Stakk PlayStation-tölvu í samband á flugvelli

Maður var í PlayStation-leik á flugvelli í Bandaríkjunum.
Maður var í PlayStation-leik á flugvelli í Bandaríkjunum. Skjáskot/Twitter

Það kannast margir við að hundleiðast á flugvöllum. Ferðalangur á alþjóðaflugvellinum í Portland í Oregon í Bandaríkjunum dó ekki ráðalaus og var einfaldlega með PlayStation-leikjatölvu meðferðis.

Fólk sem hefur ferðast með flugvélum í seinni tíð veit að það er ekki skortur á skjám á flugvöllum. Skjáirnir sýna komur og brottfarir og jafnvel auglýsingar. Sá ferðalangurinn sér leik á borði og stakk tölvunni í samband. Virtist hann jafnvel vera að tala við aðra leikmenn.

Fram kemur á vef CNN að ferðalangurinn hafi verið að spila leikinn Apex Legends. Þegar flugvallarstarfsmaður bað ferðalanginn að taka tölvuna úr sambandi spurði hann hvort hann mætti ekki klára leikinn. Því miður fyrir ferðalanginn fékk hann neitun og þurfti að hætta í miðjum leik. 

Twitter-notandi sem átti leið um flugvöllinn ætlaði ekki að trúa sínum eigin augum þegar hann sá manninn í tölvuleiknum og birti mynd af kappanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert