Hræðilegt að koma heim eftir frí

Það er gaman að ferðast. Að koma heim eftir gott …
Það er gaman að ferðast. Að koma heim eftir gott frí er hinsvegar algjör martröð í hugum margra.

Mörgum finnst það allra hræðilegasta við ferðalög að koma heim aftur á meðan aðrir taka hversdagsrútínunni fagnandi.  Ef þú tilheyrir fyrri hópnum er hægt að gera ýmislegt til þess að mýkja lendinguna heima. 

Ástæðan fyrir því að flestir fara í ferðalög er til þess að brjóta upp hversdagsleikann og fá sm tilbreytingu í lífið.  Því getur tilhugsunin um að þurfa að fara aftur heim þegar líður að brottfarardegi verið algjörlega yfirþyrmandi fyrir marga, sérstaklega ef lífið sem heima bíður er fullt af skylduverkefnum og misánægjulegum heimilisstörfum. Hér eru nokkru góð ráð til þess að gera heimkomuna þægilegri:

Hreint heimili

Ekkert er verra en að koma til baka á skítugt heimili eftir hugglegt frí. Það hefur kannski ekki gefist tími til þess að ganga vel frá öllu þegar lagt var af stað í fríið en það er ömurlegt að koma heim í drasl. Því er óvitlaust að panta hreingerningaþjónustu á meðan verið er að heiman og láta hana sjá um að gera heimilið hreint og fínt. 

Matur í ísskápinn

Fáðu einhvern ættingja til þess að fylla ísskápinn fyrir þig áður en þú kemur heim. Það er líka auðvelt að panta matarsendingar heim á netinu, til að mynda frá Nettó.  Það er álag að þurfa að byrja á því að fara í matvöruverslun strax og lent er, sérstaklega ef börn eru á heimilinu sem hafa oft litla þolinmæði í það að standa í röð í verslun eftir langt flug. 

Taktu þér tíma 

Það tekur oft tíma að trappa sig niður í frí en það sama á við með að gíra sig upp í vinnuna á nýjan leik. Ekki taka næturflug og ætla þér í vinnuna eldsnemma daginn eftir. Leyfðu flugþreytunni að leka úr þér, taktu upp úr töskunum og taktu þér tíma til að jafna þig eftir ferðalagið.  

Njóttu minninganna

Ekki hafa samviskubit þó að þú saknir frísins. Það er gott að geta glaðst yfir góðum minningum og yljað sér við þær allt fram að næsta fríi. Notaðu orkuna sem þú fékkst í fríinu til þess að velta fyrir þér þínu næsta ferðalagi. Að skipuleggja ferð og láta sig hlakka til er oft nærri því jafn skemmtilegt og ferðalagið sjálft! 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert