Skíðafrí fyrir þá sem ekki skíða

Ertu ekki skíðatýpan? Skíðafrí getur samt sem áður verið skemmtilegur …
Ertu ekki skíðatýpan? Skíðafrí getur samt sem áður verið skemmtilegur kostur þó ekki sé farið á skíði í ferðinni. Ljósmynd/Dreamstime.com

Það er engin ástæða til þess að neita sér um skíðafrí þótt maður skíði ekki. Yfirleitt er hægt að drepa tímann með ýmsu öðru á skíðastöðum erlendis en að bruna niður brekkurnar.  

Dæmi um skíðaferðir á vegum íslensku ferðaskrifstofanna í vetur er skíðaferð til Andorra á vegum Tripical með Dadda Disco í fararbroddi. GB ferðir ætla til Andermatt og Englelberg í Sviss og Úrval-Útsýn býður upp á skíðaferðir bæði til Ítalíu og Austurríkis.

Þótt þú skíðir ekki en vinahópurinn eða makinn vill fara í skíðaferð því ekki að skella sér með? Þér þarf ekki að leiðast þótt þú farir ekki með í brekkurnar, því yfirleitt er margt annað spennandi í boði á skíðastöðum erlendis.

Hér fyrir neðan er hugmyndalisti fyrir þá sem vilja ekki binda á sig skíðin í skíðafríinu. 

Dekraðu við þig í heilsulindinni 

Yfirleitt eru góðar heilsulindir á skíðahótelum með alls konar snyrtimeðferðum og nuddi. Stundum er líka jóga í boði eða önnur leikfimi. 

Þrammað á snjóþrúgum

Þó þú viljir ekki bruna niður brekkurnar þá viltu kannski skoða umhverfið og þá eru snjóþrúgur kjörnar til þess að komast um í snjónum. 

Kakódrykkja og „after ski“

Heitt kakó með eða án einhvers sterkara út í er ómissandi í öllum skíðaferðum. Það er notalegt að sitja úti á verönd vel klædd/ur með heitan drykk í hendi og njóta vetrarsólarinnar. Úr kakódrykkjunni má svo fara beint í „after ski“-partí sem oft eru hinar líflegustu samkomur.

Heimsæktu næsta þorp

Skíðasvæði eru yfirleitt aldrei langt frá þéttbýlisstöðum. Það er því tilvalið að kíkja í næsta bæ eða þorp  á meðan félagarnir skíða og skoða menninguna. 

Njóttu arineldsins

Leggstu fyrir framan arineldinn og kláraðu bókina sem þú ætlaðir þér alltaf að lesa. Á meðan allir eru úti að skíða er ekki ólíklegt að þú hafir setustofu skíðahótelsins alveg út af fyrir þig. 

Taktu myndir

Það er gaman að taka myndir þegar landið er klætt í vetrarbúning.  Vinir þínir munu líka pottþétt vera ánægðir með þig ef þú bíður í brekkunni eftir rétta augnablikinu til að mynda þá  þar sem þeir bruna þokkafullir fram hjá, þó vissulega sé líka gaman að ná augnablikunum þegar dottið er á hausinn.  

Skráðu þig í skíðaskólann

Svo má auðvitað alltaf skrá sig í skíðaskólann og læra íþróttina bara almennilega. Mæta síðan full/ur sjálfstraust í brekkurnar á næsta ári.

Í fjallakofum skíðasvæða er notalegt að setjast fyrir framan arineldinn …
Í fjallakofum skíðasvæða er notalegt að setjast fyrir framan arineldinn í setustofunni. Á meðan allir hinir eru að skíða er tilvalið að hreiðra um sig fyrir framan arininn í frið og ró með góða bók. Ljósmynd/dreamstime.commbl.is