Neydd til að taka óléttupróf fyrir flug

Konan var látin taka óléttupróf.
Konan var látin taka óléttupróf. Ljósmynd/Colourbox

Kona var neydd til að taka óléttupróf áður en hún steig um borð í flugvél sem var á leið til Bandaríkjanna. 

Hin 25 ára gamla Midori Nishida er frá Japan og var á leið frá Hong Kong til Kyrrahafseyjunnar Saipan með Hong Kong Express Airways þegar atvikið átti sér stað.

Eftir að Nishida neitaði því að vera ólétt var farið með hana á klósettið þar sem starfsmaður Hong Kong Exrpess neyddi hana til að pissa á óléttupróf. Niðurstaðan var neikvæð og því fékk Nishida að fara um borð. Hún segir í viðtali við Wall Street Journal að upplifunin hafi verið niðurlægjandi. 

Að sögn flugfélagsins var hún neydd til að taka óléttupróf til þess að tryggja að hún fylgdi lögum um innflytjendur í Bandaríkjunum. 

Saipan er samveldi Bandaríkjanna og eini hluti Bandaríkjanna sem kínverskir ríkisborgarar geta farið til án þess að fá vegabréfsáritun. Þar af leiðandi hefur eyjan átt í stríði við svokallaðan „fæðingartúrisma“ þar sem óléttar konur fæða af ásettu ráði þar til að fá bandarískan ríkisborgararétt fyrir nýfædd börn sín. 

Á árunum 2015 og 2016 fæddust 715 börn sem eiga erlenda foreldra á Saipan, þar af voru 95% frá Kína. Fleiri ferðamenn en heimamenn fæddu börn á eyjunni árið 2018.

mbl.is