Lífið í Peking gjörólíkt íslenska hversdagsleikanum

Ísey og Freyr hafa búið í Peking síðan í haust. …
Ísey og Freyr hafa búið í Peking síðan í haust. Hér eru þau á fótboltaleik með liðinu Gu'an sem eru þeirra menn í Peking. Ljósmynd/Aðsend

Ísey Dísa Hávarsdóttir er 26 ára sveitastúlka að norðan. Hún býr nú í Peking í Kína ásamt kærasta sínum og er lífið þar töluvert ólíkt því sem hún ólst upp við í sveitinni heima á Íslandi. 

Ísey og kærasta hennar, Frey Brynjarsson, hafði lengi langað til að búa erlendis en þau hafa bæði mikinn áhuga á ferðalögum. Sjálf hefur Ísey ferðast mikið á síðustu árum bæði sem flugfreyja hjá Icelandair og á sínar eigin spýtur. Hún er með BA-gráðu í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands og útskrifaðist úr verkefnastjórnun frá sama skóla í febrúar 2019.

Freyr úrskrifaðist með B.Sc.-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og stefndi á að fara til útlanda í meistaranám. Enskumælandi lönd heilluðu þau ekki þar sem þau eru bæði vel talandi á ensku. Skandinavía heillaði þau ekki heldur svo þau ákváðu að söðla um og skoða framandi lönd, ólík Íslandi.

„Eftir talsverða rannsóknarvinnu ákváðum við að það væri áhugavert og spennandi að prófa að sækja um í háskóla í Kína þar sem ég gæti þá lært mandarín-kínversku,“ segir Ísey í viðtali við ferðavef mbl.is. 

Freyr komst svo inn í einn virtasta háskóla Kína, Tsinghua University í Peking, og fluttu þau út síðastliðið haust. Ísey er dugleg að deila því sem á daga þeirra drífur í Peking, meðal annars á Instagram og blogginu sínu, Iseydisa.com.

Hver voru þín fyrstu viðbrögð við Peking?

Þegar ég kom fyrst hingað út hafði Freyr verið hér í rúman mánuð þar sem skólinn hjá honum byrjaði snemma í haust en ég vildi klára að vinna út sumarið. Hann var því búinn að fá íbúðina okkar afhenta, læra á lestarkerfið og græja flest allt sem þurfti að græja þegar ég kom. Það gerði það að verkum að fyrstu dagarnir mínir hér voru frekar þægilegir. Ég átti flug út 2. október og það vildi svo heppilega til að fyrsta vikan í október ár hvert er frívika hérna úti í tilefni af þjóðhátíðardeginum sem er 1. október. Við gátum því nýtt fyrstu vikuna mína í að skoða okkur vel um í borginni og hverfinu okkar án þess að Freyr þyrfti að hafa áhyggjur af skólamálum. Fyrstu viðbrögð mín við Peking voru því mjög góð. Veðrið var rosalega gott og það var ljúft að fara úr haustlægðaregngallanum heima í stuttbuxur og sandala.

Í haustfegurðinni á háskólasvæðinu.
Í haustfegurðinni á háskólasvæðinu. Ljósmynd/Aðsend

Peking, og Kína í heild reyndar, er reyndar afskaplega ólíkt öllu sem ég þekki að heiman og það fyrsta sem maður gerir er auðvitað að bregðast við því. Mér fannst mjög áhugavert að sjá hvernig samgöngumálum er háttað hérna en borgin er gríðarlega stór svo vegalengdirnar eru miklar auk þess sem umferðin er svakaleg vegna þess hve fólksfjöldinn er mikill. Það heppilega er samt að Peking stendur á algjöru flatlendi svo að það er hægt að hjóla út um allt með frekar lítilli fyrirhöfn og það er sannarlega það sem fólk gerir. Katie Melua laug engu þegar hún söng „there are 9 million bicycles in Beijing“! Það er þó ekki þannig að hver einasti einstaklingur eigi hjól heldur eru milljónir leiguhjóla úti um alla borg sem fólk nýtir sér mikið. Það er líka mjög hentugt að taka subway-lestina en það kerfi er brjálæðislega afkastamikið hérna úti og ég get ekki einu sinni ímyndað mér hvað það er margt fólk sem nýtir sér þann ferðamáta á hverjum degi en það hleypur á einhverjum milljónum. Ætli ég myndi ekki segja að fyrstu viðbrögð mín við því að koma til Peking væru þau hvað ég var hissa á því og hrifin af hvað allt gengur vel hérna þrátt fyrir ótrúlegan fólksfjölda og stærð á öllu mögulegu.

