Gullfallegt hótel í gömlum stíl í Skálakoti

Elín Þorsteinsdóttir innanhússarkitekt fékk það verkefni að hanna hótelið Skálakot sem er við Hvolsvöll. Gamaldags stíll ræður ríkjum á hótelinu og er hlýleikinn í forgrunni. Áður en Elín hannaði Skálakot hannaði hún veitingastaðinn Fákasel. Þegar eigendur Skálakots, Guðmundur og Jóhanna, komu á þann veitingastað höfðu þau samband og báðu Elínu að hanna fyrir sig hótel.

„Sveinn Ívarsson hannaði húsið sem passar fullkomlega inn í umhverfið. Þegar ég keyrði upp að byggingunni og áður en ég kom inn í hana vissi ég hvaða stefnu ég vildi taka varðandi innanhússhönnun. Þeirra hugmyndir og mínar fóru vel saman og hófst farsælt samstarf sem stendur enn yfir. Hönnunin er í gamaldags stíl sem hæfir húsinu og staðsetningunni. Markmiðið var strax í upphafi að gestir upplifðu að þeir væru staddir á íslenskum sveitabæ. Það er mikil áhersla á rólegt og afslappað andrúmsloft í fallegu umhverfi.

Hótelið er „boutique“ hótel sem felur í sér að það eru fá herbergi á hótelinu, lúxus og mikið lagt upp úr hönnun og upplifun. Þegar ég tók við hönnuninni var hótelið, sem er nýbygging, tilbúið til innréttingar. Það fólst því mikil áskorun í að hanna hótelið í gamla stílnum og finna innanstokksmuni sem pössuðu inn á hótelið,“ segir Elín.

Á hótelinu eru alls fjórtán herbergi, tvær svítur, tvö einstaklingsherbergi og tíu tveggja manna herbergi. Á hótelinu er veitingastaður, hestaleiga og á næsta ári verður opnuð þar baðstofa.

„Öll herbergin eru mismunandi að lögun og útliti. Ég vildi að gestir gætu komið ár eftir ár og valið um mismunandi herbergi og fengið nýja upplifun í hverri ferð. Bestu meðmælin eru þegar gestir vilja helst ekki yfirgefa hótelið og framlengja dvölina, en það er býsna algengt.

Mér þótti mikilvægt að allt á hótelinu væri einstakt fyrir hótelið. Ég hannaði því öll húsgögn og lét smíða hér bæði hér heima og erlendis. Minnstu smáatriði skiptu máli og ég lét framleiða hnífapör sérstaklega fyrir hótelið, einnig hannaði ég gólfteppi í anda hótelsins,“ segir hún.

Það er mikið að gerast í hverju rými. Hver er galdurinn við að blanda saman ólíkum efnum og áferð án þess að það verði of mikið?

„Það er mikilvægt að sama þema haldi sér í gegnum allt hótelið og það sé samræmi í hönnuninni. Allt þarf að lokum að tóna saman. Grunnurinn í öllum herbergjum er sá sami, gegnheilt eikarparket með fiskibeinamunstri, öll loft eru máluð í sama lit og baðherbergin öll eins. Þegar ég hanna þá er ég mjög fljótlega búin að sjá fyrir mér hver lokaniðurstaðan er, hvernig verkefnið kemur til með að líta út fullgert. Stundum virðist litavalið vera úr öllu samhengi, en málararnir eru farnir að þekkja mig og vita að þegar allt er komið saman var ástæða fyrir að ég valdi þennan ákveðna lit. Breytingar eru kostnaðarsamar og það er mikilvægt að vera með allt fyrir fram ákveðið þannig að það þurfi ekki að gera kostnaðarsamar breytingar á verkferlinu,“ segir hún.

Til þess að fullkomna heildarmyndina fór Elín utan ásamt eigendum hótelsins þar sem það sem vantaði upp á var keypt.

„Við keyptum veggfóður og alla innanstokksmuni fyrir hótelið mörgum mánuðum áður en vinna að innan hófst. Húsgögnin voru valin í hvert herbergi fyrir sig í þeim lit sem passaði við lit á málningu, veggfóður, efni á rúmbotnum, púðum, gardínum og ábreiðum. Að lokum voru eigendur og viðskiptavinir ánægðir með útkomuna og það er það sem skiptir mig mestu máli.“

Varstu lengi að vinna þetta verkefni?

„Verkefnið hefur staðið yfir frá árinu 2015 en hótelið var opnað 2017. Hönnun stendur enn yfir og á næsta ári verður opnað baðhús. Fyrstu gestirnir gistu á hótelinu haustið 2016 áður en það var opnað. Þeir voru í hestaferð og fengu að skoða hótelið. Þeir voru með fjórar svítur bókaðar á öðru lúxushóteli í nágrenninu en vildu endilega gista í Skálakoti og það varð úr að fjögur herbergi voru útbúin í hvelli.“

Finnst þér áherslur vera að breytast í innanhússhönnun?

„Hönnun er alltaf að þróast og það er mjög mikill munur á áherslum í hönnun. Fyrir mér skiptir máli hvar byggingin er staðsett, er hún í borg eða úti á landi og einnig skiptir aldur, saga og útlit hússins máli. Ég hefði ekki farið þessa leið í hönnuninni á Skálakoti ef þetta væri nýbygging í Reykjavík í nútímalegum stíl. Maður verður að aðlaga sig hverju verkefni fyrir sig og passa sig á að hönnunin og hvert verkefni hafi sína sérstöðu. Mér finnst mikilvægt að ferðamenn upplifi í minni hönnun eitthvað séríslenskt, eitthvað sem þeir finna ekki erlendis. Fágætisferðamennska hefur aukist á Íslandi og ég held að við eigum að skapa okkur sérstöðu með hönnun og ekki eltast við tískustrauma úti í heimi. Fyrsta verkefnið mitt eftir útskrift árið 2009 var innanhússhönnun á Hannes Boy Cafe á Siglufirði, en sú hönnun er í gamaldags stíl og í anda hússins,“ segir Elín.

Hvað drífur þig áfram í þinni vinnu?

„Það eru forréttindi að vinna við það sem mér finnst skemmtilegt. Vinnan mín er jafnframt áhugamál mitt og mér finnst oft og tíðum ég ekki vera í vinnunni.“

Hvernig ertu að þróast sem innanhússarkitekt?

„Ég tók master í innanhúss- og upplifunarhönnun í Mílanó í kjölfarið á grunnnáminu í innanhússhönnun. Svo þegar heim var komið lærði ég jákvæða sálfræði, sem er diplómanám á meistarastigi. Þetta nám hefur nýst mér vel í mínum hönnunarverkefnum. Í dag hugsa ég mikið um hvernig hönnun kemur til með að gera líf fólks betra með tilliti til hamingju og vellíðanar. Það hafa verið gerðar margar áhugaverðar rannsóknir á því hvernig jákvæð sálfræði og hönnun tengjast. Litaval, lýsing, lofthæð, útsýni, hljóðvist, form á húsgögnum hefur áhrif á líðan fólks, það eru svo sem ekki ný vísindi, en mér finnst mikilvægt að horfa til þessara þátta í minni hönnun.

Ég hef verið heppin með verkefni og viðskiptavini og hef fengið mörg stór verkefni tengd ferðaþjónustu. Þegar upp er staðið er draumur minn að glíma við krefjandi verkefni. Í kjölfar aukinnar reynslu treysta viðskiptavinir mér til að ná því besta út úr hönnuninni. Gagnkvæmt traust og virðing gerir starfið ánægjulegt og í þannig samstarfi næst besta útkoman fyrir alla.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »