Mikael Torfason nýtur þess að búa í Vín

Mikael og kona hans, Elma Stefanía Ágústsdóttir leikkona, á sviðinu …
Mikael og kona hans, Elma Stefanía Ágústsdóttir leikkona, á sviðinu í Burgtheater skömmu fyrir sýningu. Elma er fastráðin leikkona við leikhúsið og þau eru því ekki væntanleg heim til Íslands á næstunni. Ljósmynd/Aðsend

„Þessi borg er náttúrulega algjör rjómaterta og íbúðirnar ótrúlega fallegar. Hér vakna ég fyrir allar aldir og það eru alla vega fjórir metrar í loftið fyrir ofan mig,“ segir rithöfundurinn Mikael Torfason sem búið hefur í Vínarborg síðan í sumar. Kona Mikaels, leikkonan Elma Stefanía Ágústsdóttir, er fastráðin við Burg-leikhúsið en Mikael segist fyrst og fremst vera heimavinnandi húsfaðir í Vín. Á meðan dæturnar eru í skóla og leikskóla situr hann við skriftir.

Aðspurður hvað hann sé að skrifa í Vín segist hann þessa stundina aðallega vera með hugann við tvö leikrit sem hann sé að skrifa með félaga sínum, Þorleifi Erni Arnarssyni. „Hið fyrra fer í æfingar hér í Burg-leikhúsinu í Vín í lok febrúar. Hitt fer í æfingar vor og verður svo frumsýnt í september.“ 

Mikael og dóttirin Ída fyrir framan Kunsthistorisches Museum sem er …
Mikael og dóttirin Ída fyrir framan Kunsthistorisches Museum sem er uppáhaldssafn Mikaels í Vín. Mikael verður þar með einþáttung í mars. Ljósmynd/Aðsend

Borgarbúar brjálaðir í menningu og listir

Mikael var að senda frá sér bókina „Bréf til mömmu“ en er strax farinn að huga að næstu bók. „En ég vil ekki fara nánar út í efni næstu bókar. Er að safna köflum í hana og skrifa niður hugmyndir. Þetta er svona það sem maður kallar „work in progress“. Ég hef samt áhyggjur af því að leikhúsið sé sífellt háværara í mínu lífi og það er líka með ólíkindum spennandi að skrifa leikrit,“ segir Mikael sem skaust nýlega frá Vín til Íslands til þess að fagna útkomu nýjustu bókar sinnar. Annars fylgist hann með íslenska jólabókaflóðinu úr fjarska. „Þetta er voða erfið orka að vera allt í einu settur í það hlutverk að vera ógurlegur sölumaður. Af því að þetta er svona vertíð. En ég er líka í jólabókaflóðinu hér, þannig séð, og er að kynna bækurnar mínar hér úti. Er með upplestur 12. desember á Ruth’s Little Gallery.“

Mikael segist njóta þess að búa í Vín og segist strax hafa fallið fyrir borginni „Þessi borg er þannig að það er ekki hægt annað en að falla fyrir henni. Þetta er svo falleg borg og fólkið vinalegt og ekki skemmir fyrir að borgarbúar eru brjálaðir í menningu og listir. Hér gengur allt út á leikhús, óperu, myndlist og bókmenntir.“

Bréf til mömmu er nýjasta bók Mikaels. Hann er byrjaður …
Bréf til mömmu er nýjasta bók Mikaels. Hann er byrjaður að huga að næstu bók en þessa dagana er hann upptekinn við leikritun á verkum sem setja á upp í Vín og Berlín.

- Hvað hefur komið mest á óvart við borgina?

„Fegurðin er auðvitað yfirþyrmandi og hér er mikil velmegun. Fólki líður vel í þessari borg og maður finnur fyrir öryggi. Eitthvað um 32% af öllu íbúðarhúsnæði er í eigu ríkis og bæjar og önnur 26% í eigu félagasamtaka ýmiss konar þannig að ég held að alþýða fólks búi við ákveðið öryggi hérna. Þetta gerir það að verkum að mér finnst maður mæta svo góðu viðmóti alls staðar. Vínarbúar eru líka afslappaðir og það er bæði yfir öllu ákveðinn suðrænn blær og austurevrópskur. Það kom alveg á óvart. “

Í Austurríki eru mörg góð skíðasvæði sem kemur sér vel …
Í Austurríki eru mörg góð skíðasvæði sem kemur sér vel því fjölskyldan er mikið fyrir skíði. Hér eru þau Ísold, 10 ára, og Jóel,13 ára, á skíðum í Lungau í febrúar. Ljósmynd/Aðsend