Hof í Fragrant Hills-fjöllunum sem eru rétt vestur af Peking.
Hof í Fragrant Hills-fjöllunum sem eru rétt vestur af Peking. Ljósmynd/Aðsend

Í hvaða hverfi búið þið og hvað er sérstakt við það?

Við búum í norðurhluta Haidian-hverfisins sem er í Norðvestur-Peking. Hverfið er sérstaklega þekkt fyrir það að flestir háskólar borgarinnar eru í þessu hverfi og það er því mjög líflegt og skemmtilegt. Tveir stærstu háskólarnir, Tsinghua University og Peking University, eru á besta stað í hverfinu og á milli þeirra er svæðið Wudaokou þar sem mjög algengt er að háskólanemar komi saman til að skemmta sér. Það er nokkuð algengt að sjá vestrænt fólk á þessu svæði en við búum smáspöl í burtu og í okkar hverfi gætir nánast eingöngu kínverskra áhrifa. Til dæmis talar hér um bil enginn ensku hérna í hverfinu okkar, hvorki í bönkum, á lögreglustöðinni né annars staðar. Það er auk þess mjög lítið um vestræna veitingastaði eða keðjur í kringum húsagarðinn okkar en þeim mun meira af litlum og skemmtilegum kínverskum stöðum. Við erum rosalega ánægð að búa í þessu hverfi vegna þess að okkur finnst svo skemmtilegt að vera í aðstæðum sem eru svona gjörólíkar öllu sem við þekkjum að heiman.

Lama-hofið í hjarta Peking.
Lama-hofið í hjarta Peking. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig hefur gengið að aðlagast svona risastórri stórborg?

Okkur hefur gengið ágætlega að aðlagast þessari gríðarlegu stórborg sem Peking er enda komum við hingað með það í huga að fá út úr þessu reynslu af því að gera eitthvað allt annað en við erum vanalega að gera. Það er samt auðvitað margt sem tekur lengri tíma að venjast en annað. Það er til dæmis svolítið erfitt að venjast því hvað allt tekur langan tíma. Ef ég ætla að skreppa í kínverskutíma, á kaffihús eða í ræktina tekur það alltaf alveg rosalegan tíma þar sem ég þarf að finna hjól til að leigja, hjóla á lestarstöðina, taka lestina og ganga svo eða hjóla á áfangastað og eins og fram hefur komið þá eru vegalengdirnar oft dálítið miklar. Við höfum því tamið okkur að gera svolítið færri atriði á dag heldur en við myndum annars gera en það hefur samt líka verið góður skóli í því að vera ekki alltaf á útopnu eins og manni hættir svo oft til heima.

Árstíðaskiptin í Peking eru skörp. Þessi mynd var tekin 30. …
Árstíðaskiptin í Peking eru skörp. Þessi mynd var tekin 30. nóvember, fyrsta daginn sem það snjóaði þennan veturinn. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða menningarmismun finnur þú helst fyrir?

Ég held að mér finnist mesti menningarmunurinn liggja í frítíma fólks og vinnumenningu. Ungt fólk hér í Peking ver svakalega miklum tíma í það að læra og vinna enda er samkeppnin hér mikil. Flest börn eru í skóla frá því snemma á morgnana og fram á kvöld og ungt fólk í háskólanum lærir meira og minna allan daginn. Hefðbundin vinnuvika er svo mjög löng og ekki óalgengt að fólk vinni marga klukkutíma á dag, sex daga vikunnar.

Það er líka svolítið fyndið hvað það er mikill munur á hinu persónulega rými sem fólk gefur sér og öðrum hér. Í Peking er fólksfjöldinn ansi mikill eins og ég hef komið inn á. Það er því ekki skrýtið að í lestum eða verslunum, á hjólastígum eða kaffihúsum er oft ansi þröngt á þingi. Fólk kippir sér almennt ekkert upp við það að hnoðast í einni kös í litlum rýmum og við vorum svolitla stund að átta okkur á því að það er ekkert athugavert við það að vera ekki stöðugt að afsaka sig ef maður rekst utan í fólk í svona aðstæðum. Það lá við að ég yrði hás fyrstu dagana af því að vera stöðugt að segja „oh sorry“, „excuse me“, „pardon me“ ef ég straukst við aðra manneskju. Svo fattaði ég fljótt að fólki er alveg nákvæmlega sama því það eru allir í þessum sömu aðstæðum og það dettur engum í hug að vera að afsaka það eitthvað sérstaklega.

Menningarmun finn ég svo líka mjög mikið fyrir þegar kemur að kaffidrykkju! Ég ætlaði varla að trúa því hvað það er erfitt að fá kaffi hér og hvað þá gott kaffi. Kaffið sem ég kaupi er oftar en ekki alveg lapþunnt, eiginlega bara gegnsætt eins og te og það er auk þess einn dýrasti drykkur sem þú getur fengið. Stórmerkilegt að mínu mati og mjög óviðbúið!

Þessi fína kona sýndi Íseyju fuglana sína og vildi gjarnan …
Þessi fína kona sýndi Íseyju fuglana sína og vildi gjarnan vera með þeim á mynd. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er það skemmtilegasta við að búa í Peking?

Það skemmtilegasta við það að búa í Peking er klárlega það að fá tækifæri til þess að lifa og hrærast í þessum suðupotti af mismunandi menningu sem borgin er. Peking skiptist í alls konar ólík hverfi og það er alveg á hreinu að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi hér. Það er rosalega skemmtilegt að fá að sjá hvernig Kínverjar, sem ég hafði að minnsta kosti alls ekki átt mikil samskipti við áður en ég kom hingað, lifa sínu lífi. Það er margt svo ofboðslega ólíkt því sem ég þekki en líka svo margt sem sameinar okkur. Fólkið hér er líka afar viljugt til þess að ræða við okkur um heima og geyma og eftir því sem ég skána í kínverskunni verður skemmtilegra og skemmtilegra að geta tekið þátt í þessum samræðum sem hingað til hafa verið frekar einhliða.

Í Peking er rosalega mikið af almenningsgörðum og útisvæðum sem var eitthvað sem ég átti ekki von á. Þessi svæði nýta Kínverjar út í ystu æsar og eru úti í öllum veðrum, ýmist að spjalla saman, syngja, dansa, gera alls konar æfingar eða spila kínverskt tafl. Þessu getur verið mjög gaman að fylgjast með og ég finn á mér að þegar það fer að hlýna mun ég prófa að slást í hópinn með þeim og stíga nokkur dansspor eða læra taflið!

Ef hins vegar við verðum þreytt á kínverska lífsstílnum eða fáum kannski smávegis heimþrá þurfum við alls ekki að örvænta. Þá skellum við okkur bara í eitthvert annað hverfi hérna í borginni. Sanlitun-hverfið hér í Peking er til dæmis þekkt fyrir alþjóðlegt yfirbragð og við förum reglulega þangað ef við þurfum smá vestræna innspýtingu. Þar má finna verslanir, veitingahús og þjónustu frá öllum mögulegum heimshornum en við höfum til dæmis farið á írskan bar, amerískt steikhús, þýskt bakarí, ítalskan veitingastað og japanskan sushi-stað þar. Víða má líka finna alþjóðlegar bókabúðir, kvikmyndahús og fleira sem hentar vel.

Það er misjafnt hvað fólk hengir út á snúru í …
Það er misjafnt hvað fólk hengir út á snúru í Hutong-hverfunum. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða hverfi af Peking, sem þú hefur komið til, er áhugaverðast?

Áhugaverðustu hverfin í Peking að mínu mati kallast Hutongs og eru flest í miðbænum. Þessi hverfi eru í mjög hefðbundnum kínverskum stíl og eru sögulega mikilvæg fyrir menninguna hér. Hutongs eru í raun þröngar götur og við þær standa lágreist grá steinhús með tilkomumiklum og litríkum þökum og þakskeggjum og það er mjög gaman að ganga um þessi hálfgerðu húsasund. Þessi hverfi eru svona eiginlega hjarta miðborgar Peking og það er enn þá búið í sumum götunum. Margar hverjar eru þó aðallega heimili alls konar lítilla verslana, listagallería, veitinga-, kaffi- og öldurhúsa. Það er hægt að rölta endalaust um og villast á skemmtilega og óvænta staði í þessum hverfum og ég hef í raun bara heimsótt lítinn hluta þeirra þótt ég hafi varið mörgum dögum í að ráfa um mismunandi Hutongs.

Hvernig leggst matarmenningin í þig?

Matarmenningin hér leggst stórvel í mig. Ég er mjög mikil áhugakona um góðan mat og eldamennsku og á ferðalögum finnst mér einna mest spennandi að smakka nýjan mat og prófa það sem er hefðbundið á hverjum stað fyrir sig. Það er óhætt að segja að hér er hægt að fá mjög áhugaverðan mat en ég hef sem betur fer verið mjög heppin. Það eina sem mér hefur alls ekki líkað eru einhvers konar innyflakássur og það þegar þeir taka upp á því að bjóða upp á marineraðar lappir í ýmsum útgáfum. Heilt yfir hef ég samt borðað rosalega góðan mat hérna og ég er búin að bæta tæknina mína í því að borða með prjónum allrosalega! Það er nefnilega mjög merkilegt og aðdáunarvert að sjá að Kínverjar nota prjóna til þess að borða bókstaflega allt. Að sjá fólk munda prjóna til þess að borða risastórar fylltar brauðbollur eða heil kjúklingalæri er bara alveg ótrúlegt og hefur hvatt mig og okkur til þess að gefast ekki upp!

