Borgir sem valda vonbrigðum

Margir Íslendingar hafa margoft heimsótt Kaupmannahöfn en aldrei kíkt á …
Margir Íslendingar hafa margoft heimsótt Kaupmannahöfn en aldrei kíkt á Stokkhólm. Skemmtigarðurinn Gröna Lund er mun fremri Tívolí. Ljósmynd / Flickr – Chas B (CC)

Því er ekki hægt að neita að sumir áfangastaðir standa ekki undir væntingum þegar þangað er komið. Fallegar myndir í bæklingum, heimsfræg kennileiti og jafnvel æsispennandi atriði úr kvikmyndum hafa skapað tilhlökkun og drauma sem stangast síðan harkalega á við veruleikann. Það sem meira er: oft er hægt að finna miklu skemmtilegri staði til að heimsækja aðeins steinsnar frá. Hér að neðan má finna nokkur góð dæmi:

Vonbrigði: Kuala Lumpur

Maður skyldi halda að höfuðborg Malasíu væri spennandi staður. Hvert mannsbarn þekkir helsta kennileiti borgarinnar – Petronas-turnana – sem gnæfa yfir landslagið og voru um langt skeið hæstu turnar í heimi. Er heldur ekki eins og skorti fólk í borginni, en á stór-Kuala Lumpur svæðinu búa hvorki meira né minna en 7,2 milljónir manna, svo það ætti að vera nóg um að vera.

En þegar að er gáð er ofboðslega fátt að sjá og gera í borginni. Musterin og söfnin eru óspennandi, verslanir og markaðir ekki ferðarinnar virði, og lítið í gangi. Þá er borgin mishæðótt svo það er ekki einu sinni hægt að njóta þess að rölta þar um og villast. Til að gera illt verra er óþarflega flókið að heimsækja Petronas-turnana, og þarf helst að panta miða með fyrirvara.

Allir þekkja Petronas-turnana í Kuala Lumpur. Lítið er um að …
Allir þekkja Petronas-turnana í Kuala Lumpur. Lítið er um að vera í borginni og miklu skemmtilegra að heimsækja Bangkok. Ljósmynd / Pexels – Zukiman Mohamad (CC)

Betri kostur: Bangkok

Bangkok er alls ekki fyrir alla, en þar er þó hægt að lenda í einhverjum ævintýrum. Musteri borgarinnar eru forn og merkileg og mikill metnaður lagður í verslunarmiðstöðvarnar. Næturlífið er jafn kryddað og ómótstæðilegt og taílenski maturinn. Ólíkt Kuala Lumpur eru líka nuddstofur á hverju strái og hægt að leyfa sæluhormónunum að flæða um líkamann í notalegu fóta- eða herðanuddi sem kostar sáralítinn pening. Ekki gleyma að renna við hjá klæðskera og fá nokkrar spariskyrtur saumaðar eftir máli.

Vonbrigði: Beirút

París Mið-Austurlanda er hún kölluð, og enn þann dag í dag fer það orðspor af höfuðborg Líbanons að vera heillandi staður þar sem býr siðfágað fólk sem er töluvert nútímalegra í fasi en nágrannar þeirra í þessum heimshluta.

En í reynd er Beirút afskaplega lítið spennandi borg, og lýsandi að í niðurstöðum Google yfir áhugaverðustu staðina þar til að skoða megi finna drepleiðinlegt steinasafn í 9. sæti. Fornminjasafnið er furðu dauflegt, miðað við alla þá merkilegu sögu sem Líbanon státar af, og vistlegasti staðurinn í bænum er í kringum Nijmeh-torgið, sem virkar gervilegt og tómlegt eftir að hafa farið í gegnum umfangsmiklar endurbætur. Þá eru leigubílstjórarnir með endemum erfiðir við að etja, og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hafa fé af ferðamönnum.

Beirút, Perla Mið-Austurlanda, stendur ekki undir væntingum. Þar er fátt …
Beirút, Perla Mið-Austurlanda, stendur ekki undir væntingum. Þar er fátt að sjá og gera. Ljósmynd / Wikipedia – Wusel007 (CC)

Betri kostur: Istanbúl

Ekki svo langt til norðurs er sjálf höfuðborg Austurrómverska keisaradæmisins. Að bera Beirút saman við Istanbúl er eins og að bera Grindavík saman við Reykjavík. Ægisif ein og sér réttlætir ferð til þessarar fjölmennu og fallegu borgar, en þar er líka að finna blómlegt mannlíf og framúrskarandi veitingastaði. Íbúar Istanbúl eru upp til hópa yndislegt og gestrisið fólk, og menningarlíf borgarinnar blómstrar árið um kring.

Istanbúl er mergjuð borg og iðar af lífi árið um …
Istanbúl er mergjuð borg og iðar af lífi árið um kring. Heimamenn eru upp til hópa yndislegt fólk. AFP

Vonbrigði: Kaupmannahöfn

Hvað er það sem veldur að Íslendingar halda svona upp á Kaupmannahöfn? Kannski er það bara af gömlum vana, eða af því að við höfum verið alin upp við að þykja danska höfuðborgin merkileg – og svo eigum við flest að kunna að panta bjórglas og smurbrauð á máli heimamanna. Kaupmannahöfn er alls ekki hræðileg, en hún er heldur engin perla sem ber höfuð og herðar yfir aðrar borgir á þessum slóðum: Strikið er orðið afskaplega sjúskað, Kristjanía orðin hroðalegt bæli, og Tívólí er meira fyrir augað en adrenalínið.

Betri kostur: Stokkhólmur

Af hverju ekki að fara frekar til Stokkhólms. Samanburðurinn er sláandi, og ætti ekki að dyljast neinum að sænska höfuðborgin er fallegri og snyrtilegri en sú danska. Gamla Stan hefur yfir sér miklu meiri sjarma en Nyhavn, og Gröna Lund er langtum betri skemmtigarður en Tívolí. Svo er hreinlega eins og einhver allt annar blær sé yfir mannlífinu – einhvers konar sænsk siðfágun sem erfitt er að lýsa með orðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »