Fjölskylda missti af flugi - biðu í rangri röð

Fjölskyldan kennir easyJet um að þau hafi misst af fluginu.
Fjölskyldan kennir easyJet um að þau hafi misst af fluginu. AFP

Fjölskylda nokkur í Bretlandi kennir nú flugfélaginu EasyJet um að þau hafi misst af flugi sínu. Þau segja að merkingar á flugvellinum hafi verið ófullnægjandi sem gerði það að verkum að fjölskyldan beið í rangri röð eftir fluginu sínu. 

Fjölskyldan missti í kjölfar af fluginu sínu frá Bristol í Bretlandi til Parísar í Frakklandi. Gray-fjölskyldan var á leið í óvænta afmælisferð til Parísar til að fara í Disneyland með 5 ára gamlan soninn. 

Gray sagði í viðtali við Bristol Live að þau hefðu verið komin á flugvöllinn klukkan 4.30 um morguninn til að ná fluginu klukkan 7.30. Þau innrituðu sig og fóru í röð við hliðið að vélinni. Þau sáu röð fyrir þá sem fá flýtimeðferð, en þar sem þau voru með venjulegan miða fóru þau í hina röðina. 

Klára átti að fylla vélina klukkan 07.05 og þegar klukkan var orðin sex mínútur yfir og fjölskyldan ekki komin um borð fór Gray á stúfana. Þegar þau komu svo að réttu hliði var þeim tilkynnt að þau hefðu misst af fluginu. 

Gray segist hafa reynt að malda í móinn og starfsmaður á flugvellinum reyndi að koma þeim um borð. Það gekk hinsvegar ekki og var þeim boðið að kaupa miða í vélina sem fór kl. 18.30 sama dag. Gray fann ódýrari miða á netinu og því komst fjölskyldan á endanum til Disneylands. 

Gray er síður en svo ánægður með flugfélagið og kennir nú EasyJet um að þau hafi misst af fluginu. Hann segir merkingar um raðir og annað slíkt hafi verið algjörlega ófullnægjandi og það sé EasyJet að kenna að þau hafi misst af heilum degi í Disneylandi.

Talsmaður frá EasyJet sagði í viðtali við The Independent að þau hörmuðu að fjölskyldan hefði misst af fluginu sínu. Þau hefðu hreinlega komið of seint að hliðinu eftir að allir aðrir farþegar höfðu farið um borð. 

„Við héldum hliðinu opnu lengur en vanalega til að gefa öllum farþegum sem ekki voru enn komnir tækifæri á að komast um borð. Fjölskyldan var hinsvegar ekki komin á þessum aukatíma,“ sagði talsmaðurinn. 

Þegar fjölskyldan á endanum kom að hliðinu segir talsmaðurinn að þau hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til að koma þeim um borð en að það hafi því miður verið of seint í rassinn gripið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert