Hvernig færðu lengra visa á Balí?

Marga langar til að dvelja lengur en 30 daga á …
Marga langar til að dvelja lengur en 30 daga á Balí. Svona ferðu að því. Ljósmynd/Pexels

Balí er vinsæll staður ferðamanna hvaðanæva að úr heiminum. Þegar komið er til eyjarinnar fögru þarf að sækja um vegabréfsáritun til þess að fá að vera í landinu. Sú áritun gildir í 30 daga frá komu og kallast „Visa on arrival“. Það eru þó margir sem vilja dvelja lengur á Balí og þá þarf að sækja um áritun sem gildir lengur.  

Hægt er að fara nokkrar leiðir til þess að fá lengri en 30 daga vegabréfsáritun á Balí. Áður en 30 dagarnir eru liðnir er hægt að sækja um framlengingu gegn gjaldi hjá þar til gerðri þjónustu. Þá þarf samt að passa í upphafi að hafa sótt um framlengjanlegt (e. extendable) „Visa on arrival“.

Allar vegabréfsáritanirnar eru afgreiddar á flugvellinum, áður en komið er að vegabréfaeftirlitinu. 30 daga áritunin sem er ekki hægt að framlengja fæst án endurgjalds en sú sem er hægt að framlengja kostar 35 bandaríkjadali. Mælt er með því að fólk taki reiðufé með sér til þess að geta greitt þetta gjald.

Sé framlengda áritunin ekki keypt er hægt að fara í stutta ferð til nágrannalandsins Singapúr, og koma aftur til baka og endurnýja áritunina. Það er hentugast fyrir þá sem ætla aðeins að vera í stuttan tíma fram yfir 30 dagana. 

Þá er einnig hægt að sækja um vegabréfsáritun áður en haldið er út í sendiráði Indónesíu. Sú áritun gildir í 60 daga. Það er gott að gera það með nokkrum fyrirvara því sendiráðið þarf að hafa vegabréfið í nokkra daga á meðan áritunin er afgreidd. Sendiráð Indónesíu er í Noregi og annast utanríkisráðuneytið störf þeirra hér heima.

Fyrir þá sem hyggjast dvelja á Balí lengur en 60 daga og nenna ekki að fljúga til nágrannalanda á meðan dvölinni stendur er hægt að sækja um „social-budaya visa“. Það krefst þess að þú sækir um það í indónesíska sendiráðinu áður en haldið er af stað.

Social-budaya visa gerir þér kleift að dvelja á Balí í allt að 150 daga í senn. Áður en fyrstu 60 dagarnir eru liðnir þarf að fara á útlendingastofnunina þar í landi og framlengja. Síðan er hægt að endurnýja það visa þrisvar sinnum í viðbót.

Þá er gott að vera kunnugur staðháttum þegar sótt er um þetta því langtíma áritunina færðu ekki nema indónesískur ríkisborgari undirriti bréf þess efnis. Þetta social-budaya visa er áritunin sem meðal annars skiptinemar fá þegar þeir fara í skiptinám til landsins. 

Þessi áritun veitir þér þó ekki atvinnuleyfi. Farir þú úr landinu á meðan áritunin er í gildi fellur hún úr gildi  og þá þarftu að sækja um nýja áritun. 

Hrísgrjónaakrar á Balí.
Hrísgrjónaakrar á Balí. Ljósmynd/Pexels
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert