„Eiginmenn strjúka bílana sína meira en konur í Stuttgart“

Guðrún Ingimarsdóttir, söngkona og jógakennari, býr í Stuttgart Þýskalandi og …
Guðrún Ingimarsdóttir, söngkona og jógakennari, býr í Stuttgart Þýskalandi og segir borgina frábæra.

Guðrún Ingimarsdóttir, söngkona og jógakennari, býr í Þýskalandi, nánar tiltekið í Stuttgart. Hún hefur búið í borginni í 25 ár, en þar áður bjó hún í London um skeið. Hún lifir áhugaverðu lífi og segir heimilislífið frjálslegt og skemmtilegt þar sem hún er ein í heimili. Hún segir borgina dýra að lifa í en lúxusinn aftur á móti mikinn. Í borginni eru bílar á borð við Porsche og Mercedes gerðir. 

„Ég passa mig á að skipuleggja frítímann minn ekki of mikið og elska að vera bara í flæði. Að mínu mati gerast áhugaverðir hlutir þannig. Eitt af því besta við að búa í Stuttgart er að borgin er svo vel staðsett á meginlandinu og því er stutt í allar áttir. Ég er sem dæmi eina og hálfa klukkustund að fara til Sviss, rúmlega klukkustund til Frakklands og fjóra tíma að fara til Ítalíu.

Ég hef voðalega gaman af því að skreppa og fer þá stundum til Strassborgar í „Afternoon Tea“, á einu af uppáhaldskaffihúsunum mínum þar, ​Au Fond du Jardin, eða til Zürich í hádegisverð með vinum mínum í Sviss.

Rétt fyrir utan borgina þar sem ég bý byrjar Svartiskógur þar sem ég hef farið í margar göngur og svo verð ég að nefna einn af uppáhaldsstöðunum mínum hér, sem eru þýsku alparnir. Það tekur mig tvær klukkustundir með lest að vera komin við rætur alpanna. Ég þarf ekki nema tvo til þrjá daga þar, til að koma síðan endurnærð afur heim.“

Heldur reglulega námskeið fyrir dómara

Hvernig lýsir þú dæmigerðum degi í þínu lífi?

„Dagarnir eru fjölbreytilegir. Ég reyni að skipta vikunni á milli söngs og jóga. Ég er líka oft með námskeið í fyrirtækjum þar sem ég leiðbeini fólki með jóga, öndun og slökun að öðlast meiri meðvitund í líkama sínum. Það eru alls konar aðilar sem sækja jóganámskeið um þessar mundir. Sem dæmi hef ég haldið með reglulegu millibili námskeið fyrir dómara við Hæstarétt, Landsrétt og Stjórnunarrétt svo dæmi séu tekin. Ég held einnig námskeið fyrir kóra, þar sem ég blanda söngtækni, jóga og líkamsvitund saman.“

Er borgarmenningin og andrúmsloftið þar sem þú býrð í svona afslöppuðu flæði?

„Ég myndi ekki segja það. Um 90% af miðbænum var sprengdur í tætlur í lok stríðsins. Ólíkt München sem var byggð upp eins og hún var, er Stuttgart meira eins og leikvöllur arkitekta sem fengu að gera það sem þeir vildu. En það eru fallegir staðir inn á milli hér. Stuttgart er mikil iðnaðarborg. Þar má helst nefna bílaiðnaðinn, en sem dæmi eru bílar á borð við Mercedes og Porsche héðan. Bílar eru stöðutákn og gárungarnir segja að eiginmennirnir strjúki bílana sína meira en konurnar sínar hér!“

Guðrún segir kostinn við að búa í Stuttgart vera að …
Guðrún segir kostinn við að búa í Stuttgart vera að það er stutt í allar áttir. Meðal annars dásamlega náttúru. mbl.is/Alexey

Guðrún segir Stuttgart eina ríkustu borg Þýskalands og að sama skapi eina þá dýrustu að búa í. Það sem er skemmtilegast að gera er meðal annars að sækja hátíðir í Schwaben. 

„Fólk hefur gaman af því að halda hátíðir hér. Svo er allt sumarið undirlagt í alls konar tónlistar-, matar- og bjórhátíðum langt fram í október. Mitt uppáhald er vínuppskeruhátíðin í byrjun september, þar sem vínbændur kynna vínin sín. Allur miðbærinn er undirlagður litlum kofum þar sem þú getur sest niður í mat og drykk.

Svo er náttúrulega jólamarkaðurinn vinsæll, sem er einn sá stærsti í Þýskalandi og laðar að sér fólk alls staðar að. Persónulega finnst mér skemmtilegra að fara til Esslingen, sem er lítill bær í útjaðri Stuttgart, þar sem er skemmtilegur miðaldamarkaður í gamla bænum.“

Guðrún segir mjög öflugt menningar- og listalíf í Stuttgart. 

„Það vita það kannski ekki margir en Stuttgart er sú borg í Þýskalandi, þar sem flestir lifa á menningu og listum.“

Hvernig myndir þú skipuleggja góða helgi þar sem þú ert?

„Uppskrift að góðri helgi, er að fara á föstudagstónleika með útvarpshljómsveitinni, sem Teodor Currentzis, einn besti hljómsveitastjóri í heimi að margra mati, stjórnar. Ég myndi svo fara í bæinn seint á laugardagsmorgni, fara á markaðinn og kaupa mér grænmeti og ávexti. Síðan myndi ég heimsækja Mathöllina sem er með góðgæti alls staðar að úr heiminum. Setjast síðan niður í drykk með vinum og hanga fram á kvöld. Ætli ég myndi svo ekki vakna snemma á sunnudagsmorgni með 66 North-hlaupahópnum, við erum öll í fatnaði frá fyrirtækinu og förum út í skóg að hlaupa og faðma tré.“

Mælir með Mathöllinni í Stuttgart

Áttu þér uppáhaldsveitingahús í Stuttgart?

„Það eru nokkur veitingahús sem ég heimsæki reglulega. Hér eru mjög góðir ítalskir veitingastaðir, þar sem margir frá Suður-Ítalíu komu hingað að vinna í verksmiðjunum og fóru síðan út í veitingaiðnaðinn.

Á efri hæð Mathallarinnar er ítalskur staður sem heitir Empore. Í hverfinu mínu er einnig lítill og huggulegur staður sem heitir Da Maria. Eins borða ég oft á japönskum stað niðri í bæ sem heitir Mikoto. Það er einn veitingastaður sem ég hef sótt reglulega síðan ég flutti hingað. Hann hefur skipt um eigendur nokkrum sinnum, en ég held alltaf áfram að fara þangað. Hann er persneskur og heitir Nirvan. Þar fæ ég mér allt sama réttinn því ég þori ekki að panta mér eitthvað annað. Einhvern tímann fannst eigandanum nóg um að ég væri þarna alltaf fyrir sama matinn, svo hann bauð mér út að borða á annan stað.“ 

Guðrún segir mjög spennandi að flytja út til London á sínum tíma þar sem hún lærði söng. 

„Ég drakk í mig allt sem var í boði þar tónlistarlega. Eyddi hálfu dögunum í biðröðum eftir að heyra í mínum uppáhaldssöngvurum. En London var aldrei borgin mín og röð tilviljana leiddi mig til Stuttgart, þar sem ég sótti framhaldsnám í tónlistarháskólanum hér í þrjú ár og hef síðan ílengst þar til nú. Ég hef hins vegar alltaf verið mikið á ferðalagi og átti meðal annars einnig heimili í Portúgal í ein sex ár. 

Öruggari í Stuttgart en í Reykjavík um helgar

Guðrún segir að hún sé stöðugt að leita að öryggi í frelsinu. Hún hafi skapað sér fallegt líf í Þýskalandi sem er byggt á þörfum hennar og löngunum í lífinu. 

„Ég er á því að það er ekkert sem heitir öryggi í þessu lífi, það er lærdómur sem maður þarf að læra sjálfur. Maður getur reynt að halda fast í eitthvað, hvort heldur sem er eitthvert andlegt ástand eða ytri aðstæður, líkt og fólk eða vinna. En mín skoðun er sú að þeim mun meira sem þú heldur í eitthvað, þeim mun vansælli verður þú. Ef þú sleppir takinu, verður lífið einfaldara því það er auðveldara að lifa í flæði með það sem lífið býður þér upp á hverju sinni. Eitt er víst og það er að breytingar eru óhjákvæmilegar og eiginlega aldrei til eitthvað sem er fullkomið öryggi. Þess vegna finnst mér mikilvægast í mínu lífi að hafa gott fólk í kringum mig, sem stendur með manni hvort heldur sem maður er glataður eða frábær. Einnig er ég mikið fyrir fólk sem lánar manni dómgreind þegar þörf er á. Ég er einstaklega lánsöm með fólkið í mínu lífi!“

Guðrún segir að sögur séu af því að hún hafi byrjað að syngja lög eftir Bítlana áður en hún byrjaði að tala og því hafi söngurinn kannski legið vel við henni. 

„Ég var víst alltaf syngjandi sem barn. Enn þá í dag er ég með tónlist í höfðinu. Ég hef staðið mig að því að vera að raula eitthvað án þess að taka eftir því, ég tek eftir því þegar fólk byrjar að stara á mig. Þegar maður vinnur við söng er oft hætta á að leitin að fullkomnun verði til þess að sönggleðin týnist. En svo upplifir maður þessi flæðandi augnablik og maður gleymir öllu streðinu. Ætli sannast væri ekki að segja að með söngnum hef ég náð að túlka tilfinningar sem ég hef ekki komið öðruvísi frá mér.“

Hvað ættu allir að kaupa í Stuttgart?

„Ég mæli með freyðivíni frá Kessler og góðri flösku af Riesling-hvítvíni sem kemur úr vínhæðunum við borgina.“

Hvað ættu ferðamenn að varast?

„Það er nú lítið sem maður þarf að varast. Stuttgart ein ein öruggasta borg Þýskalands. Í raun finnst mér ég öruggari hér á ferli síðla kvölds en í Reykjavík um helgar.“

Guðrún heldur reglulega námskeið fyrir alls konar fagfólk, meðal annars …
Guðrún heldur reglulega námskeið fyrir alls konar fagfólk, meðal annars dómara.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert