Viltu sigla um Miðjarðarhafið með Paltrow?

Gwyneth Paltrow.
Gwyneth Paltrow. AFP

Leikkonan Gwyneth Paltrow tilkynnti á dögunum að lífsstílsfyrirtæki hennar, Goop, muni standa fyrir skemmtiferðasiglingu um Miðjarðarhafið síðar á þessu ári. 

Goop er lífsstílsfyrirtæki sem stofnað var af Paltrow sjálfri. Það einblínir á bæði andlega og líkamlega heilsu. Heimildarþættir eru væntanlegir á Netflix á næstunni þar sem áhorfendur geta kynnt sér hugmyndafræði Goop betur. 

Skemmtiferðasiglingin verður 11 daga sigling um Miðjarðarhafið þar sem ferðalangar geta sökkt sér í hugmyndafræði Goop. Siglingin er unnin í samstarfi við Celebrity Cruises. Í byrjun siglingarinnar verður fyrirlestur með Paltrow og einum stjórnenda Goop, Elise Loehnen. 

Í kjölfarið verða tímar um andlega heilsu, líkamlega heilsu og heilsu sálarinnar. 

Goop-námskeiðið um borð kostar 750 Bandaríkjadali, eða tæpar 93 þúsund íslenskar krónur fyrir utan siglinguna sjálfa en lægsta verðið fyrir 11 daga siglingu með Celebrity Cruises er 4.040 pund eða um 650 þúsund íslenskar krónur. Heildarpakkinn er því tæpar 750 þúsund krónur. Lagt verður í hann 26. ágúst.

mbl.is