Bókuðu á lúxushóteli sem reyndist martröð

Svona leit hótelið út á vefnum.
Svona leit hótelið út á vefnum. Ljósmynd/Cleopatra Luxury Resort Makadi Bay

Bresk fimm manna fjölskylda ætlaði að gera vel við sig nú í sumar og splæsti í lúxusferð til Egyptalands. Þegar fjölskyldan vaknaði við framkvæmdir á fyrsta degi var henni ljóst að paradísin var ekki eins og henni var lýst á netinu. 

Hjónin Linda og Paul Secular bókuðu tveggja vikna dvöl á hótelinu Cleopatra Luxury Resort Makadi Bay í Hurghada Egyptalandi. Með þeim í för voru 17 ára sonur þeirra, Mark, dóttir þeirra Amy og kærastinn hennar, Joe. Þau eyddu rúmlega 7 þúsund pundum í ferðina eða um 1,1 milljón íslenskra króna.

Þetta var hið raunverulega ástand á hótelinu.
Þetta var hið raunverulega ástand á hótelinu. Ljósmynd/Facebook

Fjölskyldan kom á hótelið að kvöldi til eftir langt ferðalag og fóru beint í háttinn. Morguninn eftir vöknuðu þau við framkvæmdir. Þeim var tjáð að framkvæmdirnar væru aðeins tímabundnar og myndi ljúka innan skamms.

Framkvæmdunum lauk þó ekki meðan á dvöl þeirra stóð og fjölskyldunni var brátt ljós að þær myndir sem þau hefðu séð á bókunarsíðunni væru ekki af raunverulegu ástandi hótelsins. 

Cleopatra Luxury Resort er gríðarlega stórt fimm stjörnu hótel og var þeim strax ljóst að þau hefðu getað fengið herbergi annars staðar á hótelinu. Þau hins vegar lentu í miðju framkvæmdasvæðinu. Þeim var boðið að færa sig, en þorðu ekki að gera það vegna sonarins Mark sem er einhverfur. 

Framkvæmdirnar stóðu yfir alla þá 14 daga sem fjölskyldan eyddi …
Framkvæmdirnar stóðu yfir alla þá 14 daga sem fjölskyldan eyddi þarna. Ljósmynd/Facebook

Stöðugur hávaðinn frá framkvæmdunum gerði það að verkum að Mark leið gríðarlega illa. Ekki bætti úr skák að á þeim tveimur vikum sem fjölskyldan eyddi þarna var teknó-ball haldið á ströndinni svo hávaðinn var óbærilegur. Hótelið hafði verið auglýst sem fjölskylduvænn staður. 

Hrakfarir fjölskyldunnar eru fleiri því að feðgarnir Paul og Mark fengu báðir í magann og voru rúmliggjandi í tvo sólarhringa. Þegar magapínan var afstaðin var bréf sett undir hurðina hjá fjölskyldunni sem tilkynnti þeim að um e. coli-smit væri að ræða og var gestunum ráðlagt frá því að borða ávexti og grænmeti á svæðinu. 

Svona bjóst fjölskyldan við að sundlaugin liti út.
Svona bjóst fjölskyldan við að sundlaugin liti út. Ljósmynd/Cleopatra Luxury Resort Makadi Bay
Þetta var hins vegar raunveruleikinn.
Þetta var hins vegar raunveruleikinn. Ljósmynd/Facebook

Fjölskyldan kvartaði og var boðið nudd í skaðabætur. Nuddið, sem átti að vera í boði hússins, var þó meðtalið á reikningi fjölskyldunnar eftir dvölina. Þau kvörtuðu yfir því og var boðið 400 pund í inneign eða 360 pund í reiðufé. 

Linda og Paul voru bæði bálreið yfir framkomu hótelsins og heita því að bóka aldrei frí hjá þeim aftur. „Það er kaldhæðnislegt, orðið lúxus er í nafni hótelsins, en það er enginn lúxus við þetta hótel,“ sagði Paul bálreiður í viðtali við The Sun.

Fjölskyldan hefur ekki enn fengið skaðabætur.
Fjölskyldan hefur ekki enn fengið skaðabætur. Ljósmynd/Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert