Hótaði að vísa móður frá borði

Atvikið átti sér stað um borð í flugvél Southwest.
Atvikið átti sér stað um borð í flugvél Southwest. AFP

Flugþjónn hjá bandaríska flugfélaginu Southwest Air hótaði að vísa móður frá borði fyrir að óska eftir því að fá að sitja hjá fjölskyldunni sinni.

Eiginmaður konunnar, breski blaðamaðurinn Mehdi Hasan sem, greindi frá atvikinu á Twitter, sagði framkomu flugþjónsins ekki boðlega. Eiginkona hans hafði beðið annan farþega í vélinni fyrir flugtak að skipta við sig um sæti. Konan hafði ekki fengið sæti við hlið barna sinna og eiginmanns. 

Maðurinn sem fékk sæti við hlið fjölskyldunnar sagði það vera lítið mál en þá skarst einn flugþjónanna í leikinn og sagðist ætla að vísa konunni frá borði fyrir að láta fólki líða illa um borð. Auk þess kallaði hann á öryggisgæslu af flugvellinum.

Samstarfsfólk flugþjónsins var hissa á viðbrögðum hans og skildi ekki af hverju hann gerði þessar ráðstafanir. Að lokum fékk fjölskyldan að sitja öll saman og konunni var ekki vísað frá borði.

Hasan segir Southwest hafa eyðilagt endinn á annars frábæru þakkargjörðarfríi fjölskyldunnar með því að niðurlægja eiginkonu hans fyrir framan fjölda flugfarþega. 

Samkvæmt talsmanni flugfélagsins er enn verið að skoða mál fjölskyldunnar, en Hasan sendi ekki inn formlega kvörtun fyrir Southwest heldur var félaginu bent á færsluna á Twitter.

mbl.is