Fluttu í dásamlegan strandbæ á Spáni

Þórunn Lárusdóttir flutti með eiginmanni og börnum til Sitges. Fjölskyldan …
Þórunn Lárusdóttir flutti með eiginmanni og börnum til Sitges. Fjölskyldan var mætt á rauða dregilinn þegar Þórunn frumsýndi myndina sína Shattered Fragments á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Sitges 2018. Ljósmynd/Aðsend

Þórunn Lárusdóttir, leikkona og kvikmyndagerðarkona, flutti í strandbæinn Sitges rétt fyrir utan Barcelona til þess að stunda nám í kvikmyndagerð. Þórunn flutti út með eiginmanni og börnum og líkaði dvölin svo vel að þau framlengdu um hálft ár. Þórunn er nú með kvikmyndahandrit í smíðum en á milli skrifta sýnir hún Mömmu klikk í Hafnarfjarðarleikhúsinu og leikstýrir Hans klaufa sem Leikhópurinn Lotta frumsýnir laugardaginn 18. janúar. 

„Ég var að leita mér að hentugu námi í kvikmyndagerð og fann það í Sitges! Ég komst inn í góðan kvikmyndaskóla þar, sem var akkúrat með nám sem hentaði mér. Þess vegna varð Sitges fyrir valinu. Það var svo náttúrulega rosalegur plús að þessi litli strandbær er algerlega dásamlegur,“ segir Þórunn um af hverju strandbær á Spáni hafi orðið fyrir valinu þegar fjölskyldan flutti utan. 

Langaði ykkur ekkert að vera lengur þegar þið ákváðuð að flytja heim? 

„Við munum alltaf tengjast Sitges tilfinningaböndum og heimsækja eins oft og mögulegt er. Við ætluðum reyndar bara að vera úti í eitt ár en lengdum dvölina um hálft ár. Stærsti þátturinn í ákvörðuninni að koma heim var að í Katalóníu eru töluð tvö tungumál (spænska og katalónska) og erfitt að læra þau bæði í einu. Það var því strembið fyrir krakkana að stunda nám, þar sem ýmist er kennt á katalónsku eða spænsku og námsbækur jafnvel á öðru tungumáli en kennarinn talar í tímum! Kolbeinn Lárus, sonur okkar er á fermingaraldri og námið því farið að þyngjast verulega og skipta meira máli fyrir framtíðina. Þetta var því ákvörðun um annaðhvort að taka slaginn og vera bara úti næstu tíu árin eða koma heim. Við vildum öll koma heim, vera nær fjölskyldu og vinum.“

Veðrið lék við fjölskylduna í Sitges.
Veðrið lék við fjölskylduna í Sitges. Ljósmynd/Aðsend

Hvað var það besta við að búa í Sitges?

„Veðrið er náttúrulega efst á blaði, svo ströndin, veitingastaðirnir og andrúmsloftið. Bærinn er snyrtilegur, fallegur og lítill og maður var farinn að þekkja mjög marga, hitti fólk á förnum vegi og leið eins og heima hjá sér.“ 

Mælir þú með góðum veitingastöðum í bænum?

„Já. Mjög mörgum! Það er hreint ótrúlegt hvað það eru margir topp veitingastaðir í 28 þúsund manna bæ! NEM, La Picara, sem vinkona okkar frá Chile rekur, Uzaka og Buenos Aires grill sem eru á San Sebastian-ströndinni. (Sem er uppáhaldsstaðurinn minn í veröldinni!). Yndislegt að sitja úti í sólinni að borða góðan mat og horfa á krakkana leika sér á ströndinni á meðan. Listinn af góðum veitingastöðum er endalaus!“ 

Hvað er gaman að gera í Sitges með börn?

„Það er margt hægt að gera en okkur fannst alltaf skemmtilegast að fara á ströndina. Við fórum stundum í mínígolf, krakkarnir fóru gjarnan í svona teygjuhopp á ströndinni og svo lékum við okkur saman að búa til sandkastala.“

Það var stutt í ströndina þegar Þórunn bjó í Sitges.
Það var stutt í ströndina þegar Þórunn bjó í Sitges. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er hinn fullkomni dagur í Sitges?

„Strönd og veitingastaðir allan daginn!“

Eru einhverjar ferðamannagildrur sem ferðamenn þurfa að vara sig á í bænum?

„Ég varð aldrei vör við slíkt í Sitges. Við fórum reyndar heim bæði árin yfir háannatíma ferðaiðnaðarins í júlí og ágúst. Þá er aðeins meira að gera í bænum.“

Á Carnival í febrúar 2018.
Á Carnival í febrúar 2018. Ljósmynd/Aðsend

Það er stutt að fara frá Barcelóna til Sitges og margir fara í dagsferðir í bæinn. Myndir þú jafnvel mæla með að dvelja í Sitges í lengri tíma og taka lestina til Barcelona í stutta dagsferð? 

„Ég myndi hiklaust mæla með því að dvelja í Sitges og skreppa svo til Barcelona í dagsferðir. Það er alger draumur að vera í rólegheitunum í Sitges en geta samt hoppað upp í lest í fjörutíu mínútur til að komast í stórborg! Ég mæli samt með því að fólk athugi hvaða hátíðir eru í gangi í bænum, það er alltaf eitthvað að gerast í Sitges, carnival í febrúar, gay pride í júní og katalónsk stórhátíð í september – svo eitthvað sé nefnt. Það er æðislegt að vera í bænum þá en þá eru ekki beint rólegheit!“

mbl.is