Er nauðsynlegt að gefa þjórfé á hótelum?

Þarf að gefa þjórfé á hótelum?
Þarf að gefa þjórfé á hótelum? Ljósmynd/UnSplash

Það eru hin ýmsu gjöld sem virðast smyrjast eins og Smjörvi við stofuhita ofan á reikning manns á hóteli. Það finnst því sumum hálfblóðugt að sýna starfsfólkinu sem þjónustar mann þakklæti með þjórfé. 

Íslendingar eru ekki vanir því að gefa þjónum og afgreiðslufólki þjórfé og því getur það verið ákveðinn höfuðverkur erlendis að átta sig á því hversu mikið þjórfé maður á að skilja eftir eða hvort maður eigi yfirhöfuð að skilja það eftir. 

Pistlahöfundur New York Times Travel, Karen Cleveland, segir að möguleikinn á því að ferðast sé lúxus og ef maður hefur efni á því hefur maður efni á því að sýna þakklæti. 

„Mín nálgun í lífinu er, ef þú hefur efni á þjónustu, hefurðu efni á þjórfé,“ sagði Cleveland og bætti við að fjöldi starfsfólks á hótelum sé á lágmarkslaunum. 

Erika Richter, samskiptastjóri American Society of Travel Advisors, mælir með því að fólk tileinki sér að gefa þjórfé. Hún segir að hversu mikið eigi að gefa fari eftir því hverskonar þjónustu þú fékkst og hvernig gististað þú ert á. 

Hér eru viðmið sem Cleveland og Richter tóku saman fyrir New York Times Travel. Þessar reglur miðast við Bandaríkin og mæla þær með því að fólk rannsaki hvernig reglurnar eru í hverju landi fyrir sig. 

Að komast á hótelið

Akstursþjónusta: Ef þú nýtir þér akstursþjónustu frá flugvellinum á hótelið ættir þú að gefa ökumanninum 5 bandaríkjadali fyrir hvern farþega sem er í bílnum. 

Farangursþjónusta: Ef þú nýtir þér farangursgeymsluna á hótelinu fyrir eða eftir dvöl þína ættirðu að gefa manneskjunni sem sá um þá nokkra dali fyrir hverja tösku. Ef starfsmaður kemur töskunni þinni upp á herbergi fyrir þig ættirðu að gefa honum nokkra dali í staðinn. 

Í herberginu

Þernur: Cleveland mælir með því að fólk skilji eftir 5 dali á hverjum degi fyrir hótelþernurnar sem þrífa herbergið. Hún mælir með því að fólk setji smá miða með og skrifi að þetta sé fyrir þernuna. Richter mælir svo með að fólk bæti við nokkrum dölum ef það eru fleiri en einn í herberginu.

Í lobbýinu

Á dögum netsins er kannski ekki mikil þörf fyrir upplýsingagjöf frá starfsfólki í afgreiðslunni á hótelum. Það getur þó búið yfir mikilli þekkingu sem aðeins heimamenn geta búið yfir. Ef þú færð ráð frá starfsmanni ættirðu að gefa honum 5 dali í þjórfé. 

Ef starfsfólkið greiðir úr einhverri flækju fyrir þig eða gefur þér betra herbergi ættirðu að skrifa góða umsögn um hótelið á netinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert