Frozen-þorpið vill ekki fleiri ferðamenn

Hallstatt í Austurríki er of vinsæll staður að mati heimamanna.
Hallstatt í Austurríki er of vinsæll staður að mati heimamanna. Ljósmynd/Pexels

Austurríska þorpið Hallstatt vill helst ekki að ferðamenn haldi áfram að flykkjast þangað en bærinn var innblástur höfunda Frozen fyrir þorpið sem myndin gerist í. 

Aðeins 780 manns eru búsett í þorpinu og hefur fjöldi ferðamanna aukist gríðarlega á síðustu 10 árum. Hallstatt er í um klukkustundar akstursfjarlægð frá Salzburg. Árið 2009 komu að meðaltali um 100 ferðamenn til þorpsins en á árinu 2019 komu um 10 þúsund á dag. 

Fjölgun ferðamanna hófst reyndar áður en Frozen kom út árið 2013 því bærinn kom fyrir í suðurkóresku þáttunum Spring Watch. Árið 2011 byggði svo kínverskur viðskiptajöfur nákvæma endurgerð af þorpinu í Guangdong-sýslu í Kína. Seinna meir var þorpið svo valið „Instagram-vænsta“ þorp í heimi og fóru þær fréttir um Austur-Asíu sem eldur í sinu. 

Bæjarstjóri Hallstatt, Alexander Scheutz, segir í viðtali við The Times að hann vilji draga úr fjölda ferðamanna um 33%. Hann viðurkennir þó að það sé engin leið að gera það. Áform hafa verið um að fækka ferðamannarútum sem koma til bæjarins en um 20 þúsund rútur koma til bæjarins á ári. 

Bæjarbúar hafa þó notið góðs af að einhverju leyti en ferðamannaflaumurinn hefur gert þeim kleift að hafa búðir, hótel og aðra þjónustu opið allan ársins hring. Þetta hefur þó tekið sinn toll af atvinnurekendum í bænum og sagði Verena Lobisser sem rekur hótel í bænum að þetta sé hálfgerð katastrófa. 

mbl.is