Hvar er sólin í febrúar?

Hvert ætlar þú í febrúar?
Hvert ætlar þú í febrúar? Ljósmynd/Pexels

Þrátt fyrir að dagurinn verði lengri og lengri með hverjum deginum hér heima á Íslandi þá hefur veðrið lítið verið að leika við okkur. Flestir eru orðnir gráir í framan og skammdegið farið að segja til sín.

Besta, jafnvel eina, meðalið við þessum skammdegisgráma er að skella sér í sólina. Janúar og febrúar eru þeir mánuðir sem er hvað minnst að gera í ferðabransanum á næstum öllum stöðum í heiminum og því vel hægt að nýta sér góð tilboð og lægra verð en í júní og júlí.

En hvert er best að fara? Búandi á eyju lengst uppi á norðurhveli þarf oft að fljúga langar vegalengdir til að njóta þeirrar gulu. Hér eru nokkrar hugmyndir að áfangastöðum sem eru mislangt frá landi ísa og elda.

Casablanca, Marokkó

Fyrir þá sem nenna ekki of miklum hita er Casablanca hinn fullkomni áfangastaður. Meðalhitastigið þar í febrúar er 18 gráður. Þar er bæði hægt að baða sig í sólinni, borða á frábærum veitingastöðum og skoða söfn.

Tenerife, Spáni

Lesendur ferðavefjar mbl.is ættu nú að kannast við Paradísareyjuna Tenerife. Tenerife er öruggur áfangastaður fyrir þá sem vilja njóta sólarinnar og slaka á. Meðalhitastigið í febrúar er 21 gráða og allir í góðu skapi.

Kenía

Ef þú ert ævintýragjarn er Kenía hinn fullkomni áfangastaður fyrir þig. Meðalhitinn er 21 gráða sem er fullkomið fyrir þá sem vilja hita en ekki of mikið af því góða. Í Kenía er tilvalið að skella sér í safari-ferð og ef þú stefnir á suðurströndina er hægt að synda með hákörlum.

Jamaíka

Þegar þú hugsar um Karíbahafið þá hugsar þú eflaust um Jamaíka. Í febrúar er meðalhitastigið um 25 gráður á þessari gullfallegu eyju. 

Koh Yao Noi, Taílandi

Það er langt ferðalag fyrir höndum ef þú ákveður að skella þér til Taílands en það verður svo sannarlega þess virði þegar þú liggur á ströndinni í sólbaði í burtu frá öllum lægðunum. Koh Yao Noi er ekki einn af þessum klassísku stöðum sem bakpokaferðalangar fara á svo það ætti ekki að vera jafn margt um manninn þar og á öðrum eyjum Taílands. Meðalhitinn í febrúar er um 30 gráðurnar.

Rio De Janeiro, Brasilíu

Febrúar er carnival-tími í Rio De Janeiro. Það þýðir mikið stuð og gaman. Það er þó vel hægt að draga sig í hlé og skella sér á ströndina og njóta sólarinnar. Meðalhitastigið er um 31 gráða í febrúar.

mbl.is