Hundur drapst um borð vegna ofhitnunar

Kay Newman ásamt Duke.
Kay Newman ásamt Duke. Skjáskot/Facebook

Hundurinn Duke drapst um borð í flugvél Quantas í flugi frá Sydney til Brisbane í Ástralíu í desember síðastliðnum. 

Eigandi hundsins, Kay Newman, segir að það hafi verið að öllu leyti hægt að koma í veg fyrir að hundurinn dræpist og að sökin væri starfsmanna Quantas.

Duke ofhitnaði áður en hann var settur um borð í farangursrými flugvélarinnar. Newman segir að hún hafi passað sérstaklega að hann væri með kalt vatn hjá sér og hafði einnig fryst flösku af vatni til að hafa hjá honum. 

Hann hafi hins vegar verið settur út í sólina með öðrum farangri á meðan farþegar gengu um borð. Newman tók eftir búri Duke úti í sólinni og hafði miklar áhyggjur. Samkvæmt veðurspám átti að vera 34 stiga hiti en að sögn Newman fór hitinn upp í allt að 39 gráður. Hún lét starfsfólk vita þegar hann hafði verið í um 15 mínútur í sólinni á flugvellinum. Það hafi hins vegar hvatt hana að drífa sig um borð og sögðu henni að það yrði í lagi með hundinni. 

Þegar hún var komin um borð í vélina var hún látin vita að það væri í lagi með hundinn. Við komuna til Brisbane var henni hins vegar tilkynnt um að Duke hefði drepist í fluginu.

Newman segir ábyrgðina alla vera á höndum Quantas og að starfsfólk á vellinum hefði getað komið í veg fyrir að Duke dræpist. Hún hefur kvartað til flugfélagsins og hvatt það til að skoða verkferla sína í kringum flutninga á dýrum.

mbl.is