Uppáhaldið mitt er að fara á svokallaða hot-pot-staði en þá sitja allir saman við borð sem er með stórum potti í miðjunni og sjóða eða steikja alls konar mat sem maður velur sér, svo sem kjöt, tófú, grænmeti og núðlur. Svo eru allir með litlar skálar af sósum, kryddjurtum, hnetum, ávöxtum og fleiru sem er meðlætið. Ég er líka rosalega hrifin af öllum mögulegum tegundum af „dumplings“ en það sem kom mér einna mest á óvart er að þeir eru aðallega hafðir sem morgunmatur hérna úti.

Gamlir og nýir tímar skarast á götum Peking.
Gamlir og nýir tímar skarast á götum Peking. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig var að eyða jólum og áramótum í Peking? Var mikið jólaskraut eða mikið um vestræn áhrif?

Jólin og áramótin hérna úti voru vægast sagt ólík því sem við venjumst heima á Íslandi eða í vestrænum löndum. Aðallega fyrir þær sakir að hér eru alls ekki haldin nein jól og þar af leiðandi er ekkert frí eða neitt sem bendir til þess að þessir dagar séu eitthvað öðruvísi. Í hverfinu okkar var alls ekki mikið um jólaskreytingar eða neitt sem gæti talist til vestræns jólaskrauts. Í alþjóðlegu hverfunum og í sumum verslunum var samt alveg talsvert um jólaskraut og jafnvel jólalög og jólatré. Fyrsti janúar var frídagur hérna úti svo við nýttum tækifærið og fórum með nokkrum góðum vinum á þýskt hótel í Sanlitun-hverfinu þar sem við fengum ekta vestrænan veislumat og töldum niður í nýja árið eins og venjan er heima.

Hvað þurfa Íslendingar sem langar til að ferðast til Peking helst að hafa í huga? En þeir sem vilja flytja þangað og til dæmis fara í skóla?

Það eru nokkrir hlutir sem er gott að hafa í huga ef á að ferðast til Peking. Í fyrsta lagi er mikilvægt að vita að Íslendingar þurfa vegabréfsáritun til þess að heimsækja Kína og það er gott að sækja um hana með góðum fyrirvara þar sem það getur tekið viku eða tvær að fá það afgreitt. Í öðru lagi er gott að vita að hér eru ekki notuð greiðslukort. Fólk sem er hér í einhvern tíma notar reyndar ekki reiðufé heldur! Hér er samfélagið nánast alveg háð farsímum og við borgum allt með smáforritum sem eru tengd beint við bankareikninga. Ferðafólk getur þó notað reiðufé nánast alls staðar.

Í þriðja lagi er ágætt að vita að við komu til Kína þarf að skrá sig í hverfið sem gist er í á nálægri lögreglustöð. Ég brenndi mig á þessu og það er ekki mjög skemmtilegt að klikka á þessu. Ef gist er á hóteli eða hosteli sér starfsfólkið hins vegar um þetta bras svo það er langsamlega best að vera örugg og gista á svoleiðis stöðum. Í fjórða lagi myndi ég hafa í huga að það er frábært tækifæri að fá að ferðast hingað og kynnast menningunni sem hér ríkir. Ég mæli með að skoða sem allra flest hverfi og smakka sem allra fjölbreyttastan mat.

Ef fólk vill flytja hingað er mikilvægt að huga vel að öllum vegabréfsáritunarmálum og hafa á hreinu hvað það er sem þú vilt gera hér. Stjórnvöld eru mjög hrifin af ýmiss konar pappírsvinnu og það borgar sig að vera með vegabréfsáritunar- og hvers kyns skráningarmál á hreinu og allt saman útprentað. Það tekur svolítið langan tíma að koma öllum þessum málum á hreint við komu inn í landið en þegar þau eru afgreidd er aðalmálið að njóta lífsins og reyna að upplifa sem allra flest!

Mjög hefðbundin kínversk máltíð.
Mjög hefðbundin kínversk máltíð. Ljósmynd/Aðsend
Sykurgljáðir ávaxtapinnar eru mjög vinsælt snarl í Kína.
Sykurgljáðir ávaxtapinnar eru mjög vinsælt snarl í Kína. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert