Kom á óvart hvesu vestræn Taívan er

Mynd úr ferðalagi með fjölskyldunni í Moskvu, vorið 2019.
Mynd úr ferðalagi með fjölskyldunni í Moskvu, vorið 2019. Ljósmynd/Aðsend

Háskólaneminn Saga Ýrr Hjartardóttir fór í skiptinám til Taipei í Taívan í byrjun hausts. Nú er hún komin til Srí Lanka þar sem hún ætlar að njóta lífsins þangað til önnin byrjar aftur. Hún segir það hafa komið sér á óvart hversu vestræn Taívan er.

Saga er í Copenhagen Business School í Danmörku en hún hefur búið þar í landi síðan árið 2012. Hún leggur stund á Alþjóðaviðskipti í Asíu og ákvað því að taka eina önn í skiptinámi við National Chengchi-háskólann í Taívan.

Hún hefur ferðast mikið á sínum 24 árum í heiminum og meðal annars ferðast mikið með fjölskyldunni sinni. Mamma hennar, Inga Rós Ant­on­íus­dótt­ir, hefur áður sagt ferðavefnum af ferðalögum fjölskyldu sinnar. Nú fáum við hins vegar að heyra hlið Sögu, sem hefur ferðast meira um Asíu síðan hún flutti út.

Til hvaða borga og landa hefur þú ferðast?

Ég hef ferðast talsvert mikið bæði ein og með fjölskyldunni, og held að löndin séu að nálgast 40. Áður en ég hóf námið hafði ég aðallega ferðast um Evrópu og Bandaríkin, og hef meðal annars unnið í sumarbúðum í Bandaríkjunum tvö sumur. En námið opnaði dyrnar fyrir nýjum möguleikum og hef ég því verið að ferðast meira í Asíu núna. 

Hvað kom þér mest á óvart þegar þú komst fyrst til Taipei?

Það kom mér talsvert á óvart hversu vestræn þau eru, og hversu mörgum vestrænum hefðum þau virðast taka þátt í, svona eins og að hafa jólamarkaði, leynijólavini og gamlárskvöld með flugeldasýningum. 

Saga hefur verið í skiptinámi í Taívan síðan í haust.
Saga hefur verið í skiptinámi í Taívan síðan í haust. Ljósmynd/Aðsend

 

Hvaða menningarmismun finnur þú helst fyrir?

Finn aðallega fyrir miklum mun í hegðun fólks. Heimamenn eru mjög siðaðir og fylgja reglum hart eftir, sem maður er ekki alveg vanur. Svo fann ég mjög fyrir því hvað þetta er stór borg og þess vegna nóg um að vera, fannst ég endalaust geta farið á nýja staði. 

Hvað er það skemmtilegasta við að búa í Taipei?

Námsmannalífið hérna er alveg dásamlegt, það er alltaf nóg að gera og fullt af skólafélögum sem maður getur skráð sig í. Einnig er nóg um að vera í miðbænum fyrir námsmenn og alltaf gaman að kíkja með vinunum á næturmarkaðina í leit að kvöldmat. Svo er stutt í náttúru, svo hægt er að fara bæði í fullt af fjallgöngum eða kíkja á ströndina. Einnig finnst mér heimamennirnir svo vinalegir og hika ekki við að hjálpa manni, og eru alltaf svo forvitnir um hvað maður sé nú að gera þar. 

Hefurðu ferðast mikið á meðan dvöl þinni stendur?

Hef aðallega ferðast innanlands og hef svo ferðast til Filippseyja og Japan meðan á dvölinni minni stóð. Það er alveg æðislegt hvað það er hægt að ferðast mikið innanlands hérna, og hversu auðvelt það er að komast með lestum um allt. 

Núna er ég svo stödd á Srí Lanka þar sem ég mun ferðast um þangað til lokaönnin hefst heima í Danmörku í febrúar. 

Mynd tekin frá Elephant Mountain í Taipei.
Mynd tekin frá Elephant Mountain í Taipei. Ljósmynd/Aðsend

 

Hvernig leggst matarmenningin í þig?

Mjög vel. Það er alveg æðisleg matamenning hérna með heimsfrægum næturmörkuðum og mikið af götumat. Uppáhöldin eru algjörlega bubble tea og taívanskar morgunverðarpönnukökur. Hins vegar eru þau mjög mikið fyrir sætan mat hérna, sem ég átti ekki alveg von á og tók smá tíma að aðlagast. 

Hvernig var að halda jól og áramót í Taívan?

Það var alveg öðruvísi upplifun. Leigði hús í Hualien með vinum mínum og eyddum því jólunum á ströndinni í 25 gráðum. Borðuðum svo heimagerðan jólamat, sem var svo sem mjög óhefðbundinn enda vorum við frá 7 mismunandi löndum og þess vegna öll með mismunandi hefðir. Einnig voru bara til matarprjónar í húsinu og var því allur matur borðaður með þeim, en algjörlega upplifun sem maður gleymir seint. 

Eru einhverjar „ferðamannagildrur“ sem fólk ætti að varast á þessu svæði? 

Heimamenn eru almennt mjög vinalegir og hjálpsamir og ég hef ekki orðið vör við ferðamannagildrur. Almennt eru föst verð á mat og leigubílum, en ég hef einu sinni lent í því að viðkomandi reyndi að rukka okkur um allt of mikið á lókal veitingastað. Þá er það bara að prútta um verðið. 

Teapot Mountain í Taívan.
Teapot Mountain í Taívan. Ljósmynd/Aðsend

 

Hvaða ráð geturðu gefið þeim sem ætla að ferðast til Taívan?

Þetta er alveg æðislegt land og ég mæli eindregið með að heimsækja Taívan. Ég mæli með að borða lókal mat, meðal annars á næturmörkuðunum, og svo að upplifa náttúruna. Hualien er mjög skemmtilegt svæði og er alveg við Taroko National Park, sem er eitt af mínum uppáhaldssvæðum, og tekur bara um tvo tíma að komast þangað frá Taipei. Svo ef maður vill smá strandarfíling er Kenting-svæðið mjög skemmtilegt, þar sem er hægt að meðal annars snorkla og surfa. 

Annars ætti fólk bara að koma með góða skapið og ekki misskilja vinleika heimamanna fyrir svindl, þeir eru langoftast bara að reyna að hjálpa þér!

Taroko National Park í Taívan.
Taroko National Park í Taívan. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert