Íslenski ríkisborgararétturinn sá besti

Það er gott að vera íslenskur ríkisborgari að mati Italian …
Það er gott að vera íslenskur ríkisborgari að mati Italian Dual Citizenship. mbl.is/Árni Sæberg

Samkvæmt rannsókn Italian Dual Citizenship er best að vera íslenskur ríkisborgari séstaklega þegar tekið er tillit til lífsgæða og ferðalaga. 

Italian Dual Citizenship er ítölsk stofnun sem sérhæfir sig í að gera fólki kleift að öðlast ítalskan ríkisborgararétt og tvöfaldan ríkisborgararétt. Rannsókn stofnunarinnar byggir á gögnum um vegabréfsáritanir, mannréttindi, kvenréttindi, fæðingarorlof, pólitískt lýðræði, jafnan rétt fólks til að ganga í hjónaband, eignarrétt og heilbrigðiskerfi ríkjanna. 

Hvert ríki fékk einkunn á skalanum einn til fimm í hverjum flokki og einkunnirnar lagðar saman. Ísland trónir á toppi listans ásamt Írlandi meðal annars vegna réttinda til fæðingarorlofs feðra og laga um að pör af sama kyni geti gengið í hjónaband. 

Lægstu einkunnirnar eru í flokkunum um réttindi transfólks og fæðingarorlof mæðra. 

Í öðru sæti voru Finnland, Svíþjóð og Bretland með jafnháa heildareinkunn.

Ítölsku rannsókninni skal ekki rugla saman við Kälin and Kochenov Quality of Nationality Index sem gefin er út á hverju ári. Þar er Ísland í fimmta sæti.

mbl.is