Hvernig ganga heimilaskipti fyrir sig?

Sesselja Traustadóttir er umboðsmaður Intervac á Íslandi.
Sesselja Traustadóttir er umboðsmaður Intervac á Íslandi. Eggert Jóhannesson

Sesselja Traustadóttir, umboðsmaður Intervac á Íslandi, segir heimilaskipti vera það sem koma skal í ferðamennsku á næstu árum. Á vefsíðu Intervac er hægt að finna fólk í útlöndum sem vill skipta á heimili sínu og dvelja á heimili þínu á meðan.

„Helsti kostur heimilaskipta er upplifunin, umhyggjan við ferðalagið og fjárhagslegur ávinningurinn af því að borga ekki fyrir gistinguna. Þú býrð eins og heimamaður, tekur góðan tíma í undirbúninginn og ferð ekki á hausinn yfir greiðslunni fyrir gistinguna. Þú færð einhvern til að gæta að þínu eigin heimili og þú gætir heimilis viðkomandi skiptifélaga meðan á skiptunum stendur,“ segir Sesselja. 

Sesselja skipti á heimilum nú í haust og dvaldi í …
Sesselja skipti á heimilum nú í haust og dvaldi í Amsterdam í tvær vikur. Þetta er heimilið sem hún dvaldi á. Ljósmynd/Aðsend

Intervac á Íslandi heldur kynningarfund á morgun, mánudag, klukkan 20 á Kaffi Læk. Þar mun Sesselja kynna vefsíðuna fyrir áhugasömum og rætt verður um undirbúning, tengingu við fólk úti í heimi og frágang á heimilinu. Viðburðinn má finna á Facebook.

Aðspurð hvort það sé ekki mikið vesen að standa í heimilaskiptum segir Sesselja vesenið í raun vera ávinning. „Maður undirbýr heimili sitt af kostgæfni og þá skiptir maður gjarna um höldurnar sem brotnuðu í fyrra, hengir upp slökkvitækið sem átti alltaf eftir að gera og lagar jafnvel stéttina sem stóð til að gera fyrir löngu síðan. Þannig að þetta hvetur mann oftar en ekki til að laga loksins það sem til stóð fyrir löngu síðan,“ segir Sesselja. 

Það tekur aðeins lengri tíma að sögn Sesselju að undirbúa ferðina en á sama tíma er hún persónulegri og maður kynnist þeim sem maður ætlar að skipta við. Hún segir Intervac síðuna, www.intervac.com, vera lykilinn að því að þetta gangi allt vel fyrir sig. 

Blaðamanni dettur í hug að það hljóti að vera eins og að finna nál í heystakki að finna manneskju í útlöndum sem er tilbúin að koma á þitt heimili á nákvæmlega sama tíma og þú ætlar að vera á heimili hennar. 

Sesselja segir það ekki vera vandamál ef fólk er bæði opið fyrir tímasetningu og staðsetningu en með góðum fyrirvara sé hægt að sníða ferðina nokkuð nákvæmlega að því sem mann langar. 

Sesselja nýtti ferðina sína til Amsterdam í haust til að …
Sesselja nýtti ferðina sína til Amsterdam í haust til að prófa hina ýmsu samgöngumáta. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is