Seldu allt og búa í Airbnb-íbúðum

Debbie og Michael hættu að halda heimili fyrir sex árum …
Debbie og Michael hættu að halda heimili fyrir sex árum og búa nú eingöngu í Airbnb-íbúðum. Ljósmynd/seniornomads

Hvort með sína ferðatöskuna hafa Campell-hjónin verið á stanslausu ferðalagi í sex ár enda eiga þau ekkert heimili lengur, nema þá kannski heima hjá þér? Ellilífeyrisplan þeirra er nokkuð óvenjulegt en þau þakka Airbnb fyrir sitt ævintýraríka líferni. 

Hjónin, Debbie og Michael Campell, ganga undir nafninu „senior nomads“ en þau halda úti bloggsíðu og Instagram-reikningi með sama nafni þar sem þau segja frá ævintýrum sínum.  Þau eru frá Seattle í Washington og árið 2013 seldu þau ýmsa lausamuni, settu heimili sitt í langtímaleigu og héldu af stað út í heim hvort með sína ferðatöskuna. Þá var Michael kominn á ellilífeyri en Debbie hætti að vinna og saman hófu þau ferðalag sem varað hefur í sex ár.  Lífsstíllinn átti svo vel við þau að nú eru þau búin að selja húsnæðið sitt sem þau settu upphaflega í útleigu og búa eingöngu í Airbnb-íbúðum. Á þessum sex árum hafa þau heimsótt 85 lönd, 285 borgir og dvalið í rúmlega 220 Airbnb-íbúðum. 

Hjónin deila reynslu sinni af ellilífeyrisplani sínu á heimasíðunni seniornomads.com.
Hjónin deila reynslu sinni af ellilífeyrisplani sínu á heimasíðunni seniornomads.com. Ljósmynd/seniornomads

Airbnb-íbúðir heimili þeirra

Þau segjast ekki vera í fríi heldur „búa“ þau þar sem þau eru hverju sinni. Með því að gista alltaf í Airbnb-íbúðum fá þau þá tilfinningu að þau séu heima hjá sér þótt þau séu í raun að umgangast dót annarra. Þau segja það frelsandi að þurfa ekki að eiga sitt eigið og velja dvalarstaði sína af kostgæfni. Þau vilja til dæmis eingöngu dvelja í stórborgum, í íbúðum með góðu eldhúsi, netsambandi og góðum aðgangi að almenningssamgöngum. Og hvernig fara þau að þessu? Jú, þau og ákváðu að nýta sömu upphæð og það myndi kosta þau að reka heimili sitt í Seattle til ferðalaga. Ellilífeyririnn hefur dugað ásamt þeirri upphæð sem þau fengu með því að selja eignir sínar. Þau segjast ekki sakna neins úr fyrra lífi og eins og er sjá þau ekkert því til fyrirstöðu að þau haldi uppteknum hætti.

Af hverju að halda heimili þegar það er hægt að …
Af hverju að halda heimili þegar það er hægt að búa í svo mörgum þægilegum íbúðum úti um allan heim? Í upphafi ferðalagsins ákváðu Campell-hjónin að nota sömu upphæð í leigu á íbúðum og það kostaði þau að reka heimili í Seattle. AFP
mbl.is