Þetta voru aldeilis frábærar fréttir. Þarna var ég ein að ferðast í Karabíska hafinu og herbergið mitt sneri út á sjó. Ég get ekki sagt að ég hafi sofið mjög vel um nóttina en þetta fór ótrúlega vel miðað við eyðilegginguna sem hann átti eftir að skilja eftir sig https://en.wikipedia.org/wiki/Hurricane_Matthew

Ég ákvað samt að reyna að slá á létta strengi og setti inn Facebook-stöðu. Hef ákveðið að eyða nóttinni með Matthew og setti svo link á frétt um fellibylinn. Þar kom berlega í ljós að fólk les bara fyrirsagnir þar sem ég fékk nokkur komment um hvaða kærasti þessi Matthew væri en ekki sála hafði áhyggjur af líðan minni í miðjum fellibyl.

Þegar þú reynir að drepa Hýdru

Fyrst við mæðgur máttum ekki synda ákváðum við að fara og fá okkur hádegismat.  Við höfum verslað í matinn daginn áður og sett allt sem þurfti ekki að fara í ísskápinn upp á bekk.  Þegar við byrjuðum að græja okkur sá ég að það voru nokkrir maurar að þvælast sem var svosum ekkert tiltökumál þannig að ég drap þá bara en mér leið samt eins og Herkúles þegar hann var að reyna að drepa Hýdruna. Í hvert skipti sem hann hjó eitt höfuð uxu tvö, nema þarna komu 5 maurar fyrir hvern sem ég drap. Ég sá að það væri best að fjarlægja matinn og bað SigrúnuTinnu að setja hann inn í skáp. Þegar hún var nýbyrjuð sagði hún, mamma, skápurinn er fullur af maurum. Jú, það var ansi hressilegt líf þarna í skápnum. Ok, þetta er eitthvað skrýtið, tökum matinn þá aftur út. Ég var alveg hætt að skilja hvaðan þeir komu allir þar til ég skoðaði rúsínupakkann sem var byrjaður að labba alveg sjálfur. 

Þá höfðum við keypt 8 litla pakka af rúsinum og sett upp á bekk. Ég henti þeim á gólfið og hersinginn hvarf inn í pakkann á núll einni. Ekki laust við að mér hafi orðið smá flökurt þegar ég hugsaði um rúsínupakkann sem ég sturtaði ofan í hafragrautinn minn um morguninn. Ég ákvað að fá fagfólk í málið og hringdi í móttökuna. Já, góðan daginn, við erum með smá mauravandamál, getið þið sent einhvern yfir til að kíkja á þetta. 

Hann kom loksins, mauravandamál er líklega ekki efst á listanum. Hann leit á aðstæður og sagði, „þetta er frekar mikið af maurum, ég held að það sé best að flytja ykkur í annað hús og eitra svo hérna“. Verslunarferðin breyttist því í flutningsdag. Við ákváðum að skilja allan matinn eftir, flytja í næsta hús og fara svo aftur í matvörubúðina og kaupa aftur inn. Í þetta skiptið þá settum við allan matinn inn í ísskáp. Við erum ekki fyrr komnar heim í nýja húsið en það er barið á dyrnar. Þá hafði gleymst að merkja í kerfinu að við værum komnar í annað hús og það voru komnir aðrir gestir í húsið. Það var snarlega leyst og við vorum áfram í húsinu.  Til að bæta okkur upp óþægindin þá fengum við að tékka okkur út seinna og frían hádegismat á síðasta deginum okkar. Málið er að það getur alltaf eitthvað óvænt komið upp á og reglan er nú yfirleitt þegar eitt byrjar að klikka þá kemur keðjuverkunin. Þau leystu þetta hins vegar svo hratt og vel að ég myndi ekki hika við að gista þarna aftur næst þegar ég fer til Orlando. 

