Svo þú sitjir á bærilegum stað í flugvélinni

Með því að vanda valið á sæti er hægt að …
Með því að vanda valið á sæti er hægt að gera ferðalagið mun þægilegra, með litlum eða engum viðbótarkostnaði. AFP

Allir vita að sætin á almennu farrými flugfélaga eru misgóð. Vitaskuld er smekkur fólks misjafn á það hvort best er að vera við ganginn, við glugga, eða í miðjunni, en aftur á móti vilja allir frekar sæti þar sem hægt er að halla sætisbakinu og sem mest pláss er fyrir fæturna.

Núorðið hafa ófá flugfélög þann háttinn á að rukka aukalega fyrir skárri sætin, s.s. þau sem eru við neyðarútganga eða næst skilrúmunum sem aðgreina viðskiptafarrýmið frá almenna farrýminu og hafa fyrir vikið betra fótapláss. Oft er verðmunurinn svo lítill að leggjalangir ættu að láta það eftir sér að borga ögn meira nema flugið sé þeim mun styttra.

En svo eru flugfélögin sem gefa farþegum alveg frjálst val, og taka ekkert aukagjald fyrir þau sæti sem eru ögn þægilegri. Í samantekt The Points Guy frá árinu 2017 voru þessi flugfélög 28 talsins, og þar á meðal Qatar, ANA, Cathay Pacific, Aeroflot, Alitalia og Emirates.

Það er hér sem vefurinn SeatGuru kemur til sögunnar, því þar er búið að safna saman ítarlegum upplýsingum um skástu sætin í hverri flugvél og hægt að sjá miklu betur en á bókunarsíðum flugfélaganna hvar allra bestu sætin er að finna eða hvaða sæti ætti að varast.

Stíf sætisbök og barnavöggur

Ef við tökum t.d. sem dæmi flug Aeroflot frá Moskvu til Bangkok síðastliðinn föstudag, SU 6275, þá upplýsir SeatGuru notandann um að flogið er með Boeing 777-300 vél, og mest fótapláss í röðum 21, 36 og 50 en aftur á móti ekki hægt að halla sætisbakinu í röðum 35, 48 og 61 – nokkuð sem enginn vill þurfa að þola í rúmlega tíu tíma löngu flugi.

Ekki nóg með það heldur varar Seat Guru sértaklega við sætum næst baðherbergjum og matreiðsluaðstöðu flugþjóna enda getur umgangur á þeim svæðum valdið ónæði og mögulega vakið farþega upp af værum blundi. Eins má sjá á sætakorti SeatGuru hvar festingar eru fyrir vöggur og því mögulega meiri hætta á truflun vegna grátandi barna.

Allra verstu sætin eru rækilega merkt, en það er aftasta sætaröðin þar sem fer saman að ekki er hægt að halla aftursætinu og stutt er í salernin.

Að sjálfsögðu upplýsir SeatGuru líka hvers konar aðstaða eða þjónusta er í boði og þannig eru t.d. sjónvarpsskjáir við hvert sæti og matur borinn fram á öllum farrýmum í umræddu flugi Aeroflot.

Níu sæti til að varast

Ef við svo skoðum, til samanburðar, síðdegisflug Icelandair til Kaupmannahafnar þennan sama dag má sjá á SeatGuru að rafmagnsinnstunga er við öll sæti og þráðlaust net í boði. Vefurinn varar sérstaklega við níu sætum um borð; öftustu sætaröðinni, sætinu næst ganginum í röð 8 og sætunum næst glugganum í röð 12. Fótaplássið er ríkulega útilátið í röðum 7, 16 og 17.

mbl.is