Ugla segir erfitt fyrir transfólk að ferðast

Ugla Stefanía segir það hafa verið niðurlægjandi að ferðast áður …
Ugla Stefanía segir það hafa verið niðurlægjandi að ferðast áður en hún fékk upplýsingunum um kyn sitt breytt í vegabréfinu. Ljósmynd/Oddvar Hjartarson

Baráttukonan Ugla Stefanía Jónsdóttir lýsir niðurlægjandi reynslu sinni af ferðalögum áður en hún fékk kyni sínu breytt á vegabréfinu sínu í nýjum pistli í breska fjölmiðlinum Metro

Ugla Stefanía er transkona og lengi vel þurfti hún að ferðast um með vegabréf þar sem stóð að hún væri karlmaður, þrátt fyrir að hún væri kona. 

Atvikið sem Ugla greinir frá í Metro átti sér stað fyrir nokkrum árum þegar hún var að ferðast til Ísrael. 

„„Ertu viss um að þetta sé vegabréfið þitt, fröken?“ spurði starfsmaður vegabréfaeftirlitsins. Með miklu stressi um hvað væri næst þá kinkaði ég kolli og sagði já, þetta væri mitt vegabréf. Konan hnyklaði aðeins brýnnar og starði síðan á mig og sagði: „Það stendur „karlkyns“ á vegabréfinu, en þú ert augljóslega kvenkyns.“ Starfsmaðurinn hafði rétt fyrir sér,“ skrifar Ugla í pistli sínum. 

Ugla segir að konan í vegabréfaeftirlitinu hafi verið hvumsa og litið út fyrir að hafa aldrei heyrt um transfólk. Næstu 20 mínúturnar fóru í það að reyna að útskýra fyrir henni á meðan fólkið á eftir henni í röðinni var óþreyjufullt og pirrað. 

„Í örvæntingu minni ákvað ég þar sem ég var að fljúga til Ísraels, að nefna nafn Dönu International, ísraelsku transkonunnar sem vann Eurovision árið 1998, í þeirri von að starfsmaðurinn myndi einhvern veginn skilja hvað væri í gangi hérna,“ skrifar Ugla. 

Það virkaði og Ugla komst í gegnum eftirlitið og náði fluginu til Ísraels. Hún segir upplifunina hafa verið gríðarlega niðurlægjandi og nokkuð sem transfólk úti um allan heim upplifi á hverjum degi á ferðalögum sínum. 

„Ég hef oft þurft að rífast við starfsfólk flugvalla sem neitar að trúa mér og hef þurft að koma út úr skápnum fyrir hvern sem heyrir. Að þurfa að verja rétt sinn til að ferðast er skelfileg byrjun á ferðalagi og eitthvað sem flest fólk þarf ekki að hugsa um. Loksins, eftir um tvö ár, fékk ég upplýsingunum á vegabréfinu mínu breytt í „f“ úr „m“ og hef ekki þurft að standa í miklu veseni síðan,“ segir Ugla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert