Sagt þær væru of stórar fyrir viðskiptafarrýmið

Huhana Iripa til hægri ásamt dætrum sínum Renell og Tere.
Huhana Iripa til hægri ásamt dætrum sínum Renell og Tere. Ljósmynd/NZ Heralds

Þrjár ný sjálenskar konur segjast hafa verið algjörlega niðurlægðar af starfsfólki Thai Airways þegar þeim var meinaður aðgangur að viðskiptafarrýmissætum sínum vegna stærðar sinnar. 

Huhana Iripa og dætur hennar Renell og Tere voru á leið heim til Auckland frá Bangkok í Taílandi eftir að hafa undirgengist megrunaraðgerð þegar atvikið átti sér stað. 

Mæðgurnar höfðu bókað sæti á viðskiptafarrými á leið heim svo þær gætu haft það þægilegt. Hver um sig greiddi 216 þúsund íslenskar krónur fyrir sætið. 

Þegar þær ætluðu að innrita sig í flugið nálgaðist starfsmaður þær með málband. „Við vorum niðurlægðar fyrir framan alla hina farþegana,“ sagði Iripa í viðtali við NZ Herald. Stuttu seinna voru þær umkringdar af fimm starfsmönnum sem fussuðu og sveiuðu.

„Síðan steig starfsmaður fram og sagði „nei þið eruð of stórar, þið eruð of stórar“,“ sagði Iripa. Þeim var sagt að þær þyrftu að sitja á venjulega farrýminu í staðinn. Eftir að hafa kvartað var þeim boðin endurgreiðsla á mismuninum á sætunum auk 36 þúsund íslenskra króna í bætur. þeim fannst þær eiga fulla endurgreiðslu skilið. 

„Ég hef aldrei upplifað svona mismunun vegna stærðar minnar, þannig að ég er í áfalli eftir þetta,“ sagði Iripa. Mæðgurnar fengu að lokum endurgreitt frá ferðaskrifstofunni sem þær bókuðu í gegnum.

Samkvæmt flugfélaginu var þeim meinaður aðgangur að viðskiptafarrýminu vegna þess að ekki eru til framlengingar á sætisbeltin þar. Aðeins fyrir venjulega farrýmið. Ef mittismál farþega er meira en 142 sentimetrar geta þeir ekki setið í sætum á viðskiptafarrýminu af öryggisástæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert