Ráð til að forðast svikahrappa á Uber

Uber er vinsæll ferðamáti erlendis.
Uber er vinsæll ferðamáti erlendis. AFP

Leigubílaþjónustur á borð við Uber og Lyft njóta gríðarlegra vinsælda víða um heim. Ferðamátinn er þó ekki hættulaus en á árunum 2018 og 2019 voru sex þúsund kynferðisbrot tilkynnt til leigubílaþjónustunnar Uber. 

Bæði Uber og Lyft gefa út öryggisreglur sem viðskiptavinir þeirra ættu að lesa áður en þeir nýta sér þjónustuna. Það er þó ekki alltaf nóg og því tók New York Times saman nokkur ráð sem gott er að hafa í huga áður en samskonar leigubílaþjónusta er nýtt. 

Bíddu eftir bílnum á öruggum stað

Það eru ekki allri heiðarlegir í þessum heimi og því er betra að bíða annaðhvort inni á hóteli eða íbúð eftir bílnum. Ef það er ekki mögulegt bíddu þá á fjölförnum vel upplýstum stað. 

Ef þú bíður á gangstéttinni með símann í hendinni gætu þorparar boðið þér far og þóst vera bíllinn sem þú varst að bíða eftir. 

Staðfestu að þú sért að stíga upp í réttan bíl

Í forritinu í símanum þínum sérðu nákvæmlega hvernig bíl þú ert að bíða eftir, bílnúmerið á bílnum og mynd af ökumanninum. Passaðu að allt þetta stemmi áður en þú sest upp í bílinn. Í stað þess að segja nafnið þitt þegar þú opnar bíldyrnar spurðu frekar hvern bílstjórinn er að sækja.

Segðu vinum eða fjölskyldu hvert þú ert að fara

Í bæði Uber- og Lyft-forritunum er hægt að deila upplýsingum um ferðina til vina sinna. Þar geturðu sent hvaðan þú ert að fara og hver áfangastaðurinn er auk upplýsinga um bílinn, bílnúmerið og ökumanninn. Einnig er mælt með því í upphafi ferðar að hringja símtal, eða þykjast að minnsta kosti hringja símtal þar sem þú segist vera kominn eftir til dæmis 20 mínútur. Sumir setja líka ferðina inn í Google Maps og fylgjast með hvort bílstjórinn sé ekki örugglega á réttri leið.

Sittu aftur í, farþegamegin

Besta sætið í bílnum er aftur í, farþegamegin. Þá geturðu fylgst vel með bílstjóranum og hvað hann er að gera. Settu spurningarmerki við það ef bílstjórinn biður þig um að sitja í einu sæti frekar en öðru.

Ekki taka Uber eða Lyft drukkinn

Þrátt fyrir að leigubílar séu frábær leið til að komast á milli staða þegar áfengi hefur verið haft um hönd er varhugavert að nota leigubílaþjónustu þegar maður er drukkinn eða undir áhrifum vímuefna. Þá er rökhugsunin ekki í sínu besta formi og þú gætir óvart farið upp í rangan bíl.

mbl.is