Ég hringdi í kærastann um kvöldið og sagði honum frá mauramálinu. Honum fannst þetta nú ekki vera mikið mál. Ásdís mín, ertu ekki vön svona kvikindum eftir að þú bjóst í Honduras í heilt ár? Jú, það var hárrétt en alveg eins og þú getur vanist einhverju þá getur þú afvanist því á mun styttri tíma. Ég held að vandamálið hafi verið að ég vissi ekkert hvernig ég átti að tækla þessa maura lengur. Þegar ég lærði köfun í Utila í Honduras þá skokkuðu litlir sporðdrekar undan rúminu og ef svo mikið sem eitt sykurkorn var skilið eftir þá var maurabúið komið í veisluna. Uppáhaldið mitt var nú samt alltaf kakkalakkarnir sem spruttu út úr klósettrúllunum á nóttunni þegar þú kveiktir ljósið á baðinu eða þessir sem duttu úr eldhússkápunum á barnaheimilinu sem ég vann á í nokkra mánuði í Honduras. Sem sagt var öllu vön, bara ekki lengur í formi.

Þú getur ekki orðið Disney-prinsessa, þú ert ekki rétt á litinn

Alltaf þegar ég get þá tek ég Uber þegar ég ferðast erlendis. Ég sit fram í og kynnist bílstjóranum. Þetta er frábær leið til að fræðast um land og þjóð en ekki síður um upprunaland bílstjórans. Einn skemmtilegasti bílstjórinn að þessu sinni var hann Joel. Hann var upprunalega frá Filippseyjum en hafði búið í San Fransciso í 30 ár og börnin hans voru fædd og uppalinn í San Fransisco. Hann sagði mér að þegar dóttir hans var lítil fóru þau oft í Disneyland og alltaf hitti hún sömu prinsessurnar og beið lengi í röð eftir að hitta þær. Pabbi, þegar ég verð stór þá ætla ég að verða Disney-prinsessa. Hann sagði, elskan mín, sjáðu þær.  Þú getur aldrei orðið ein af þeim. Þú ert of dökk á hörund. Hún var hins vegar mjög einbeitt og á nokkrum árum komu alls konar Disney-prinsessur fram, Pokahontas, Mulan, Tiana, Moana svo dæmi séu tekin. Í heilt ár undirbjó hún sig undir að sækja um sem prinsessa. Hún sótti um og var samstundis boðið til Florida í áheyrnarprufur. Í dag leikur hún bæði Pokahontas og Moana og elskar hverja mínútu af starfinu sínu. Mér finnst þetta frábær saga.  Það skiptir nefninlega engu máli hvaða drauma þú átt. Það eina sem þarf að gera er að finna út úr því hvernig á að láta þá rætast og hlusta ekki á úrtölur annara. Hann sýndi mér mynd af dóttur sinni. Ef ég hefði ekki vitað betur þá hefði ég haldið að þetta væri fyrirmyndin að Pokahontas.

Disney er frábært Pokémon-veiðiland

Fyrri hluta seinni dagsins vorum við áfram í Magic Kingdom og svo ákváðum við að nota síðdegið í Epcot. Það er ansi skemmtilegur garður sérstaklega fyrir 10 ára stelpur þar sem Frozen er með sínar bækistöðvar. Við skelltum okkur fjórum sinnum í þá braut og höfðum mjög gaman af. Skemmtigarðar eru líka frábærir til að veiða Pokémona. Það eru Pokéstop út um allan garð og þegar beðið er í röð í allt að klukkutíma er tilvalið að eyða þeim tíma í að veiða Pokémona. Ég dett alltaf reglulega niður í Pokémon og þetta er í raun frábært fjölskyldusport, sameinar hreyfingu og samveru. Þegar þetta var nýtilkomið var ég einu sinni á gangi með strákana mína og mæti þar miðaldra manni. Hann hneykslaðist mikið á þessu rugli og sagði með þjósti: „Ég trúi því ekki að þið séuð að spila þetta rugl.“ Já, þú meinar, sagði ég, ég sé það núna. Það er náttúrulega algjör vitleysa að vera úti að ganga með þeim, ég ætti að senda þá heim í myrkvað herbergi að æfa sig í skotleikjum. Það er auðvitað miklu heilbrigðara. Við vorum kannski ekki alveg nógu heppnar með veður í Florida og þennan dag rigni eldi og brennisteini, það var eins og hellt væri úr fötu og við vorum holdvotar inn að skinni og í ofanálag voru þrumur og eldingar eins og enginn væri morgundagurinn. Við nutum þess því að kanna innisvæðin meira en útisvæðin þennan dag.

Loksins komist í búðir

Við ákváðum að breyta mánudeginum í verslunarferð fyrst að laugardagurinn fór í annað. Við byrjuðum auðvitað í ræktinni og fórum í smá sund. Þrátt fyrir miklar yfirlýsingar við sundþjálfarann minn þá synti ég ekki eitt skriðsundstak. Það var einfaldlega of margt fólk í lauginni, sorrý Siggi. Við tókum Uber í verslunarmiðstöðina. Þetta var verslunarferðin hennar Sigrúnar Tinnu. Ég sagði að við hefðum 500 dollara til að eyða og hún mætti ráða hvað yrði keypt. Við byrjuðum að skoða og ég spurði einnar spurningar. Hvenær muntu nota þetta?  Þetta varð mantran í verslunarferðinni. Þegar upp var staðið keyptum við saman fyrir tæplega 300 dollara þar sem við vorum meðvitaðar að kaupa ekki það sem yrði lítið notað. Mæli eindregið með þessari aðferð. Bæði tíma- og peningasparandi. 

Ég fer ekki í þessa vatnsrennibraut 

Fyrr frýs í helvíti en að ég renni mér niður vatnsrennibraut. Ég er of feit og mun pottþétt festast og svo fara þær allt of hratt og ég mun þeytast af. Þetta voru lygar sem ég sannfærði mig um og sagði börnunum mínum til að losna við suðið um að fara í vatnsrennibraut. Þessi ólógíski ótti við vatnsrennibrautir. Ég stressaðist upp bara við tilhugsunina að renna niður og var í alvörunni skíthrædd um að festast og drukkna. Ég fæ innilokunarkennd. Ég vil bara ekki fara. HÆTTIÐI AÐ SUÐA UM ÞETTA. ÉG VIL EKKI FARA. ÉG GET ÞAÐ EKKI. 

Þetta var gamla ég. Nýja ég, hún er búin að prófa vatnsrennibrautir, já sko sumar. Ég hef mjög gaman af opnum vatnsrennibrautum. Það hvarflar ekki að mér að fara í þessar lokuðu. Hvað ef ég festist, hvað ef ég drukkna?

Við skruppum í laugina á hótelinu og þarna var ekki bara ein heldur tvær fjandans vatnsrennibrautir.  „Mamma, viltu koma með mér?“ Já ekkert mál, fer í þessa bláu. „Næst, viltu fara í þessa grænu“. Nei, ég get það ekki. Ég fæ svo mikla innilokunarkennd. Hættu að biðja mig. Ég svaf á þessu. Hvað var ég að gera? Allt sem ég hef áorkað síðustu 2 ár, allir mínir sigrar. Ætlaði ég að láta eina græna vatnsrennibraut sigra mig? Nei, veistu það er ekki í boði. Næst þegar við fórum í laugina dró ég djúpt andann og fór niður grænu brautina. Það var rosalega gaman, þannig að ég endurtók leikinn nokkrum sinnum.

Ekki láta óttann stela frá þér upplifunum. Við lifum bara einu sinni.

 

View this post on Instagram

Það er svo auðvelt að líta vel út þegar þú færð aðstoð fagfólks. Í síðustu viku prófaði ég Keratin hársléttun @harnyjung og var mjög sátt við árangurinn. Var á leiðinni í stórafmæli og ákvað að panta mér förðun hjá Elínu Reynis @elinreynis Útkoman var frábær. En þetta tók marga klukkutíma. Það líta fáir svona út án þess að hafa fyrir því. Samt erum við oft að bera okkur saman við aðra á samfélagsmiðlum eða í tímaritum þar sem búið er að nota marga klukkutíma í að undirbúa, fagfólk tekur myndirnar og svo fer annar eins tími í að vinna myndirnar í myndvinnsluforritum. It‘s easy to look good when you get professional help. Last week I tried Keratin hair treatment for my hair, I loved it. I was going to a party later that night so I had a professional makeup. The results were amazing. But it took hours. Not many people look amazing without work. However we tend to compare ourselves with other people in Social Media or Magazines where they have been prepped for hours, photos shot by a professional and then hours spent in Photoshop to get the one perfect photo. @elinreynis @harnyjung #lookscanbedeceiving #makeup #havingfun

A post shared by Ásdís Ósk Valsdóttir (@asdisoskvals) on Nov 25, 2019 at 6:39am PST

 

mbl.is