Í ömurlega ferð til Íslands 5 dögum eftir sambandsslit

Parið talaði lítið saman í Íslandsferðinni.
Parið talaði lítið saman í Íslandsferðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margir skipuleggja ferðalög með margra mánaða fyrirvara, hvað er til ráða þegar fólk hættir saman stuttu fyrir brottför? Hin breska Rosy fór til Íslands aðeins nokkrum dögum eftir að hún hætti með kærasta sínum að því er fram kemur á vef Huffington Post. Ferðin var ekki jafn ánægjuleg og hún hafði vonast til þegar hún byrjaði að skipuleggja ferðina tæpu ári fyrir brottför. 

Hin 26 ára gamla Rosy og kærasti hennar voru búin að vera saman í tvö ár þegar þau hættu saman. Rosy hætti með kærastanum eftir að hann gaf í skyn að hann væri ekki tilbúinn að flytja inn með henni. Hún sá eftir að hafa hætt með honum og eftir hvatningu frá tengdafjölskyldu sinni ákvað hún að biðja fyrrverandi kærasta sinn að fara í ferðina með sér. 

Rosy og kærastinn fyrrverandi voru búin að skipuleggja ferðina vel. Áttu bókað í norðurljósaferð, í Bláa lónið og í skoðunarferð um perlur Suðurlands. Hún segir hins vegar að ferðalagið hafi verið dauðadæmt frá upphafi. Brottför var fimm dögum eftir sambandsslitin. 

Á Gatwick-flugvelli sá hún sinn fyrrverandi senda konu skilaboð sem hann hélt fram að væri gömul vinkona úr vinnunni. Í kjölfarið fékk hún kvíðakast. Ferðin batnaði ekki þar sem þau töluðu lítið saman alla ferðina. Rosy klæddi sig inni á baðherbergi þar sem hún vildi ekki klæða sig fyrir framan hann. Rómantíska miðnæturferðin í Bláa lónið var ekki mjög rómantísk og endaði á rifrildi. Eftir heimkomu töluðu þau aldrei saman aftur. 

Miðað við frásögn Rosy er líklega er ekki sniðugt að fara til útlanda með fyrrverandi maka í miðjum sambandsslitum. 

Fyrrverandi kærustuparið fór að rífast í Bláa lóninu.
Fyrrverandi kærustuparið fór að rífast í Bláa lóninu. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert