Reyna að stemma stigu við djammtúrisma

Frá Palma-ströndinni á Mallorca.
Frá Palma-ströndinni á Mallorca. AFP

Yfirvöld á Spáni hafa ráðist í það verkefni að stemma stigu við svokölluðum „djammtúrisma“ á eyjunum Mallorca og Ibiza. 

Yfirvöld á Balear-eyjunum vilja minnka ferðamennsku sem hverfist um mikla neyslu á áfengi á ákveðnum eyjum í eyjaklasanum. Eyjarnar Mallorca og Ibiza hafa verið gríðarlega vinsæll áfangastaður Evrópubúa síðastliðna áratugi og þá sérstaklega fyrir útskriftarferðir eða aðrar skemmtiferðir hópa. 

Stjórnvöld vilja með aðgerðunum breyta ímynd eyjanna. Með nýju lögunum má ekki auglýsa neina viðburði þar sem mikil áfengisneysla á að vera. 

Barir mega ekki bjóða kúnnum upp á að kaupa sig inn á staði með ótakmörkuðu áfengi í goði. Engir nýir „partíbátar“ munu fá starfsleyfi. 

Ef rekstraraðilar brjóta lögin geta þeir fengið sekt allt að 600 þúsund evra og misst rekstrarleyfi í allt að þrjú ár. 

Nýju lögin eiga bara við þrjú svæði, Arenal og Magaluf á Mallorca og vesturenda San Antonio á Ibiza.

„Markmið laganna er að skapa sjálfbærari og virðingarverðari ferðamennsku með tilliti til umhverfismála og lífsgæða íbúa og upplifun ferðamanna,“ segir í tilkynningu frá yfirvöldum.

Orðspor eyjanna „hefur verið neikvætt vegna vandræða í kringum hegðun sem tengd er áfengisneyslu á ákveðnum ferðamannastöðum á Mallorca og Ibiza.“

Lögin gilda tímabundið eða til ársins 2025 en líklegt þykir að gildingartími þeirra verði framlengdur.

mbl.is