Rannveig Borg segir örlögin hafa leitt hana til Sviss

Rannveig er kraftmikil kona sem býr og starfar í Sviss.
Rannveig er kraftmikil kona sem býr og starfar í Sviss.

Rannveig Borg Sigurðardóttir lögfræðingur starfar og býr í Sviss, nánar tiltekið í Zug. Hún er lögfræðingur hjá Adecco Group AG, fyrirtæki sem skráð er á markaði í Zurich og er með starfsemi sína í borginni. Hún er lögfræðingur samstæðunnar og annast meðal annars mál sem tengjast kaupum og sölu fyrirtækja, fjárstýringu auk ýmissa annarra mála á fyrirtækjasviði. 

Hvers vegna varð Sviss fyrir valinu?

„Það er að mörgu leyti tilkomið vegna þess að ég lærði lögfræði í París við Sorbonne-háskólann þar sem ég sérhæfði sig í alþjóðalögum. Samhliða námi starfaði ég á lögfræðistofu í París. Sú reynsla greiddi götu mína til starfa sem lögfræðingur hjá alþjóðlegum banka, BNP Paribas í París. Þar starfaði ég sem lögfræðingur á fyrirtækjasviði. Nokkrum árum seinna flutti ég til Lúxemborgar með þáverandi sambýlismanni mínum og hóf þar störf hjá alþjóðlegri lögmannstofu, Allen & Overy. Þegar þarna var komið sögu hafði ég búið og starfað erlendis meira og minna í tólf ár og fékk fljótlega mikla heimþrá í fyrsta skipti á ævinni. Sagði bless við Lúxemborg eftir árs dvöl, flutti til Íslands og hóf störf hjá BBA (núna BBA/Fjeldco) lögmannstofunni. Eftir eitt og hálft ár á Íslandi,  þegar íslenskt fyrirtæki voru mörg búin að vera að teygja starfsemi sína til London, var ég send til London til að opna skrifstofu þar.  Eftir rúmt ár í London, gekk ég til liðs við Actavis á Íslandi. Var lögfræðingur þeirra á Íslandi en sá einnig um lögfræðileg málefni tengd Mið-Austurlöndum og Afríku. Þegar Actavis flutti höfuðstöðvarnar til Sviss, fékk ég tækifæri til starfa í Sviss ásamt fjölmennum hópi frá Actavis. Nokkru seinna skipti ég um starfsvettvang og fyrirtæki en hef búið og starfað áfram hér í Sviss. Það má segja að ég hafi gert tvær tilraunir til að flytja aftur til Íslands en í bæði skiptin verið skilað aftur. Fyrst til London og seinna til Sviss.“

Hvað er heillandi við borgina sem þú býrð í?

„Zug-svæðið er ákaflega heillandi og fallegt. Fegurðin við Zug-vatnið er ólýsanleg. Hér er rólegt og friðsælt að vera. Mikið um græn svæði. Ég var mikil hlaupakona og nýtti mér þau óspart. Þó að ég geri það minna í dag þá fylgir því vellíðan að hafa mikið af grænni náttúru í kringum sig.  Svisslendingar hafa útbúið mörg góð baðsvæði við vötnin sem þeir kalla „Badi“, þar er hægt að sóla sig og hvílast á góðum sumardögum. Ennfremur er einstaklega stutt á skíði, bæði svig- og gönguskíði  Ég get ákveðið á laugardagsmorgni að skella mér á frábær skíðasvæði sem eru í 30 mín. til 70 mín. fjarlægð á bíl. Ég lærði hér skautagönguskíðatækni og finnst það nú ekki síður skemmtilegt en svigskíði.

Rannveig ásamt syni sínum á skíðum.
Rannveig ásamt syni sínum á skíðum.

Zurich borgin þar sem ég starfa er einnig mjög heillandi. Zurich hefur kosti stórborga án þess að vera þó stórborg, eins og fjölbreytt lista og menningarlíf, frábæra veitingastæði og búðir. Jafnframt því að vera umhverfisvæn og falleg borg. Zurich er laus við helstu galla stórborga eins og öngþveiti og fólksmergð.“

Ertu í draumastarfinu?

„Mig dreymdi um að starfa erlendis. Helst í fleiri en einu landi. Ég vildi vinna í alþjóðlegu umhverfi. Það er nákvæmlega það sem ég hef gert og er að gera. Ég er heppin, í góðu starfi, hjá alþjóðlegu fyrirtæki, og fæst við verkefni sem flest hver eru mjög áhugaverð og spennandi. Ég hef mikið frelsi og nýt trausts í vinnunni og þar ríkir góður andi. Ég sakna þess þó stundum að starfa ekki í tengslum við Ísland. Ætli draumastarfið núna væri ekki alþjóðlegt starf sem tengdist að einverju leyti Íslandi. Þar sem ég hefði fullkomið frelsi, gæti unnið hvar sem er og hvenær sem væri. Sinnt samhliða skriftum og öðrum áhugamálum, eða frekara námi. Ætli það sé þó ekki eins og með margra drauma svona „Dream on“.“

Skiptir hollt og gott starfsumhverfi þig miklu máli?

„Hollt og gott starfsumhverfi skiptir mig mjög miklu máli. Ég held að ég geti tekist á við nánast hvað sem er í vinnunni ef andrúmsloftið er heilbrigt og gott.  Hvort sem það er of mikil vinna, óvæntar uppákomur, mistök eða eitthvað annað. Ég hef unnið þar sem andrúmsloft er rafmagnað og þar sem ríkir mikil samkeppni og lítið er um jákvæð samskipti. Þar sem starfsfólk þorir varla að fara í hádegismat án þess að skilja eftir jakka á stólnum eins og það hafi rétt skroppið. Það er vont til lengdar en mjög góð reynsla og kennir manni að meta hversu mikilvægt hollt og gott starfsumhverfi í raun er.“

Hvað gerir þú á góðum degi þar sem þú býrð?

„Fyrir utan skíði og strandferðir sem gera alla daga góða, finnst mér frábært að byrja daginn á góðum jógatíma í Enge-hverfinu í Zurich, fara í hádegismat í Grieder-kauphúsinu með útsýni yfir Zurich, rölta síðan um götur Zurich-borgar, meðal annars Rennweg (sem Svisslendingar virðast halda að ég heiti eftir), fara á Enge Badi-ið (sem er sérútbúin strönd á Zurich-vatninu), synda í Zurich-vatninu og að lokum borða á Hiltl-grænmetisveitingarstaðnum. Ennfremur verð ég að nefna lúxus góða daga sem myndu fela í sér ferð í Spa-ið á Honegg-hótelinu í Enntbürgen eða dögurð á Dolder-hótelinu í Zurich.“

Áttu uppáhaldsveitingastað?

„Þeir eru mjög margir. Til dæmis Hafen-veitingarstaðurinn í Zug. Að sitja þar úti með útsýni yfir Zug-vatnið að sumri til er dásamleg upplifun sem ekki er hægt að fá nóg af. Í Zurich finnst mér Hiltl-grænmetisveitingastaðurinn mjög góður og ég fer mikið þangað. Hann er nokkurs konar stofnun hér og nánast alltaf öll borð setin.“

Hvaða bók lastu síðast?

„Ég las Aðferðir til að lifa af, eftir Guðrúnu Evu Mínvervudóttur.“

Áttu góða sögu af þér í vinnunni?

„Já, fjölmargar. Til dæmis þegar ég var nýbyrjuð hjá Allen & Overy í Lúxemborg og stofan nýflutt í nýtt húsnæði með nýju fallegu teppi á gólfinu. Í tilefni af nýja húsnæðinu var helstu kúnnum boðið. Ég var í nýrri fínni dragt með óþarflega stórt veski. Sneri mér snögg við um kvöldið og það vildi ekki betur til en það var þjónn fyrir aftan mig með bakka fullan af glösum af rauðvíni. Ég vissi ekki fyrr en „Managing partnerinn“ var kominn á fjóra fætur að hella  hvítvíni yfir rauðvínið að reyna að ná þessu úr. Ég var auðvitað miður mín. Það gat ekki farið fram hjá neinum hver nýi lögfræðingurinn var. Sagan endar þó vel því daginn eftir þá sáust engin ummerki eftir þetta slys og á þetta var aldrei aftur minnst.

Þegar ég var að vinna hjá BNP Paribas vann ég m.a. við að selja dótturfyrirtæki bankans á Mauritius-eyjum og þurfti að ferðast þangað oft. Ferðaðist oftast með samstarfsmanni og vorum þá bókuð á efri hæðina í Boeing 747 til að fá næði til að vinna á leiðinni. Þetta var að sjálfsögðu misskilið af velviljuðum áhafnarmeðlimum, komið með kampavín og hvaðeina til að láta „brúðhjónunum“ líða vel.

Það var líka í ferð sem hófst með nákvæmlega svona flugi sem ég kom næstum af stað diplómatískum vandræðum á milli Íslands og Mauritius. Ég vissi að ég þurfti ekki vegabréfsáritun en eitthvað virtist Ísland vefjast fyrir yfirvöldum og ég var stöðvuð í vegabréfseftirlitinu og spurð spjörunum úr en gat lítið sagt þar sem ég þurfti að gæta fyllsta trúnaðar. Á endanum fékk ég aðstoð lögfræðings á staðnum til að leysa úr málinu. Þetta gerðist reyndar í tvígang. Ég var því mjög glöð með að þetta var ekki brúðkaupsferðin mín.“

Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu?

„Fyrir utan hið augljósa sem er öxullinn í mínu lífi hann sonur minn, á ég góða vini og stórfjölskyldu sem eru mér mikilvæg.  Hvort sem það er í einkalífi eða vinnu þá skiptir það mig lykilmáli að frelsi og traust ríki. Ég kann því illa að þrengt sé að mér.

Það skiptir mig einnig miklu máli að njóta lífsins á heilbrigðan hátt, að lífið sé spennandi og sem oftast skemmtilegt. „Groundhog day“ væri mín martröð.“

Hvers saknarðu helst frá Íslandi? 

„Frá því ég lauk stúdentsprófi hef ég búið fimm til sex ár á Íslandi þar sem ég reyndi að flytja tvisvar aftur heim, en örlögin leiddu mig aftur út. Ég er samt mikill Íslendingur og held góðum tengslum heim. Ég er mikið heima og á þar íbúð. Ég næ því ekki oft að sakna Íslands. Ég hef það fyrir reglu að þegar ég get þá reyni ég að mæta við viðburði eða í veislur sem mér er boðið í.“

Hvernig var að flytja út fyrst?

„Ég flutti fyrst út til Frakklands stuttu eftir stúdentspróf. Það var ekki erfitt af því að ég var alls ekki að stefna að því að flytja út á þeim tíma. Mig minnir að þetta hafi verið í september eða október eftir að ég kláraði stúdentspróf. Ég var á leið í tungumálaskóla til Tours (sem er í miðju Frakklandi), ætlaði að vera í nokkra mánuði og læra frönsku sem ég hafði ekki haft kost á að læra í menntaskóla. Ég fann mér þó alltaf leið til að vera aðeins lengur. Þetta gerðist því allt mjög hægt og aðlögunartíminn við að flytja út var mjög langur.  Þegar ég flutti út núna til Sviss fyrir tæpum níu árum þá var það frábært í alla staða. Eins og áður segir flutti ég út með Actavis-stafsfólkinu og það er og var mjög góður hópur. Ég flutti út ein með níu mánaða gamalt barn og au-pair stúlku. Ég passaði mig á að flytja nálægt skemmtilegu og góðu fólki. Þetta var góður tími og ég held að flestir sem tóku þátt í því ævintýri séu því sammála.“

Hvað værir þú að gera ef þú þyrfti ekki að vinna fyrir peningum?

„Ég myndi vinna aðeins minna, kannski 50%, stunda meira jóga, golf og skíði. Ég myndi ferðast í öllum skólafríum með syni mínum til að sýna honum meira af heiminum, skrifa að minnsta kosti eina skáldsögu (ég er alltaf með einhver drög í gangi) og læra meira um heilsutengd málefni og fíknifræði. Ætli ég myndi ekki einnig nota tækifærið og leita að nógu góðum Barba-pabba víðsvegar um heiminn.“

Hvað er besta ráð sem þú hefur fengið?

„Líklega það sem bróðir minn sagði við mig áður en ég fór fyrst utan. Að nýta það sem ég hefði á þeim stað sem ég væri en ekki hugsa um eða velta mér upp úr því sem ég hefði ekki.“

En það versta?

„Að gefast upp og hætta þegar eitthvað er erfitt og á móti blæs.“

Umhverfið í Sviss er mjög hentugt fyrir útiveru.
Umhverfið í Sviss er mjög hentugt fyrir útiveru.

Hver er áhugi þinn á heilsutengdum málefnum?

„Ég er nýbúin að ljúka við nokkurra vikna kúrs hjá Ecornell í „Plant Based Diet“ til að geta tekið upplýsta ákvörðun varðandi mataræði. Ég hef rólega færst nær grænmetisfræði og sannfærst um ágæti þess án þess að vilja skilgreina mig sem vegan. 

Ég fékk síðan hálfgert áfengisógeð í byrjun sumars og ákvað að smakka ekki vín í bili. Það bil ríkir enn, fyrir utan eitt glas af kampavíni um áramótin sem mér fannst ekki lengur gott á bragðið. Mér finnst frábært að hafa frelsið til að ákveða án áreynslu að drekka ekki.

Ég hef mikinn áhuga á fíknifræði. Sjálf sigraðist ég fyrir um tuttugu og fimm árum á tíu ára langri baráttu við átröskun. Það er stór hluti af minni ævi og sú reynsla breytti mér. Það blundar alltaf í mér að nýta þá reynslu til að hjálpa öðrum. Ennfremur tengist ég og hef tengst náið einstaklingum með fíknisjúkdóma og ég veit því hvað það er að missa tökin.

Fíknisjúkdómar eru allt of algengir hvort sem það er áfengi, matur, eiturlyf, lyfseðilsskyld lyf eða spil. Fíkn kemur aftan að manni og það er enginn óhultur.  Ég ætla núna að prófa að taka kúrsa í fíknifræði með vinnu og sjá hvert það leiðir mig.“

Strengdir þú áramótaheit?

„Mér leið ekki eins og ég þyrfti að strengja ný heit um þessi áramót. Ég er á vegferð og ætla að halda henni áfram. Gera góða hluti sem láta mér líða vel og fá hjartað til að slá hraðar. Mig langar að halda áfram að skoða heiminn og sýna syni mínum þau ævintýri sem þar leynast.“

mbl.is