Hleypur við Dóná og lærir þýsku

Fjölskyldan í Vín telur dags daglega fimm; Mikael, Elmu, Ísold 10 ára, Ídu 2 ára og hundinn Sesar.  Á Íslandi býr svo Jóel Torfi, sem er 13 ára en hann kemur mjög oft út, Gabríel 24 ára og Kristín 22 ára. Venjulegur dagur hjá Mikael í Vín byrjar upp úr klukkan sex. Þá vill Ída fara á fætur. „Hún er ástæðan fyrir því að ég vakna alltaf upp úr sex því henni liggur svo á að stækka og takast á við lífið. Við Sesar tökum sporvagn á leikskólann hennar Ídu og skiljum hana þar eftir og svo löbbum við heim. Þá eyði ég deginum í skriftir en fæ tilbreytingu um miðjan dag þegar við Sesar hlaupum okkar hring við Dóná.“

Tvisvar í viku fer Mikael svo á þýskunámskeið. Hann segist vera farinn að skilja flest en á enn erfitt með að halda uppi flóknum samræðum. „En þetta smákemur allt saman og ég held áfram að læra. Ég var að kaupa mér áskrift að mínu fyrsta blaði, sem er vikublaðið Falter og ætli það sé ekki svona Stundin/Helgarpósturinn. Ég kunni því miður enga þýsku þegar ég flutti til Berlínar og þurfti því að læra tungumálið algerlega frá grunni. Það hefur tekið miklu lengri tíma en ég hafði ætlað mér. Hélt þetta yrði auðveldara því ég tala mjög góða dönsku og bjarga mér vel á norsku og skil sænsku til dæmis. En þetta er allt að koma og hefur gert mér gott. Það eru forréttindi að fá að setja sig í spor útlendingsins og mállausa pabbans og þurfa að læra allt frá grunni. Núna er ég svo farinn að sjá að þýskan er æðislegt tungumál og fallegt en ég skrifa reyndar leikritin með Þorleifi á ensku og við erum með frábæran þýðanda sem þýðir allt jafnóðum á þetta fallega leikhúsmál sem þýskan er.“

Mikael segist finna talsverðan mun á Þjóðverjum og Austurríkismönnum, en fjölskyldan bjó í Berlín áður en þau fluttu til Vínar. Hann segir að það sé mikill munur á tungumálinu. „Það er til dæmis allt annað að hlusta á Falco eða Fettes Brot. Svo er það Vínarmállýskan sem er helvíti erfið. Ég á mjög langt í land með að ná henni en þá er tómatur ekki Tomate heldur Paradeiser. Ímyndaðu þér fegurðina. Auðvitað á tómatur ekki að heita tómatur heldur Paradeiser. Miklu fallegra. Og þannig er Vín. Velur alltaf það sem er fegurra.“

Forseti Íslands mætti á frumsýningu Die Edda eftir þá Mikael …
Forseti Íslands mætti á frumsýningu Die Edda eftir þá Mikael Torfason og Þorleif Örn Arnarsson í Burg-leikhúsinu í Vín. Þessi mynd var tekin strax eftir sýningu og Elma rétt nýstigin af sviðinu. Ljósmynd/Aðsend

Söfn, hallir og grafreitur

Þegar Mikael er spurður um sína uppáhaldsstaði í Vín á hann erfitt með að velja en byrjar á því að telja upp nokkur söfn. „Kunsthistorisches Museum er uppáhaldssafnið mitt. Ég skrifaði einmitt einþáttung eða svokallaðan mónólóg fyrir safnið sem leikinn verður í mars í sýningu sem kallast Ganymed og er á hverju ári í þessu risastóra safni. Þetta er undurfagurt safn og kaffihúsið á annarri hæð eitt fallegasta kaffihús Vínar. Það er í dýrari kantinum en ég mæli með því að fólk fái sér alla vega kaffi og njóti fegurðarinnar. Þetta byggði alþýðan við kröpp kjör fyrir Franz keisara en hann er löngu dauður og nú á alþýðan allar hans hallir. Ég mæli með sumum af þeim höllum. Það er mjög gaman að fara í Belvedere-höllina og skoða Klimt, Schiele, Funke, Monet og van Gogh. Þetta er gömul höll auðvitað sem búið er að breyta í listasafn. Fallegur garður og nokkur verk þarna sem gera ferð til Vínar vel þess virði. Ég gæti mælt endalaust með söfnum í Vín. Albertina er fínt safn og rétt hjá fiðrildahúsinu sem ég er mjög hrifinn af. Leopold Museum er líka skemmtilegt sem og náttúrugripasafnið og Mumok. Þá finnst mér voða gaman að fara og skoða Kapuzinergruft en það er grafreitur Habsburg-fjölskyldunnar sem er staðsettur í kjallara kirkju í miðbænum. Þetta er menning sem er okkur framandi og mér þykir hún áhugverð. Þarna er hún Sisi jörðuð en fólk hrífst mjög af hennar sögu.“

Elma og Mikael á skíðum í austurrísku Ölpunum. Þau hafa …
Elma og Mikael á skíðum í austurrísku Ölpunum. Þau hafa er úr nægum skíðasvæðum að velja í grennd við Vín. Ljósmynd/Aðsend

Frábær kaffihús og vínarsnitsel

Talið berst að kaffihúsum borgarinnar og matnum. „Besta snitselið er á Restaurant Roth á Hotel Regina. Hótelið var síðasta heimili bæði Freud og Stefan Zweig áður en þeir flúðu nasistana. Ég fór með Jóni Óskari og Huldu Hákonar þangað að borða þegar þau komu á dögunum. Þau geta vitnað um að þarna fæst frábært snitsel og ég mæli eindregið með staðnum. Þá er ég líka hrifinn af vínarsnitselinu á Zum Schwarzen Kameel. Andrúmsloftið á staðnum er líka alveg frábært. Kaffihúsin í Vín eru stundum sögð framhald af stofum borgarbúa. Sem er rétt og öll kaffihúsin hérna eru frábær. Ég er hrifnastur af Café Eiles. Það er mjög klassískt Vínarkaffihús, bæði hvað arkitektúr og matseðil varða,  nema að þar vinnur óvenjuhátt hlutfall flóttafólks. Sem gerir það að verkum að þarna mætast tveir menningarheimar og andrúmsloftið verður virkilega gott. Annars er hægt að bóka að í Vín færðu alls staðar gott kaffi og fína súkkulaðiköku sem þeir kalla Sachertorte og eru mjög stoltir af. Ég mæli með henni og auðvitað Apfelstrudel með heitri vanillusósu.“ 

Ódýrt flug til Vínar með Wizz

Þegar Mikael er spurður um ráð fyrir ferðamenn sem vilja heimsækja Vín segir hann að eitt best geymda leyndarmál borgarinnar, hvað Ísland varðar, er að það sé oft hægt að fá beint flug til borgarinnar með flugfélaginu Wizz á allt niður í 15 þúsund krónur fram og til baka. „Þannig að bestu ráðin sem ég get gefið er að bóka í tæka tíð og drífa sig. Hér er fullt af fínum hótelum en auðvitað skemmtilegast að vera sem næst miðbænum. Kannski ekki alveg ofan í honum því hverfin í kringum miðbæinn eru öll mjög fín. Fyrst þegar ég kom hingað vorum við í Museums Quartier sem var æðislegt. Við eyddum deginum í að labba á milli safna. Svo er virkilega gaman að skjótast hingað í kringum jól því Vínarbúar eru jólaóðir og kunna að gera fallega jólamarkaði. Það er alveg orðið sérstakt áhugamál fjölskyldunnar að heimsækja markaðina. Svo er ekkert vit í öðru en að kaupa bæði miða í leikhús og óperuna þegar farið er til Vínar. Burgtheater er ein fallegasta bygging sem ég hef komið inn í og það skiptir engu hvort þú skiljir þýsku eða ekki. Leikhús er þannig að það er eiginlega alltaf sjónarspil og gaman að sjá góða list hvort sem maður skilur tungumálið eða ekki. Þá er óperuhúsið í Vín ekki síðra og mikil upplifun að koma þangað. “

Hvað með skíðin, hafið þið eitthvað kynnt ykkur austurrísk skíðasvæði?

„Já, við erum mikið skíðafólk og vorum hjá henni Þuríði Þórðardóttur í Lungau í Ölpunum síðasta vetur. Hún er náttúrulega einn besti gestgjafi sem hugsast getur. Ég get ekki beðið eftir að komast aftur til hennar. Reyndar er það þannig að Elma er svo upptekin í leikhúsinu í vetur að ég veit ekki hvort hún hafi nokkurn tíma fyrir skíðin en við krakkarnir bíðum eftir að komast upp í fjöll. Við eigum eftir að prófa ýmsa staði hér nærri Vín en ef fólk er að hugsa um að fara á skíði í Austurríki þá mæli ég með því að hafa samband við Þuríði á Skihotel Speiereck í St. Michael-bænum. Hún Þuríður er ótrúlegur gestgjafi og það minnir mig á það að ég þarf eiginlega að senda henni bók!“

Mikael segir að allir sem heimsæki Vín verði að fara …
Mikael segir að allir sem heimsæki Vín verði að fara í leikhús, þótt þeir kunni ekki þýsku. Hér eru þau Elma að fara að sjá óperu í Vín ásamt Tyrfingi Tyrfingssyni og Fernando da Cunha. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert