Drukkinn farþegi beit flugþjón

Konan hlaut 6 mánaða fangelsisdóm.
Konan hlaut 6 mánaða fangelsisdóm. AFP

Drukkin kona um borð í flugvél frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum til Bretlands bað fjölda karlmanna um borð að stunda kynlíf með sér í háloftunum rétt áður en hún beit flugþjón. 

Hin 20 ára gamla Demi Burton fékk 6 mánaða fangelsisdóm fyrir atvikið en hún var handtekin um leið og vélin lenti í Manchester í Bretlandi. Konan hafði sýnt af sér ógnandi hegðun og áreitt fjölda karlmanna um borð. Að lokum þurfti 6 starfsmenn vélarinnar og einn farþega til þess að binda hana niður við sæti sitt. Í hamaganginum beit hún einn flugþjónanna.

Burton var mjög drukkin og brást illa við þegar henni var neitað um meira áfengi um borð. Hún sagði fyrir dómara að hún hefði drukkið mikið áður en hún steig um borð í vélina þar sem hún er flughrædd. 

Atvikið átti sér stað 9. maí síðastliðinn og var nýverið tekið fyrir hjá dómara í Bretlandi.

Frétt The Sun.

mbl.is