Staðir til að heimsækja árið 2020

Nikko er skínandi perla norðan við Tokyo og verður þar …
Nikko er skínandi perla norðan við Tokyo og verður þar minna kraðak þegar Ólympíuleikarnir standa yfir. TOSHIFUMI KITAMURA

Ekki er seinna vænna að leggja drög að ferðalögum komandi árs og velja þá staði sem loksins skal færa af óskalistanum inn á dagatalið. Erlendu fréttavefirnir eru þegar farnir að safna saman áhugaverðum tillögum og óhætt að segja að áfangastaðirnir magni upp löngunina til að pakka ofan í tösku og dusta rykið af vegabréfinu.

Í umfjöllun Forbes um áhugaverðustu áfangastaðina 2020 er bent á að draumaborgin Tókýó  verði sennilega uppbókuð og pakkfull af fólki í kringum Ólympíuleikana sem standa yfir frá 24. júlí til 9. ágúst, og eins í kringum Ólympíuleika fatlaðra strax í kjölfarið, frá 25. ágúst til 6. september. Þess í stað mælir Forbes með heimsókn til borgarinnar Nikko og nærsveita, sem er í um tveggja kílómetra fjarlægð frá Tókýó, til norðurs. Þar eru UNESCO-heimsminjar á hverju strái og náttúrufegurðin einstök.

Nýja fornminjasafnið í Kaíró mun eflaust verða í algjörum sérflokki.
Nýja fornminjasafnið í Kaíró mun eflaust verða í algjörum sérflokki. MOHAMED EL-SHAHED

Ár Egyptalands

Þá er upplagt að setja Kaíró á kortið, þó ekki væri nema vegna þess að þar opnar bráðlega nýtt og risavaxið fornminjasafn. Ekki ætti að koma lesendum á óvart að fá lönd eru jafn rík af mergjuðum fornminjum og Egyptaland, en í nýja safninu verður m.a. hægt að sjá alla gripi tengda Tutankhamún. Safnið er stutt frá píramídunum í Gísa, í túnfæti Kaíró, og hannað af írsku arkitektastofunni Heneghan Peng.

Egyptaland er heillandi og framandi á marga vegu en ferðalangar ættu að sýna hæfilega aðgát, sérstaklega ef þeir ferðast einir. Er upplagt að skjótast út fyrir höfuðborgina og skoða t.d. Konungadalinn og aðrar minjar í nágrenni Lúxor og Karnak, eða jafnvel ferðast alla leið upp að landamærunum að Súdan að skoða Abu Simbel musterin.

Þeir sem vilja sól og sand hafa líka úr mörgum góðum kostum að velja, s.s. í Sharm elSheikh eða í Alexandríu.

Í Dúbaí er allt á fullu við undirbúning Heimsýningarinnar.
Í Dúbaí er allt á fullu við undirbúning Heimsýningarinnar. GIUSEPPE CACACE

Heimssýning í Dúbaí

Conde Nast Traveller mælir m.a. með Armeníu, m.a. vegna þess að Ryanair hyggst bjóða upp á nokkrar góðar flugtengingar þangað, fyrst allra lággjaldaflugfélaga og verður t.d. flogið frá Berlín og Róm. Bahía í Brasilíu kemst líka á lista CN Traveller, salteyðimerkurnar í Botsvana, Kanarí eyjar og Kaupmannahöfn sömuleiðis.

Þeir sem vilja slá margar flugur í einu höggi ættu hins vegar, að mati ferðatímaritsins, að setja stefnuna á Dúbaí frá og með október, en þar verður haldin fyrsta heimssýningin í Mið-Austurlöndum og stendur viðburðurinn yfir í hálft ár. Er von á um 25 milljónum gesta, en til að ekki verði þröngt um allan þennan fjölda hefur einfaldlega verið byggð ný borg utan um viðburðinn, hér um bil á stærð við tvo Garðabæi.

Dúbaí, og Sameinuðu arabísku furstadæmin, eru ekki gallalausir áfangastaðir og má t.d. alveg gagnrýna hvernig farið er með farandverkafólk á þessum slóðum, eða hve grimmilega er tekið á minniháttar glæpum, en eftir situr að þar er margt að sjá og gera og ekki hægt að neita því að flugtengingarnar við Dúbaí eru góðar. Vilji fólk stoppa stutt í eyðimerkurhitanum er því minnsta mál að stökkva upp í vél og halda áfram lengra út í heim.

Luke Combs syngur fyrir gesti á tónleikum í Bridgestone Arena …
Luke Combs syngur fyrir gesti á tónleikum í Bridgestone Arena fyrr í desember. Nashville er borg þar sem allt snýst um tónlist. Jason Kempin

Bandarísk tónlistarmenning

Þeir sem hyggjast skjótast vestur um haf ættu síðan að reyna að staldra við í Nashville, sjálfri mekku bandarískrar sveitatónlistar. Í Tennessee kann fólk að njóta lífsins á bandaríska vegu og í Nashville er enginn skortur á afþreyingu fyrir tónlistarunnendur.

Þar opnar nýtt safn í sumar; National Museum of African American Music, þar sem farið verður í saumana á öllum þeim afbrigðum bandarískrar tónlistar sem geta rakið rætur sínar til Afríku. Veitingastaðamenningin í Nashville stendur líka í miklum blóma og hægt að kjamsa þar á ekta djúpsteiktu og sykruðu brasi sem gleður mallann, yfir í léttari og hástemmdari rétti sem matreiddir eru af meisturum með miklar pælingar á bak við matargerðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert