Vaknaði við kynferðislega áreitni í flugi

Atvikið átti sér stað um borð í flugi Spirit Airlines.
Atvikið átti sér stað um borð í flugi Spirit Airlines. AFP

Kona segir að hún hafi vaknað við það í flugi að karlmaður var að áreita hana kynferðislega. 

Hin 22 ára gamla kona var í flugi með Spirit Airlines frá Atlanta til Detroit í Bandaríkjunum þegar atvikið átti sér stað. Hún vaknaði stuttu fyrir lendingu og segist hafa vaknað við það þegar karlmaður strauk á henni lærið. 

Konan, sem er námsmaður, segist hafa setið í sætinu í miðjunni, við hliðina á vini sínum sem sat við gluggann. Karlmaðurinn sem hún sakar um athæfið sat við ganginn. 

Hún segist hafa sofnað upp við vin sinn í fluginu og vaknað þegar flugvélin undirbjó sig til lendingar og þá hafi karlmaðurinn við hlið hennar verið með höndina ofan í buxum hennar að aftan. 

Konan, sem ekki er nafngreind í fréttum, sagði í viðtali við CNN að hún hafi hoppað á fætur og sagt karlmanninum og hætta að snerta hana. Hún segist hafa látið flugliða vita sem bauð henni að færa sig í annað sæti fyrir lendingu. Hún segist hafa neitað því hún vildi ekki skilja vin sinn eftir og bað um að maðurinn yrði færður. 

Þegar þarna var komið sögu var ekki nægur tími til þess að karlmaðurinn né hún gætu fært sig í annað sæti. Við lendingu í Detroit gaf konan skýrslu til lögreglu um málið.

Talsmaður Spirit Airlines sagði í viðtali við CNN að þau tækju ásakanir konunnar alvarlega og að flugfélagið myndi hafa samband við konuna. Hann staðfesti að konan hefði látið flugliða vita af atvikinu 18 mínútum fyrir lendingu í Detroit og að lögregla hafi hafið rannsókn á málinu strax við komu í borginni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert