Flugfélögin sem bjóða upp á hollasta matinn

Býður flugfélagið sem þú flýgur með upp á hollan mat?
Býður flugfélagið sem þú flýgur með upp á hollan mat? AFP

Það eru ófáir sem taka með sér hollari mat að heiman í flug enda ekki hollustan alltaf sett í fyrsta sæti þegar kemur að flugvélamat. Það eru þó nokkur flugfélög sem standa sig betur en önnur að því er fram kemur í könnun Diet Detective.

Vefurinn bað stór flugfélög um næringarinnihald í matnum sem boðið er upp á um borð á almennu farrými í innanlandsflugi. Voru tvö flugfélög sem komu hve best út. Alaska Airlines og Air Canada deildu efsta sæti en á eftir þeim komu Delta og JetBlue. 

Tekið skal fram að ekki er um íslenska könnun að ræða en Íslendingar eru duglegir að ferðast og ekki ólíklegt að einhverjir ferðaglaðir Íslendingar verði á ferð með þessum flugfélögum yfir hátíðirnar. 

Ferðalög geta oft tekið langan tíma þó svo að flugið sjálft sé ekki svo langt. Fólk þarf að vera mætt í tæka tíð á flugvöllinn auk þess sem ferðalög til og frá flugvelli taka langan tíma. Hvað á þá að borða?

Á vef Diet Detective er mælt með því að fólk taki með sér vatnsflösku sem það getur fyllt á á flugvöllum. Einnig er mælt með því að fólk taki með sér hollt morgunkorn. Farþegar eru líka hvattir til að taka með sér epli og appelsínur auk þess sem ávextir og salöt eru seld á flugvöllum. Orkustangir geta komið að góðum notum en þrátt fyrir að stangirnar séu hitaeiningaríkar eru þær skárri en pizza eða súkkulaðistykki á flugvöllum. Smurðar samlokur eru einnig sniðugar sem og hnetublöndur og þurrkaðir ávextir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert