Safnaði fyrir Afríkureisu meðfram háskólanámi

Lilja Sif Magnúsdóttir kynntist heimamönnum vel í Afríku.
Lilja Sif Magnúsdóttir kynntist heimamönnum vel í Afríku. Ljósmynd/Aðsend

Lilja Sif Magnúsdóttir ferðamálafræðingur er nýkomin heim úr ævintýralegu ferðalagi um Afríku. Lilja vissi lítið um heimsálfuna þegar hún hélt af stað ein í bakpokaferðalag. Lilja fór meðal annars í þriggja vikna safaríferð með rútu þar sem hún svaf í tjaldi og var um tíma án rafmagns og nútímasalernisaðstöðu. 

„Ég bókaði mér tveggja mánaða ferðalag um nokkur lönd í Afríku. Ég hafði búið í Bandaríkjunum í nokkur ár áður og annars eiginlega bara ferðast um Evrópu og langaði að gera eitthvað allt öðruvísi,“ segir Lilja um ferðalagið en hún ferðaðist um fimm lönd í Afríku. 

Fannst allir vera í Asíu og Suður-Ameríku

„Ég vissi að mig langaði í langa ferð eftir að ég útskrifaðist úr háskólanum síðasta sumar. Ég var mjög lengi að ákveða hvert, Asía? Suður-Ameríka? Ég á vini út um allt og hugsaði að það væri gaman að ferðast eitthvað og hitta kannski gamlan au pair-vin í að minnsta kosti einu landi. Mér fannst síðan allir vera að ferðast um Asíu og Suður-Ameríku svo ég valdi Afríku bara sem smá svona: „Ég veit ekkert um þessa heimsálfu en hún hefur eflaust svo margt upp á að bjóða.“ Ég á einnig bestu vinkonu í Suður-Afríku sem var au pair í New York á sama tíma og ég sem ég hafði ekki séð síðan 2015. Ég hugsaði þá að það væri æði að ferðast um Afríku og enda ferðalagið í heimsókn hjá henni í Suður-Afríku. Sameina það að minnsta kosti einhvern veginn ef ég gæti.“

Ljósmynd/Aðsend

Lilja segist hafa farið í kynningartíma hjá Kilroy. Þar kynntist hún ferðaráðgjafanum Benna sem hjálpaði henni að skipuleggja ferðina. 

„Hann mælti með stöðum, hópferðum, löndum og sendi mig heim með smá lista af stöðum til að skoða og velja úr eða finna nýja og koma með tilbaka til hans. Ég ákvað þá að vera í um tvo mánuði úti, að ég myndi byrja ferðina ein í tvær vikur, fara síðan í þriggja vikna skipulagða ferð hjá ferðafyrirtæki úti og enda síðan á tveimur vikum í Suður-Afríku.“

Ljósmynd/Aðsend

Þarf ungt fólk að safna lengi fyrir svona ferðalagi? 

„Ég var að safna mér í um níu mánuði, en meðfram því var ég að borga leigu, í háskólanámi og fór einnig í helgarferð utan á tónleika. Það gekk vel að mér finnst en ég er vön því að herða á eyðslu og vera sparsöm eins og í gegnum háskólann. Mér fannst þetta því minna mál en ég bjóst við að það yrði. Ég safnaði mér samtals 1,1 milljón. Það var heildarupphæðin sem fór í alla ferðina með eyðslufé (sem ég vissi ekki hvað ég ætti að hafa mikið). Helminginn borgaði ég í flug og þriggja vikna hópferðina áður en ég fór út, seinni helmingurinn var eyðslufé og hostel-kostnaður.

Þegar til Suður-Afríku var komið átti ég síðan meiri peninga eftir en ég hafði gert ráð fyrir og bara tvær vikur eftir af ferðalaginu. Ég ákvað þá að framlengja ferðina um tvær vikur í viðbót. Bókaði mér flug aftur til Zanzibar og eyddi vikunum þar í góðri heimsókn hjá lókal vinum sem ég eignaðist í upphafi ferðar þegar ég var þar. Það er svo skemmtilegt að upplifa staði með heimamönnum – gefur stöðunum allt annan lit.“

Ljósmynd/Aðsend

Næturnar í tjaldferðinni erfiðar

Ferðalag Lilju byrjaði í Tansaníu. 

„Ég ákvað að eyða sex dögum í Zanzibar og fimm dögum á Memba Island sem er eyja aðeins fyrir ofan Zanzibar. Síðan ætlaði ég að verja nokkrum dögum á meginlandinu. Þetta átti þó reyndar eftir að breytast algjörlega þegar þar að kom. Ég endaði á því að eyða 12 dögum í Zanzibar. Vegna veðurs og úrkomu hætti ég við hina eyjuna sem er afskekktari, strangari siðir og minna af ferðamönnum.“ 

Lilja fór síðan í rútuferð í þrjár vikur sem hún bókaði með hjálp Kilroy. Lilja fór frá Simbabve, í gegnum Botsvana, um alla Namibíu og endaði í Suður-Afríku. Ferðalangarnir í rútunni gistu í tjöldum sem setja þurfti upp á kvöldin auk þess sem þeir aðstoðuðu við matseldina. Þannig var kostnaði haldið niðri í ferðinni. Eftir rútuferðina í gegnum fjögur Afríkulönd beið hennar afslöppun hjá vinkonu hennar í Suður-Afríku.

Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er að vera með allt á bakinu og gista í tjöldum? 

„Ég vissi einmitt ekkert hvernig ég myndi upplifa þessa þriggja vikna tjald-rútuferð, hvað þá með fullt af ókunnugu fólki — aldrei farið í neitt þessu líkt áður. Ég get ekki sagt að ég hafi ekki haft það fínt í þessum tjöldum en í lok ferðar var ég orðin mjög þreytt. Það var ekið í þrjár til níu klukkustundir í rútu á dag og við að sáum margt og gerðum margt á stuttum tíma. Ég hefði hins vegar ekki viljað breyta þessu, ég lærði margt. Erfiðast var eflaust að sofna í hitanum á kvöldin því maður var bara í nánast engu á þunnri dýnu í 28 til 30 gráðu hita. Eins kuldinn í eyðimörkinni. Ég tók með mér föðurland að heiman sem átti ekki roð í kuldann, hvað þá örþunni svefnpokinn. Ég man það næst. Einnig var erfitt að aðlagast hversu hratt allt gekk fyrir sig. Við vöknuðum alltaf milli fjögur og sex á morgnana og vorum oft komin á áfangastað seint. Þá voru sett upp tjöld, eldað, sturta/undirbúa morgundaginn og endurtekið daginn eftir. Við stoppuðum tvisvar í tvær nætur á sama stað annars alltaf ein nótt og áfram á keyrslu. En við fórum í ótrúlega mörg safarí (á bát, keyrandi og fótgangandi), útsýnisflug, kajak, fjórhjól um eyðimörkina og á sandbretti, heimsóttum ógrynni af sögulegum stöðum, stoppuðum í fjölmörgum litlum þorpum, heimsóttum söfn, fórum í vínsmökkun og allt þar á milli.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvernig var að vera án rafmagns og klósetts? 

„Við vorum í Maun í Botsvana í einn dag í ótrúlega flottum Safarí-ferðum og þaðan fórum við í um einn og hálfan dag inn í Okavango Delta sem er risavaxið gróið grænt vatnssvæði inni í miðju Botsvana. Þar er ótrúlega mikið af dýralífi allt um kring. Rafmagnsleysið og klósettleysið skipti litlu sem engu máli. Það var grafin handa okkur hola og okkur kennt að „sturta niður“ með því að taka skófluodd af lausri mold og setja ofan í þegar búið var að nota klósettið. Eftir margra tíma göngutúr um svæðið, kveiktum við síðan varðeld þegar dimma fór sem lýsti okkur yfir kvöldmatnum sem og hélt ógrynni af pöddum sem þarna voru (og auðvitað öðrum stórum dýrum) í burtu frá tjaldstæðinu okkar. Það var spjallað og sungið við varðeldinn langt fram eftir og ef ég ætti að velja einhvern stað sem mig langar aftur að heimsækja, þá væri það þessi.“

Ljósmynd/Aðsend

Lilja segir að tíminn í Okavango Delta hafi staðið upp úr í ferðinni.

„Upp úr stendur klárlega Okavango Delta-dagurinn. Við sigldum þangað á stórum djúpum kanóum þvert yfir vatnið. Heimamenn stóðu aftan á og ýttu með mjóum prikum í vatnið, sem var mjög grunnt. Við sigldum fram hjá flóðhestum, fílum og sebrahestum sem voru meðal annars bara nokkra metra frá. Við þurftum til dæmis að stoppa því flóðhestarnir voru að slást í vatninu á mikilli ferð og þeir lögðu mikið upp úr því að trufla þá ekki né valda usla. Við eyddum nóttu og degi þar inn frá umkringd vatni, dýrum og skógi. Það var ótrúlega skemmtilegt og mín uppáhaldsupplifun úr þessari þriggja vikna hópferð. Þegar þangað var komið settum við upp „camp“ fyrir nóttina, sóttum eldivið og síðan tóku þeir okkur í fjögurra klukkutíma gönguferð um hluta svæðisins. Við gengum fram hjá svo mörgum dýrategundum og allt var svo ósnortið, það var æðislegt. Villisvín, sebrahestar, fílar, gíraffar, buffalóar, kýr, tugir tegunda framandi fugla sem og auðvitað skordýr sem finnast ekki í hvaða bæjarfélagi sem er, enda ekkert manngert að finna þarna og því allt mjög villt. Eftir gönguferðina fengum við svo smá sýnikennslu á hvernig skyldi sigla kanóunum sem þeir ferðast á. Það var ótrúlega skemmtilegt, mér leið smá eins og Pokahontas nema í Afríku.“

Ljósmynd/Aðsend

Fékk bónorð og lenti í eltihrelli

Lentir þú í einhverjum erfiðleikum?

„Óvæntasta uppákoman mín var eflaust þegar ég eignaðist eltihrelli í Zanzibar. Það var þó ekki eins alvarlegt og það hljómar. Hann vann á móti hostelinu mínu í Stone Town, þar sem ég var í fimm daga, hann hafði mælt með stöðum sem ég ætti að skoða, mat sem ég ætti að prufa og aðstoðað mig þegar mig vantaði leiðbeiningar. Síðan fer ég úr Stone Town og ferðast í nokkra daga til austurhluta Zanzibar. Síðan fer ég norður þar sem halda átti Full Moon-partý og var þar á ferðalagi með stelpu sem ég hafði kynnst á hostelinu. Áður en ég fór var hann farinn að sýna óþarflega mikinn áhuga og orðinn frekar ýtinn svo ég bara hunsaði hann og var hvort eð er að fara.

Nokkrum dögum síðar var Full Moon-partíið, sem er mánaðarlega á þessum sama stað. Hann mætir þar, aleinn eftir að hafa tekið almenningssamgöngur í tvær og hálfa klukkustund til þess að koma sér í partíið. Allt í lagi með það, ég taldi eðlilegt að heimamenn kíktu þangað svo ég heilsaði bara og hélt áfram með kvöldið. Hann hins vegar stóð svona tvo metra frá mér, bak við mig allt kvöldið. Hann var aleinn og augljóslega ekki með neinum þarna. Sama hvort ég færði mig inn á dansgólf, út á sandinn eða að barnum var hann alltaf að elta mig. Sem betur fer voru mjög margir þarna og ég var í hópi með 15 til 20 ferðamönnum sem ég hafði kynnst víðs vegar um eyjuna svo ég hlæ bara að þessu í dag (og þá reyndar líka). Þeim fannst þetta held ég óþægilegra en mér, enda sáu þau hann alltaf horfandi á mig. Ég lét hann alveg heyra það hvað í fjandanum hann væri nú að gera þarna, standandi líka bara starandi á mig og eltandi allt kvöldið. Hann hringdi samt í mig til að spyrja mig spurningar, ég sagði mjög hratt „hvað viltu?“ enda pirruð frá kvöldinu áður. Hann sagðist vera að fara að láta laga dread-lokkana sína og vildi forvitnast um hvort hann mætti eiga lokk úr hárinu á mér og bæta í sitt. Það var þá sem ég fattaði að það hefði verið heimsk hugsun að gefa einhverjum heimamanni tansaníska símanúmerið mitt, skellti á og blokkaði hann.

Ég á reyndar líka sögu af djamminu í Zanzibar þar sem Maasai-flokksmaður bað mig um að giftast sér, hneykslaðist þvílíkt af því ég væri ógift og ein að ferðast 26 ára gömul og sagðist vera hrifinn af ljóshærðum ferðamönnum. Ég kom mér bara hratt í burtu og afþakkaði boðið kurteislega.“

Ljósmynd/Aðsend

Heimamenn kunna að taka á móti ferðafólki

Hvaða staðir stóðu upp úr?

„Upp úr stendur klárlega heimsóknin í Viktoríufossa í Simbabve, Okavango Delta í Botsvana, eyðimörkin í Namibíu þótti mér ótrúlega skemmtilegt að fá að skoða hluta af og gista í, norðurhluti Zanzibar og Mossel Bay í Suður-Afríku. Þó svo ég hafi heilt á litið verið ótrúlega heppin og notið mín alls staðar þar sem ég kom, standa þessir staðir upp úr út af heimamönnum og þeim ferðamönnum sem ég upplifði staðina með, sem og staðirnir sjálfir, sjarmi þeirra, menning og náttúra.“

Ljósmynd/Aðsend

Fannst þú mikinn mun á löndunum sem þú heimsóttir?

„Sko, það er erfitt að segja. Ég var til dæmis bara í einum bæ í Simbabve og þar eru Viktoríufossar svo það er mikil ferðaþjónusta þar og bærinn ótrúlega dýr. Að sjá náttúruna í Botsvana var allt annað sem síðan varð bara að þurru flötu landi því lengra sem við keyrðum. Ferðin í gegnum Namibíu kom síðan algjörlega á óvart og fengum við flest ágætt menningaráfall við að koma frá Botsvana. Við keyrðum í marga daga í gegnum þurrt flatt land í Botsvana en þegar við komum til Namibíu sáum við allt í einu fjöll, stór byggð hús og bíla. Þarna var miklu meiri siðmenning eins og við þekkjum hana. Staðirnir höfðu þó allir sína eiginleika og þriggja vikna skipulagða ferðin augljóslega skipulögð svo maður sjái sem mest og fjölbreyttast. Suður-Afríka var síðan bara eins og borg klippt út úr Bandaríkjunum eða Evrópu og ótrúlega skrítið að koma þangað og eyða tíma þar. Þar var margt ungt fólk að ferðast um, mikið djamm en gullfalleg náttúra og ég naut mín vel í vesturhluta landsins í nokkrar vikur. Zanzibar var fyrsti staðurinn minn og þar var að finna mikla stéttaskiptingu. Fín hús og hótel yfir í hálfbyggða og niðurrifna kofa, rusl úti um allt og mikla fátækt í öðrum hverfum. Öll þessi lönd eiga það þó sameiginlegt að heimamenn þeirra kunna að taka á móti ferðafólki og vera kurteisir og almennilegir. Allir taka manni opnum örmum, vilja spjalla, sýna manni og deila menningu landsins síns.“

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert