Farið að kólna hjá Önnu Kristjáns á Tenerife

Anna Kristjánsdóttir segir farið að kólna á Tenerife.
Anna Kristjánsdóttir segir farið að kólna á Tenerife. mbl.is/hag / Haraldur Guðjónsson

Anna Kristjánsdóttir vélstjóri flutti til Tenerife í haust. Hún segir í nýjum pistli á Facebook að hún finni fyrir að það sé farið að kólna á Tenerife en eyjuna kallar hún Paradís. Minnir hún einnig Íslendinga á að nú sé svartasta skammdegið á Tenerife, ekki nema 11 tímar af dagsbirtu.

Þrátt fyrir peysuveðrið á morgnana hjá Önnu á Tenerife væru líklega flestir heima á fróni til í að fá nokkrar gráður frá Tenerife sem og nokkrar dagsbirtustundir. 

„Það er farið að kólna í Paradís. Hitinn rétt nær 25 gráðum yfir hádaginn og ískuldinn skellur á okkur um leið og sólin sest eftir klukkan 18 á kvöldin og fer jafnvel niður í 17°C á nóttunni. Það ber að hafa í huga að nú er svartasta skammdegið og dagsbirtu nýtur ekki nema í ellefu tíma á dag

Á morgnana þarf mikil hörkutól til að drekka morgunkaffið á svölunum án þess að vera í flíspeysunni góðu sem illu heilli er einhvers staðar ofan í kassa í fjarlægu landi, en ég læt mig samt hafa það að fara út á stuttpilsinu og hlýrabolnum frekar en að bíða til klukkan níu eftir að sólin veiti sæmilegum yl inn á svalirnar. Einhver þarf víst að fylgjast með hvort Akraborgin fari út á réttum tíma og ekki ratar hún sjálf út.

Í gær sátum við sambýlingarnir á Barnum og skulfum úr kulda þegar vertinn rétti okkur teppi til að ylja okkur við. Einhverjir íslenskir túristar á sandölum og ermalausum bol áttu leið þarna um og sáu til okkar skjálfandi úr kulda og kölluðu okkur kuldaskræfur. Þvílík móðgun! 😜

Hafa þessir túristar aldrei heyrt talað um skammdegi í Paradís?“ Skrifar Anna á Facebook. 

mbl.is